Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mummi Hermanns gefur út nýjan tónlistardisk „Í tilefni dagsins“: Sameinar fjórar listgreinar
Föstudagur 29. júlí 2005 kl. 13:34

Mummi Hermanns gefur út nýjan tónlistardisk „Í tilefni dagsins“: Sameinar fjórar listgreinar

Tónlistarmaðurinn Guðmundur Hermannsson er Suðurnesjamönnum af góðu kunnur. Hann stendur á tímamótum – er að fylla fimm tugi – og fannst hann þurfa að gera eitthvað skemmtilegt af því tilefni. Og hvað gera tónlistarmenn? Jú, þeir gefa út plötu. Mummi Hermanns er að gefa út geisladiskinn „Í tilefni dagsins“, fjórtán laga disk, og ætlar að fylgja honum eftir með útgáfutónleikum í veitingahúsinu Stapa föstudaginn 5. ágúst nk. kl. 20. Þangað mætir Mummi með 10 manna hljómsveit og lofar skemmtilegum tónleikum.

Tónlist sem spannar þrjá áratugi
Guðmundur Hermannsson segir lögin á nýja geisladisknum vera samin á 30 ára tímabili í lífi sínu. Það elsta sé frá árinu 1972 eða 73 en það nýjasta varð til síðasta vetur. Hann segir tónlistina vera af ýmsum toga. Hann hafi mikið samið tónlist við ljóð úr ljóðabókum sem hann hafi annað hvort keypt eða fengið gefins. Diskurinn sé fjölbreyttur og endurspegli þá tónlist sem hann hafi verið að flytja á sínum ferli. Ekkert laganna á disknum hefur verið gefið út áður, utan eitt, sem var á hljómplötu hernámsandstæðinga, Hvað tefur þig bróðir, árið 1981. Það lag heitir Klukkurnar í Nagasaki og er nú endurútgefið en þann 9. ágúst eru 60 ár frá því kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasaki.

Tíu ára titillag
Um titillag disksins sagði Mummi að það væri að hluta til samið á skólaárum sínum en lagið hafi hann klárað í tilefni af opnun bókasafnsins í Kjarna árið 1995. Verkið sé klassískt og upptakan er orðin 10 ára gömul. Rykið var sem sagt dustað af þessari tíu ára gömlu upptöku en hin þrettán lögin á disknum voru tekin upp í vetur. Uppúr áramótum var farið af krafti í upptökur hjá Vilhjálmi Guðjónssyni og afraksturinn er 14 laga diskur með tæplega klukkustund af tónlist.

Margir stílar í tónlist – rólegt í fyrirrúmi
Aðspurður hvernig diskurinn væri, upplýsti Mummi að á disknum væri að finna marga stíla tónlistar. Þarna væri Jazz, Suður-Amerísk tónlist, Diskó og Rokk en aðallega þó róleg tónlist.
En hvers vegna að gefa út tónlistardisk núna? Er það 50 ára afmæli tónlistarmannsins eða einhverjar aðrar hvatir? Mummi sagðist hafa ætlað að gefa diskinn út fyrir 10 árum síðan, en aldrei komið því í verk. Nú hafi hins vegar verið að duga eða drepast. Mummi nefnir Vilhjálm Guðjónsson sem sína hægri hönd í málinu. Hann hafi tekið upp diskinn og útsett tónlistina ásamt sér. Þá spili Vilhjálmur á mörg hljóðfæri í mörgum lögum.

Landslið tónlistarmanna
Mummi fékk einvala lið tónlistarmanna í lið með sér við framleiðslu á disknum. Þannig sjái Jóhann Hjörleifsson úr Sálinni um trommur og áslátt. Þórir Úlfarsson leiki á hljómborð í öllum nema einu lagi, Hafsteinn Valgarðsson leiki allan rafmagnsbassa og Róbert Þórhallsson sér um kontrabassann. Þá leiki þeir Sigurgeir Sigmundsson, Vignir Bergmann og Vilhjálmur Guðjónsson á gítar. Snorri Sigurðsson leikur á trompet og Ingvi Þór Kormáksson leikur á píanó í einu lagi. Þá má geta þess að sonur Mumma, Valdimar Guðmundsson leikur á básúnu í tveimur lögum og raddar tvö lög með föður sínum.

