Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Mun örugglega setja mér einhver góð markmið“
Sunnudagur 10. janúar 2010 kl. 14:18

„Mun örugglega setja mér einhver góð markmið“

„Þegar litið er til þjóðmálanna er ástand efnahagsmála mér ofarlega í huga. En ástandið hefur verið afar erfitt fyrir bæði fyrirtæki og fjölskyldur hér á svæðinu. Tafir ríkisstjórnar Vinstri Grænna og Samfylkingar við Suðvesturlínu hafa valdið mér skelfilegum vonbrigðum enda hafa tafirnar viðhaldið atvinnuleysi á svæðinu,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins þegar hún er innt eftir því hvað henni sé efst í huga eftir árið 2009.


„Ferðaþjónustan gegnir nú mikilvægari hlutverki en áður sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein. Við hjá Bláa Lóninu höfum fundið fyrir vöxt greinarinnar á árinu og ég fagna frekari uppbyggingu greinarinnar hér á svæðinu t.d. verkefnum tengdum heilstengdri ferðaþjónustu. Hér í Reykjanesbæ var opnun Víkingaheima ánægjulegur viðburður sem er mikilvæg viðbót þegar litið er til aukinna afþreyingarmöguleika fyrir ferðamenn sem sækja okkur heim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ljósanótt og sýningin Reykjanes 2009 eru einnig minnisstæð. Ljósanótt er öflugur vitnisburður um fjölbreytt menningarlíf en metnaðarfullar sýningar bæði nýlist og hefðbundnari sýningar settu svip sinn á hátíðina sem var afar fagleg og vel skipulögð. Gagnrýnendur og blaðamenn Morgunblaðsins völdu Flökkuæðar – loftfar, sýningu Ingu Þóreyjar Jóhannesdóttur, sem haldin var í Listasafni Reykjanesbæjar í tengslum við Ljósnótt sem eina af bestu sýningum ársins 2009.


Atvinnusýningin, Reykjanes 2009, veitti góða innsýn í þá breidd fyrirtækja sem hér starfar – bæði nýsköpunarfyrirtæki og fyrirtæki sem byggja á gömlum grunni.


Sumarið var frábært en ég fór m.a. í frí til Ítalíu þar sem ég eyddi. tveimur vikum við Garda vatnið sem er einn fallegasti staður sem ég hef heimsótt. Ég hef ferðast reglulega til Norður Ítalíu undanfarin 10 ár en svæðið er afar fjölbreytt og alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa. Síðastliðiðið sumar hóf ég einnig að stunda golf og ég átti skemmtilegar stundir á golfvellinum í góðum félagsskap.


Ég strengi ekki áramótaheit en mun örugglega setja mér einhver góð markmið og horfi bjartsýn til nýs árs!“