Mótaðist af lífinu og fólkinu hér
Guðfinnur Sigurvinsson er umsjónarmaður Síðdegisútvarpsins á Rás 2. Hann er fæddur í Keflavík 1978 og alinn upp í Eyjabyggðinni og á Norðurvöllum. Hann er giftur Símoni Ormarssyni flugþjóni, þeir búa í Garðabæ og eiga hundinn Mikka. Hann rifjar hér upp æskuárin, lífið og vinnustaðinn RÚV.
Hótaði að reka krakkana úr bænum
Í fersku minni Guðfinns er jólatrésskemmtun á túninu rétt við pylsuvagninn hans Villa þegar hann var smápatti. Það átti að kveikja ljósin á jólatréi frá vinabæ Keflavíkur og kynnirinn segir: „Guðfinnur Sigurvinsson mun nú flytja ávarp og kveikja svo á trénu!“ Guðfinnur litli varð steinhissa því enginn hafði minnst á þetta við hann. „Ég ákvað þó að standa mína plikt og gekk að sviðinu. Þá áttaði ég mig á að kynnirinn átti við bæjarstjórann, afa minn,“ segir Guðfinnur og skellihlær. Hann segist ekki endilega hafa verið mikill styrkur fyrir afa sinn í pólitíkinni á æskuárum. „Ef krakkarnir í hverfinu sátu ekki eða stóðu eins og ég vildi átti ég það til að hóta því að reka þá úr bænum því afi væri bæjarstjóri,“ segir Guðfinnur kíminn og bætir við: „Ég var ekki alveg að átta mig á valdheimildum hans og að svona lagað væri síst fallið til vinsælda.“
Áhugasviðin mótuðust snemma
Guðfinnur segir mikinn stjórnmálaáhuga hafa verið á heimili sínu í Keflavík. Þjóðmálin og félagsmálin hefðu verið þar til umræðu og því ekki einkennilegt að hann valdi háskólanám í stjórnmálafræði síðar. „Það hafði mótandi áhrif á mig og nýtist mér vel í starfi í dag.“ Hann var m.a. formaður Vöku í HÍ og Inspector Scholae í M.A. Með þátttöku í slíku starfi hafi hann öðlast vissa innsýn, æfingu í að koma fram og allt slíkt. Það hefði stundum tekið of langan tíma frá námi en hann hvetur þó foreldra til að leyfa börnum sínum að virkja slík áhugasvið. Það skili sér síðar meir. Guðfinnur hafi t.a.m. aldrei klikkað í beinni útsendingu í vinnunni og þakkar því þetta stúss.
Langar ekki í flokkspólitík
„Ég geri greinarmun á félagsmálum og stjórnmálum. Hef eðlilega verið óflokksbundinn frá því ég hóf störf á RÚV en starfaði um tíma í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins og þar áður Alþýðuflokksins. Í dag kýs ég samkvæmt sannfæringu minni hverju sinni og því fylgir mikið frelsi.“ Hann segir flokkspólitíska vettvanginn ekki heillandi. „Það kallar ekki fram mínar bestu hliðar að starfa í umhverfi þar sem fólk leikur tveimur eða jafnvel þremur skjöldum. Það er ekki heilbrigt. Mér líður ekki vel í umhverfi þar sem ekki er hægt að treysta fólkinu í kringum mig.“ Hjaðningavíg séu áberandi og að menn tefli stöðugt refskák. „Allir fara inn í þetta í upphafi með hugsjónir og góðan vilja en hafa laskast þegar komið er til valda og misst sjónar á upphafinu.“ Guðfinnur tekur þó fram að hann beri virðingu fyrir öllum sem kjósa þennan vettvang og gæti hugsað sér að starfa kannski innan stjórnsýslunnar en þá á faglegum grunni ekki flokkspólitískum.
