Morgunganga á Keili
Morgunhressir göngugarpar geta rifið sig upp eldsnemma í fyrramálið og byrjað daginn á göngu á Keili. Ferðafélag Íslands stendur fyrir morgungöngum í nágrenni Reykjavíkur, undir yfirskriftinni „Á fjöll við fyrsta hanagal” og í fyrrmálið, fimmtudaginn 10. maí verður gengið á Keili. Lagt er af stað kl. 6 frá Mörkinni, bækistöðvum FÍ en fólk hér af svæðinu getur hitt gönguhópinn á bílastæðinu við Höskuldarvelli þaðan sem gengið verður yfir hraunið. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis. Gert er ráð fyrir að göngunni ljúki kl. 9.
Þá er bara að rífa sig upp eldsnemma og fá sér góða morgunhreyfingu í upphafi dags.
VF-mynd/elg - Á Keili í mjúkri kvöldbirtu