Morgunverður Thelmu
„Þetta græna boozt geri ég mjög oft fyrir okkur mæðgurnar,“ segir Thelma Rúnarsdóttir, en hún gefur okkur hér uppskrift af sínu uppáhalds boozti ásamt hugmynd að morgunverðarskál og millimáli. Thelma býr með unnusta sínum og tveimur börnum þeirra í Reykjanesbæ og starfar í vopnaleitinni hjá Isavia. Hún hefur mikinn áhuga á hreyfingu og notast við lyftingarprógrammið Alpha Girls. „Ég reyni að fara fjórum til sex sinnum í viku í ræktina. Þetta er mjög krefjandi prógramm en líka mjög skemmtilegt,“ segir Thelma. Aðspurð hvort hún hafi sett sér áramótaheit segist hún vanalega ekki setja sér ströng áramótaheit en ætlar þó að reyna að vera skipulagðari heima fyrir, huga enn betur að mataræðinu og fara meira út fyrir þægindarammann í ár.
Morgunverðarskál með múslí
„Í morgunmat fæ ég mér mjög oft gríska jógúrt í bland við lífræna kókosjógúrt með múslí. Mér finnst lífræna kókos múslíið frá CrispyFood best. Einnig þykir mér gott að setja eina matskeið af chia fræjum og tvær matskeiðar af höfrum út á lífræna kókosjógúrt. Gott er að setja fersk ber út á, eins og bláber eða jarðarber. Þetta tvennt er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana.“
Grænt boozt
1 bolli frosið mangó
1 bolli frosinn ananas
Ein lúka af fersku spínati
3-4 myntulauf
¼ límóna
Kókosmjólk eða kókosvatn.
Ef ég nota kókosvatn þá bæti ég oft grískri jógúrt eða lárperu við til að þykkja booztið. Kókosmjólkin er frekar hiteiningahá, svo þetta er kannski enginn megrunardrykkur, en góður er hann! Kristel, dóttir mín sem er tveggja og hálfs árs er ekki mjög mikið fyrir grænmeti en henni finnst þetta boozt mjög gott, svo það er góð leið fyrir mig til að fá hana til að borða grænmeti og ávexti.
Bananapönnsur
2 egg
1 banani
2 msk hafrar
Í millimál fæ ég mér mjög oft skyr, egg, One bar próteinstykki eða bananapönnsur. Ég hræri saman tveimur eggjum, einum banana og tveimur matskeiðum af höfrum og steiki á pönnu. Það tekur enga stund og er mjög gott. Mér finnst gott að setja jarðarber, banana, hnetusmjör eða smá smjör ofan á.