Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mögnuð upplifun að verða faðir í fyrsta sinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 26. apríl 2020 kl. 18:43

Mögnuð upplifun að verða faðir í fyrsta sinn

segir Ísak Ernir Kristinsson. Frábær þjónusta á fæðingardeild HSS. Fjármálaráðherra í skýjunum með fyrsta barnabarnið

Keflvíkingurinn Ísak Ernir Kristinsson segir að upplifunin við það að verða faðir sé magnaðri en hann gat ímyndað sér. Nýr sonur hans og Margrétar, unnustu hans, kom í heiminn 2. apríl á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Unga parið segir að þjónustan á fæðingardeild HSS hafi verið til fyrirmyndar og hann sé ánægður að drengurinn kom í heiminn í Keflavík.

– Hvernig upplifun var það að verða pabbi í fyrsta sinn á tímum COVID-19?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sú upplifun sem fylgir foreldrahlutverkinu er algjörlega mögnuð. Ég taldi mig vera undir það búinn hvernig tilfinning það yrði að fá barn í hendurnar í fyrsta sinn. Ég verð þó að viðurkenna að upplifunin er stærri, sterkari og magnaðari en ég gat ímyndað mér. Vissulega eru þessir COVID-tímar sérstakir en við ákváðum að vera jákvæð og láta ekki tímabundnar reglur eða ferla á spítalanum hafa áhrif á okkar upplifun. COVID-faraldurinn er staðreynd og ekkert sem við gátum gert nema að fara eftir leiðbeiningum yfirvalda.

– Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að þið hafið fengið góða þjónustu á fæðingardeild HSS.

Margrét, kærastan mín var, sett 18. apríl en drengurinn ákvað að koma í heiminn 2. apríl, við vorum því ekki byrjuð að bíða eftir honum. Við höfðum lítillega rætt það okkar á milli hvar Magga vildi eiga drenginn. Við vorum aðeins búin að lesa okkur til um þá valkosti sem við höfðum. Landsspítalinn kom eiginlega ekki til greina en þegar kom að þessu stakk ég upp á því við Möggu að við myndum drífa okkur til Keflavíkur. Magga var til í það og ég hringdi í Jónínu Birgisdóttur, yfirljósmóður, og boðaði komu okkar. Sú þjónusta sem við fengum á fæðingardeild HSS var algjörlega til fyrirmyndar og gefum við deildinni og starfsfólki hennar okkar bestu meðmæli.

– Hvernig er svo tilfinningin að vera orðinn foreldri og hvernig gengur það allt?

Ég vil meina að eitt af því sem okkur er ætlað að gera í lífinu er að eignast börn. Þegar maður fær svo barnið sitt í hendurnar þá brjótast fram magnaðar tilfinningar. Algjörlega ólýsanlegt augnablik. Drengurinn er rétt tæplega þriggja vikna gamall og hefur allt gengið eins og best verður á kosið. Við erum samt farin að hlakka til að taka á móti öllum okkar vinum og fjölskyldu en þó ekki fyrr en það verður talið óhætt.

– Ég geri ráð fyrir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og tengdafaðir þinn, sé í skýjunum með nýja barnabarnið.

Bjarni og við öll erum virkilega hamingjusöm með þennan litla gaur. Hann hefur gefið sér góðan tíma í að kynnast drengnum þó svo dagskráin hjá honum sé fullbókuð frá morgni til kvölds vegna ástandsins sem uppi er í þjóðfélaginu. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hversu mikinn kraft og aukna gleði drengurinn hefur gefið afa sínum á þessum skrítnu og krefjandi tímum.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk? Hefðbundin símtöl eða myndsímtöl?

Ég hef reynt að halda sambandi við fjölskyldu og vini í gegnum þennan COVID-faraldur og hef ég þá aðallega stuðst við hefðbundin símtöl og myndsímtöl. Svo hefur fjölskylda Möggu staðið fyrir vikulegu „Pub Quiz“-i í gegnum Zoom. Það er virkilega skemmtilegt að sjá hvernig allt samfélagið hefur tileinkað sér tæknina þegar kemur að samskiptum. Ömmur okkar og afar eru öll farin að kunna á FaceTime og Facebook Messenger. Við munum svo sannarlega búa að þessari þróun til framtíðar.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ég myndi hringja í mömmu á FaceTime. Hún er reyndar alveg hætt að vilja sjá mig á FaceTime þar sem hún er mun spenntari að sjá fyrsta barnabarnið sitt.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Fyrst vil ég segja að ég ber fullt traust til Þórólfs, Ölmu og Víðis, þau eru sérfræðingarnir sem við eigum öll að fylgja. Ég fer samt ekkert ofan af því að ég sakna þess mjög að horfa á íþróttir og þá sérstaklega á körfubolta en áhugamálin verða að víkja þegar alvarlegur faraldur ríður yfir samfélagið. Við þurfum öll að vanda okkur næstu vikurnar og mánuðina til þess að komast í gegnum þetta. Það þarf ekki nema eitt hópsmit svo við förum aftur á þann stað sem við vorum á fyrir nokrum vikum síðan. Lífið mun komast aftur í eðlilegt horf, fyrr ef við leggjum öll á eitt og hlýðum Víði.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Samfélagið mun meira og minna verða aftur eins og það var áður. Ég held samt að við munum tileinka okkur meiri sveigjanleika en áður, bæði í leik og starfi.

– Ertu liðtækur í eldhúsinu?

Ég er virkilega liðtækur í eldhúsinu. Ég elska að elda og baka. Þó svo að Margrét sé menntaður kokkur þá elda ég að minnsta kosti jafn oft og hún hér heima. Við elskum að elda og borða góðan mat. Margrét vill einnig meina að ég eigi í ástarsambandi við uppþvottavélina þar sem allt þarf að vera í ákveðinni röð og reglu.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Ég elska góða nautasteik og heimagerða Bearnaise-sósu.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Ég reyni að nota grillið eins mikið og ég get. Allt frá pizzu upp í góða steik.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Ég bakaði marmaraköku eins og amma gerði hana þegar ég var krakki.

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Pítu. Ég er búinn að mastera hina fullkomnu pítu.

– Hvað hefur gott gerst í vikunni?

Það var afskaplega gott að fá þær fréttir að fresturinn til þess að skipta út vetrardekkjunum var lengdur inn í miðjan maímánuð.

– Hvað hefur slæmt gerst í vikunni?

Það var skelfilegt að fá þær fréttir að enn verði bið í að sundlaugar landsins opni.