„Móðir Jörð og Steinninn ég“ verður opnuð í Sveinshúsi í Krýsuvík
Sýning Sveinssafns „Móðir Jörð og Steinninn ég“ verður opnuð í Sveinshúsi í Krýsuvík (bláa húsið upp af Grænavatni) sunnudaginn 23. júlí 2017 kl. 15:00. Öllum er heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.
„Móðir Jörð og Steinninn ég“ er áttunda sýning Sveinssafns í Sveinshúsi í Krýsuvík en Sveinshús, sem svo hefur verið nefnt, blátt að lit, staðsett upp af Grænavatni, er helgað list Sveins Björnssonar, sem hafði það til afnota fyrir listsköpun sína um langt árabil. Sýningin er afmælissýning því nú eru liðin 20 ár frá því að Sveinssafn var stofnað í kjölfar andláts listamannsins árið 1997.
Sýningin tekur til meðferðar hina heilögu konu, listagyðjuna eða Móðir Jarðar tilbrigðið við Krýsuvíkurmadonnuna. Móðir Jörð liggur í landinu með græðling í fangi sér en stundum fisk eða fugl, allt mikilvæg myndstef í listheimi Sveins Björnssonar.
Annað viðfangsefni sýningarinnar eru sjálfsmyndir listamannsins eins og þær birtast í steinum hveraumhverfisins og varpa ljósi á tilbrigðatækni listamannsins. Viðfangsefnin tvö Móðir Jörð og Steinninn ég renna saman í tveimur myndum á sýningunni.
Alls eru sýndar 52 myndir, þar af 12 eftirprentanir upp úr teiknibókum Sveins en nú gerist það í fyrsta sinn að sýningargestum er gefin innsýn í leyndardóm teiknibókanna. Teiknibækur áranna 1981 – 82 og 1985 – 93 eru lykillinn að inntaki sýningarinnar. Erlendur Sveinsson, einn aðstandenda Sveinssafns, fjallar ítarlega um sýninguna í sýningarskrá (sjá meðfylgjandi viðhengi) en þar kemur fram að myndstefið Móðir Jörð tengist banvænum sjúkdómi eiginkonu listamannsins, Sólveigar Erlendsdóttur, sem lést aðeins 51 árs í ársbyrjun 1982.
Opið verður að venju í Sveinshúsi fyrsta sunnudag í mánuði yfir sumarmánuðina frá kl. 13:00 - 17:30 og fyrir hópa á öðrum tímum eftir samkomulagi. Leiðsögn og kaffiveitingar fylgja á opnunardögum. (Símar: 8610562/ES, 8607211/SS, 8663456/ÞS)
Sýningin mun standa yfir til ársloka 2018.
Sveinssafn hefur að undanförnu háð miskunnarlausa grímu við höfuðskepnurnar, jörð, loft, vatn og eld í Krýsuvík sem ógnað hefur áframhaldandi starfsemi þess í Sveinshúsi en enn heldur húsið velli eins og sýningin ber með sér og því ekki að ófyrirsynju að tekin séu fyrir viðfangsefni í list Sveins Björnssonar sem nátengd eru jörðunni á þessari áttundu og ef til vill viðamestu sýningu safnsins í Krýsuvík fram til þessa.