Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Munnhörpur og fleiri munir frá Gvendi þribba fundust
Finnbogi Björnsson, Tómas Young og Kjartan Már Kjartansson með muni tengda Gvendi þribba. VF-mynd/pket.
Miðvikudagur 6. maí 2015 kl. 07:47

Munnhörpur og fleiri munir frá Gvendi þribba fundust

Munnhörpur, myndir og munir úr eigu Guðmundar Snælands, Gvendar þribba, þekkts bæjarbúa í Keflavík, fundust við tiltekt á elliheimilinu Hlévangi nýlega en þar dvaldi hann síðustu ár sín.

Finnbogi Björnsson fráfarandi framkvæmdastjóri Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum afhenti munina til Reykjanesbæjar og tóku Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar við þeim. Ekki er ólíklegt að Guðmundur fái einhvern sess í Hljómahöllinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar sem eru komnir um miðjan aldur muna margir eftir Guðmundi Snæland úr bæjarlífinu. Það er skemmtileg lýsing á honum í afmælisgrein þegar hann varð sextugur, í dagblaðinu Tímanum, árið 1971 en Guðmundur var fæddur 1911 á Ísafirði og dó í Keflavík árið 1981, sjötugur að aldri. Í greininni segir svo: Af manninum, Guðmundi Snæland er það að segja, að ýmsum þykir hann skera sig nokkuð úr hópnum, þar sem hann stendur, hvítfextur og fótfrár að upplagi, með lífsbikarinn fylltan súrri veig eða sætri á víxl, eins og gengur. Í amstri dægranna hefur hann leikið sér að því að „dansa í gegn“ í öllum veðrum. Hann er kátur eins og krían, blæs í eigin hörpu eins og hún, og melódían fýkur með storminu víða vegu.“



Gvendur þribbi var litríkur í bæjarlífinu í Keflavík á sínum tíma en þekktur fyrir munnhörpuna en tvær slíkar fundust eftir hans dag á Hlévangi.