Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mokveiði í Grindavíkurhöfn
Mynd: Kvotinn.is. Gunnar með vænan þorsk.
Miðvikudagur 22. janúar 2014 kl. 14:09

Mokveiði í Grindavíkurhöfn

Þessa dagana er mokveiði í Grindavíkurhöfn en aflinn er af ýmsum toga. Veiðimenn eru þar að fá fallegan þorsk, góðan ufsa og kola í miklum mæli á stöng. Gunnar Sigurðsson, fyrrum skipstjóri, fékk tvo fallega þriggja kílóa þorska á stöngina á sunnudaginn á aðeins hálftíma. „Þetta er fínasti fiskur, alveg laus við orm og virkilega fínn í soðið,“ segir Gunnar í samtali við vefsíðuna kvotinn.is.

Gunnar segir þar jafnframt að mjög óvenjulegt sé að svona mikið af góðum þorski sé í höfninni, en hann sé líklega að elta síld inn í höfnina. Þetta hafi ábyggilega ekki gerst áður, en nú sé búið að breyta innsiglingunni og eftir það eigi fiskurinn greiðari leið þar inn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Á sunnudaginn voru þetta mest Pólverjar við veiðarnar. Þeir eru vel búnir til veiðanna og taka mest ufsa og kola. Í gær voru svo meira gamlir Grindvíkingar við veiðarnar og mikið af fólki að fylgjast með. Það veiðist best við hafnarkjaftinn á aðfallinu, en kola fá menn við Viðlagasjóðsbryggjuna,“ segir Gunnar. Hann var vanur að reyna fyrir sér á stöngina í gamladaga, meðal annars þegar hann var á Háberginu. Þá renndu þeir fyrir fisk í höfnunum í Siglufirði og Seyðisfirði og fengu töluvert af þorski sem þá var látinn síga. En þorskveiðin í Grindavíkurhöfn er skemmtileg nýlunda að mati Gunnars.