Mannlíf

Mjög góð þátttaka í Ljósmyndasamkeppni Ljósanætur 2018
Dómnefndin, Páll Ketilsson, Kjartan Már Kjartansson og Þuríður Aradóttir.
Fimmtudagur 9. ágúst 2018 kl. 09:00

Mjög góð þátttaka í Ljósmyndasamkeppni Ljósanætur 2018

„Við erum mjög ánægð með þátttökuna og hlökkum til að bjóða gestum á þessa aðalsýningu Ljósanætur í listasal Duus Safnahúsa,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar. Á fjórða hundrað myndir bárust í samkeppnina en efnið var „Eitt ár á Suðurnesjum“ og þurftu myndirnar að hafa verið teknar á tímabilinu 17. júní 2017 til 17. júní 2018.

Listasafn Reykjanesbæjar og Norræna húsið í Færeyjum verða í samstarfi á Ljósanótt 2018 í nokkrum sýningarsölum Duus Safnahúsa. Færeyingar leggja til sýninguna „Föroyar i et år“ sem samanstendur af rúmlega 600 ljósmyndum sem íbúar eyjanna tóku og lýsa daglegu lífi þeirra í eitt ár á sama tíma og ljósmyndasýningin „Eitt ár á Suðurnesjum“ verður opnuð í Listasal Duus Safnahúsa.

Dómnefnd var skipuð Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Þuríði Aradóttur frá Markaðsstofu Reykjaness og Páli Ketilssyni, ritstjóra Víkurfrétta. Þau völdu rúmlega 30 myndir sem verða stækkaðar til sýningar en sex myndir munu fá aðalverðlaunin. Frá því verður greint í upphafi sýningarinnar. Ljósanæturgestir munu einnig fá tækifæri til að segja sitt álit með því að kjósa fimm bestu myndirnar á meðan á sýningunni stendur. Allar aðsendar myndir verða sýndar á sýningunni og eigendur þeirra fá að eiga þær útprentaðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024