Mosagangur og fleira skemmtilegt í gönguferð
Gönguverkefnið AF STAÐ á Reykjanesið, gönguhátíð í Grindavík um verslunarmannahelgina hélt áfram á sunnudeginum. Þá var gengið um Sandakraveg og Skógfellastíg um 15 km leið sem tók 5 tíma. Veðrið var gott og ferðin endaði í dýrindis veislu í Saltfisksetrinu þar sem boðið var upp á heilgrillað lamb á teini.
Í gönguferðinni voru þátttakendur fræddir um jarðfræði og náttúru svæðisins. Þeir fengu jafnframt kennslu hjá Þorvaldi Erni, náttúrufræðingi í Vogum um það hvernig ganga ætti í mosa án þess að skemma hann. Göngulagið er svipað því og að læðast. Þorvaldur mælti með að keppt yrði í að ganga í mosa og sá ynni sem skemmdi hann minnst. Hann verður tekinn á orðinu og í næstu ferð verður keppt í mosagangi. Einn úr hópnum hafði á orði að þetta væri eins og þúfnagangur og viðkomandi gæti fengið viðurnefnið þúfa, mosi eða tái ef hann vendi sig á slíkt göngulag.
Mynd SJF: Kennsla í mosagangi.