Guffagrín og félagsmál
Sem unglingur segist Guðfinnur ekki hafa verið í boltaíþróttum eins margir vina sinna. „Ég var bekkjartrúður og er það sumpart ennþá. Mér finnst gaman að fíflast og rugla í fólki.“ En þá lá kannski betur við að starfa með Leikfélagi Keflavíkur og hann mætti á auglýstan aðalfund félagsins, aðeins 9 ára, með frænku sinni. Í kjölfarið var ákveðið að virkja börn meira í starfi leikfélagsins og leikritið um Línu langsokkur var sett upp. Guðfinnur sinnti einnig félagsmálum í í Holtaskóla og segir það hafa verið skemmtilegan tíma. Sextán ára fór hann síðan í nám við Menntaskólann á Akureyri og kom mjög lítið aftur til Keflavíkur öðruvísi en til þess að vinna fyrir sér. „Ég nota Facebook til að halda sambandi við gamla félaga, mæti í árgangagönguna, fermingarafmæli og slíkt þegar ég get,“ segir Guðfinnur og bætir við að þegar hann hittir þá sé eins og ekki hafi liðið dagur. „Ég verð alltaf Keflvíkingur í hjarta mínu því ég mótaðist af lífinu, fólkinu, landslaginu og veðrinu þar. Þarna hvílir fólkið mitt og fjölskyldan mín býr þar enn.“
Ennþá bítlabær
Spurður um Suðurnesin og hver sýn hans sé á þau segir Guðfinnur heilmargt gott gert þar. Umhverfið sé mjög fallegt og menningarlífið blómstri. Miklu meira sé gert í en þegar hann var yngri. „Það tilheyrir ekkert fortíðinni að tala um bítlabæ því vinsælar hljómsveitir eins og Of Monsters and Men, Hjálmar og Valdimar eru frá svæðinu. Við getum verið stolt af svo mörgu.“ Hlutir sem tengjast fjármálaheiminum séu auðvitað ekki jákvæðir og blasi við. Það þýði ekki að líta framhjá þeim.
Námið besta sjálfstyrkingin
Guðfinnur stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu við HÍ með vinnu og segir það krefjandi og skemmtilegt. „Maður áttar sig ekki fyrr en eftir á hversu mikil forréttindi það eru að stunda nám þegar nægur tími er til þess. Sumum finnst gott að fara til spámiðla, lesa sjálfshjálparbækur og svoleiðis til að hressa upp á sjálfstraustið. Mér finnst háskólanámið besta sjálfsstyrkingin.“ Þá segir hann gaman að geta farið inn í háskólann og sjá þar það sem ég hafði lifað og hrærst í í vinnunni með öðrum augum. „Það jafnast á við hugleiðslujóga að vera sestur á skólabekk á ný.
Skilaboð viðmælenda mikivægust
Árið 2005 hóf Guðfinnur störf hjá RÚV, fyrst á fréttastofu útvarps og síðan á fréttastofu sjónvarps. Spurður um eftirminnilega viðmælendur segir hann það vera þegar hann skynjar að það sem þeir hafa að segja muni skipta máli fyrir aðra. „Það verður bara til einhver stund og maður finnur nánast hvernig hlustendur eru búnir að leggja bílnum til að klára að hlusta á viðtalið. Það verður eitthvað ris.“
Fékk brauð í hausinn við Stjórnarráðið
Eftirminnilegasti tími í starfinu var í hruninu þegar búsáhaldabyltingin gekk yfir. „Það brast eitthvað innra með manni þá. Ég var á vakt sem fréttamaður á Austurvelli þegar allt hrundi. Á Alþingi gilda strangar reglur um hvar hver má ganga og vera og svæðin eru afmörkuð. Þetta kvöld var fólk var í áfalli, þingverðir dofnir, úrvinda lögreglumenn, ráðamenn klökkir og allir gengu um allt óáreittir eins og fyrri reglur ættu ekki lengur við.“ Mótmælin fyrir utan hafi verið skiljanleg því margir hafi verið reiðir. Sjálfur fékk Guðfinnur glerhart brauð í hausinn í beinni útsendingu þegar hann tók viðtal við Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón. „Það var bæði óþægilegt og um leið nokkuð spaugilegt.“
Vinnur í samkomuhúsi þjóðarinnar
Mest gefandi við vinnuna segir Guðfinnur vera það að starfa í samkomuhúsi þjóðarinnar, sem hann segr Útvarpshúsið vera. Þangað kemur alls konar fólk, stjórnmálamenn, listamenn og almennir borgarar. „Þarna er hringiðan, maður upplifir samtímasöguna um leið og hún gerist sem er í raun forréttindi. Það er sennilega þess vegna sem mörgum finnst erfitt að hætta í þessu starfsumhverfi sem fjölmiðlarnir bjóða upp á.“
Viðtal: Olga Björt Þórðardóttir // [email protected]