Ljóðalestur kveikir tónlistarneista
Eins og fyrr segir er tónlistin samin við ljóð sem Mummi hefur lesið. Aðspurður sagði hann tónlistina spretta upp úr ljóðalestrinum. Ljóðin kveiki hjá sér neista eða takt sem síðan verður að lagi. Stundum komið lagið strax en oft taki þau tíma að koma fram.
Mummi hefur þó ekki eingöngu fengist við tónlistina á disknum, því þar eru líka tveir textar eftir hann. Annar er við lag sem heitir Feitur og hitt við lagið Lítt í spegilinn. Hann sagði textana vera sjálfsskoðun og snúast um það að þekkja sjálfan sig. Mummi fór nefnilega í mikla sjálfsskoðun síðasta vetur þegar honum fannst nóg komið af aukakílóum. Árangurinn vita allir sem þekkja til Mumma, en hann hefur létt sig um tugi kílóa og segist sjálfur lifa nýju lífi.

Ferillinn hófst í fiðlunámi 7 ára
En hvernig fékk Guðmundur Hermannsson tónlistina í blóðið. Hann rifjar upp fyrir blaðamanni að hann hafi farið með foreldrum sínum á sinfóníutónleika sjö ára gamall og hafi þá strax byrjað að læra á fiðlu. Hann hafi einnig lært á tenórhorn hjá Herberti H. Ágústssyni en hætt því um fermingu. Tónlistin hafi síðan tekið aftur við í skólahljómsveit á Laugarvatni þegar Mummi var 17 ára og haldist óslitið síðan. Hann hafi byrjað í píanónámi 19 ára og klárað tónmenntakennaradeildina í framhaldi af því 24 ára. Mummi hefur kennt tónmennt eftir það. Fyrst í Holtaskóla í Keflavík og síðar í Heiðarskóla frá því hann tók til starfa.

Kröftugt tónlistarstarf þó svo vaggan sé ekki lengur í Keflavík
Keflavík er vagga tónlistarinnar á unglingsárum Mumma en þá voru margir þjóðþekktir tónlistarmenn að koma fram, sem enn þann dag í dag eru í fremstu röð og skráð sig í sögubækur sem goðsagnir. Mummi hefur tekið þátt í tónlistaruppeldi margra Keflvíkinga sem tónmenntakennari í grunnskólunum. Hann vill þó meina það að Keflavík sé ekki lengur vagga tónlistarinnar en tónlistarstarfið í bænum sé þó ennþá kröftugt, m.a í tengslum við tónlistarskólann. Þá séu alltaf að koma fram tónlistarmenn sem nái langt og nýjasta dæmið sé  hljómsveitin Hjálmar. Þar þakkar Mummi einnig Rúnari Júlíussyni og hans útgáfufyrirtæki.

Fjórar listgreinar sameinaðar
Umslag nýja disksins hans Mumma er mjög smekklegt en það prýðir fallegt málverk sem ber sama titil og diskurinn eða „Í tilefni dagsins“. Mummi sagði söguna á bakvið umslagið. Þannig var að fyrir fimm árum síðan kom Þór Stefánsson kennari og ljóðskáld að máli við Mumma og bað hann að semja tónlist við ljóð í ljóðabók sem síðan var myndskreytt af listamanninum Sigurði Þóri. Þar voru sameinaðar þrjár listir, ljóð, tónlist og myndlist. Mummi hitti þessa tvo aftur nú fyrir jólin og stakk uppá því að leikurinn yrði endurtekinn. Þór samdi ljóð á diskinn, Sigurður myndaskreytti það og er myndin á forsíðu disksins. Mummi samdi tónlistina og bætti um betur og fékk kvikmyndagerðarmanninn Martein Ibsen til að vinna myndband við lagið. Það verður frumsýnt á útgáfutónleikunum í næstu viku.

Suðurnesjamenn eru velkomnir á tónleikana en aðgangur verður ókeypis. Nýi diskurinn verður seldur á tónleikunum.


Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024