Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Móðurmálið okkar ylhýra
Laugardagur 15. september 2018 kl. 06:00

Móðurmálið okkar ylhýra

Marta Eiríksdóttir ræddi við skólafólk á Suðurnesjum um íslenskuna

Það eru aðeins þrír mánuðir síðan við hjónin fluttum aftur heim til Íslands frá Noregi og því erum við ennþá með gestsaugun vakandi og sjáum og heyrum ýmislegt nýtt. Tungumálið er eitt af því sem alltaf er á hreyfingu og ný orðanotkun kemur inn á meðan önnur fer út. Bara sem dæmi þá erum við hjónin ennþá að nota „nákvæmlega“ þegar einhver segir eitthvað sem við erum sammála um en nú nota flestir „algjörlega“ í staðinn fyrir þetta orð. Við finnum það fljótt að við þurfum að uppfæra okkur ef við eigum að skiljast algjörlega.

Er fólk sem slettir letingjar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svo eru það sletturnar sem alltaf læðast inn í málið okkar en sletta er orð eða orðasamband sem borist hefur inn í tungumál úr öðru máli en er ekki viðurkennt mál þar eða hefur ekki aðlagast hljóð- eða beygingarkerfi tungumálsins. Og jafnvel þó það aðlagist, þá tekur það oft langan tíma til að fá viðurkenningu sem íslenska. Flestar slettur hverfa þó með þeirri kynslóð sem tók þær upp og nýjar koma í staðinn. Sumar verða þó langlífar og öðlast viðurkenningar, mest er nú um enskuslettur. Sjálfri finnst mér gaman að finna alíslensk orð yfir eitthvað sem ég vil segja en velti því fyrir mér hvort fólk sem slettir nenni ekki að finna íslensk orð yfir það sem vill segja. Guðmundur Finnbogason, heimspekingur og rithöfundur, sagði í grein um slettur sem birtist í Skírni árið 1928 og nefndist Hreint mál: „Útlendu orðin eru hægindi hugarletinnar“.

Eru öll orð leyfileg?

Íslenska var uppáhaldsgreinin mín í skóla og þess vegna ákvað ég að gerast íslenskukennari á sínum tíma. Ég tek eftir því núna að íslenskir fjölmiðlar hafa slappast í eftirliti á orðanotkun. Meira að segja RÚV leyfir þáttagerðarfólki sínu að sletta töluvert sem þótti nú ekki fínt fyrir nokkrum árum þar á bæ. Þá var metnaðurinn mikill í að tala fallegt, íslenskt mál, leita að kjarnyrtum orðum sem lýstu vel því sem um var rætt og vera góðar fyrirmyndir. Íslenskt mál er nefnilega svo ríkt af orðum sem lýsa öllu milli himins og jarðar enda líklega hvergi í heiminum starfandi málfarsnefnd eins og hér á landi.

Takk Íslendingar!



Norðmenn eru hrifnir af Íslendingum. Þegar Íslendingur býr í Noregi eru Norðmenn stöðugt að minna mann á og þakka okkur Íslendingum fyrir að hafa varðveitt tungumálið þeirra svona vel en Norðmenn voru jú í meirihluta landnámsmanna hérna árið 874 að því er talið er. Þeim finnst ótrúlega gaman að hlusta á okkur tala þetta ylhýra og maður finnur margar tengingar við nýnorskuna hjá þeim en þar eru þeir að taka upp mörg orð sem líkjast íslensku. Norsku nöfnin eru mjög lík íslenskum nöfnum nema að endingarnar hafa fallið frá eins og t.d. Ragnhild sem við notum ennþá í upprunalegri mynd sem Ragnhildur. Bara norsku nöfnin sýna manni þessar tengingar á milli Íslendinga og Norðmanna. Svo finnst þeim frábært að við notum ennþá dóttir og sonur einhvers í eftirnafni Íslendinga en sú hefð var í Noregi lengi vel en nú eru ættarnöfn meira notuð.

Mikill áhugi á landnámi Íslands

Við bjuggum í litlum bæ á vesturströnd Noregs, á stærð við Grindavík, og þar var margt sem minnti á forna sögu okkar Íslendinga. Þarna voru nokkrir haugar eða fornar grafir. Í einum haugnum lá Auðbjörn kóngur ofan í skipi sínu frá árinu 870 eftir að hafa verið drepinn af mönnum Haralds hárfagra, sem var grimmur valdasjúkur kóngur og sagan segir að við höfum einnig flúið þennan kóng. Þessi gröf var opnuð rétt um aldamótin 1900 og þá sáu menn fornar leifar konungs, sagan reyndist rétt.

Erum við að varðveita þjóðararfinn?

Mér finnst þessi búseta á meðal Norðmanna hafa gert mig þakklátari fyrir að vera Íslendingur og mér finnst ég kunna enn betur að meta móðurmálið okkar forna. Þetta sama og fólkið talaði sem nam land hérna fyrir mörgum öldum og kölluðu landið Ísland og sig Íslendinga. Þetta er ríkidæmi okkar sem þjóðar í dag. Þarna eru rætur okkar og þetta megum við gjarnan varðveita áfram.

Ég fór á stúfana og hitti áhugavert skólafólk sem ég ræddi við um íslenskt mál og fleira tengt því sem er að gerast í íslenskukennslu dagsins í dag en þessi viðtöl geturðu lesið í blaði vikunnar.