Mun Trukkurinn verja titilinn í ár?
Aflraunakeppnin Sterkasti maður Suðurnesja verður haldin á Ljósanótt í sjöunda skiptið og hafa aldrei fleiri verið skráðir til leiks. Það má því búast við hörku keppni um hvert sæti svo ekki sé nú talað um sjálfan titilinn sem undanfarin fjögur ár hefur verið einokaður af Sturlu Trukki Ólafssyni. Aðeins tveir menn hafa hlotið titilinn en Freyr Bragason bar hann 2002-2003. Nú er spurningin hvort einhver í hópnum velti Sturlu úr sessi.
Dagskrá mótsins hefst á föstudeginum kl.18 við Slökkvistöðina í Keflavík þar sem keppendur reyna á með sér í trukkadrætti. Auk þess eiga þeir að henda Atlassteininum svokallaða yfir rá.
Á laugardeginum kl. 14:30 verður svo keppni haldið áfram á túninu neðan við Svarta pakkhúsið. Þar reyna keppendur á með sér í ýmsum aflraunum, t.d. steinalyftum í ýmsum útgáfum og bóndagöngu.
Keppnin er haldin af Massa í samstarfi við ýmsa styrktaraðila.
------
VFmynd/elg - Trukkurinn í átökum á síðustu Ljósanótt. Tekst honum að verja titilinn í ár?