Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mjög góð í að klóra bak og nudda tær
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 30. júní 2020 kl. 09:00

Mjög góð í að klóra bak og nudda tær

„Elsta minningin er þegar ég tók naglalakkið hennar mömmu fjögurra eða fimm ára gömul, fór út í rólu í nýju peysunni minni og naglalakkaði mig en í hvert sinn sem mér mistókst nuddaði ég lökkuðum fingrum í peysuna og reyndi aftur. Svipurinn á mömmu þegar ég koma hróðug inn, naglalökkuð og fín í rauðröndóttri peysu,“ segir Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, í Netspjalli við Víkurfréttir. Hólmfríður svaraði fjölmörgum spurningum um allt og ekkert frá blaðamanni.

– Nafn:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hólmfríður Árnadóttir.

– Árgangur:

1973.

– Fjölskylduhagir:

Gift fimm barna móðir og elst fjögurra systkina.

– Búseta:

Sandgerði síðastliðin 4 ár en hef búið á Grenivík, Húsavík, Akureyri og Ólafsfirði.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin:

Ég er dóttir Árna Dan Ármannssonar veiðieftirlitsmanni hjá Fiskistofu og fyrrverandi sjómanns og lögregluþjóns frá Norðfirði og Jennýjar Jóakimsdóttir þjónustufulltrúa Sparisjóðs Höðhverfinga úr Grýtubakkahreppi. Komin af bændum og sjómönnum (og einstaka presti sjálfsagt) allt aftur í landnám.

– Starf/nám:

Ég er með meistarapróf í menntunarfræðum og starfa nú sem skólastjóri í Sandgerðisskóla, sem er besti skólinn á Íslandi, hlutlaust mat auðvitað.

– Hvað er í deiglunni?

Að klára skýrslur og alla lausa enda í vinnunni til að komast í sumarfrí. Hengja hjólhýsið aftan í bílinn og elta góða veðrið og fótboltaleiki.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Ég var fyrirmyndarnemandi til unglingsára... lærði víst stundum of mikið heima og leiddist á unglingastigi sem getur víst orðið til þess nemendur séu með almenn leiðindi, ekki að ég vitið það sko.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Þau voru litrík og ýmist tekin við MA eða VMA yfir töluvert margra ára tímabil.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Sálfræðingur, lögfræðingur eða fóstra.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Dásamleg dökkblá Toyota Corolla sedan árgerð 1987.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Ég er á Volvo V60 Hybrid árgerð 2015, dásamlegur bíll í alla staði.

– Hver er draumabíllinn?

Volvo XC60, dreymir um hann í orðsins fyllstu merkingu.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Bílar og dúkkur, það var dásamlegt að búa til vegi og hús úr moldarbingjunum fyrir utan húsið heima og svo voru barbie dúkkur í tísku.

– Besti ilmur sem þú finnur:

Ilmurinn af yngstu börnunum mínum eftir góðan, ísklístraðan sumardag já og lyktin af vori og greni.

– Hvernig slakarðu á?

Með góða bók, ég bókstaflega þrífst á lestri og veit ekkert betra en að koma mér vel fyrir með góða bók, mér skilst ég heyri ekki né sjái þegar ég næ góðu sambandi við bókina. Las allt sem ég komst yfir sem barn og reyndi ítrekað að lesa við matarborðið sem var óvinsælt og iðulega skipað að hætta, minnir óumdeilanlega á símaást unglinganna á heimilinu hjá mér í dag.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Er eða var ekki mikil tónlistarmanneskja, hlustaði mest á safndiska og man illa nöfn og titla en Red Hot Chili Peppers er nafn sem ég man og svo auðvitað U2 og Bubbi Morthens.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Síðustu tíu ár er mitt tímabil er svakalega hrifin af íslenskri tónlist, Dikta, Valdimar, OMAM, Lay Low eru nöfn sem mér detta fyrst í hug ásamt Mugison, mér finnst hann æði. Ég hef líka gefið mér meiri tíma til að hlusta þessi árin og það skilar sér.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Er búin að hlusta á nýju plötu OMAM og svo var Ásgeir Trausti að gefa út nýtt efni, ætli ég sperri ekki eyrum ef heyri eitthvað frá íslensku tónlistarfólki.

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Top of the Pops og svo var mamma hrifin af Queen, ég man ég hlustaði að Hönnu Maríu og Kötlu Maríu og Rut Reginalds, við fengum að stjórna hvað fór á fóninn systurnar.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Nei en lærði í ár á orgel og svo á gítar, en er vita vonlaus tónlistarkona því miður.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég hef alltaf fylgst með myndum og þáttum og undan farið horft meira en góðu hófi gegnir... nota Netflix og iPlayer hjá BBC og ITV sem og Sjónvarp Símans.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Góðum breskum glæpaþætti, get ekki beðið eftir nýrri seríu af Shetland eða Silent Witness, mæli með!

– Besta kvikmyndin:

The Shawshank Redemption og Schindlers List, get ekki gert upp á milli.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Vá, á svo marga! Jo Nesbo, Henning Mankell, Ann Cleeves, Arnaldur Indriða og Paulo Coelho svo einhverjir séu nefndir, þríleikur Anders de la Motte er líka þrusugóður sem og sagnfræðilegar bækur Philippa Gregory. Auður Jónsdóttir er einstök og svo er ég að kynnast Haruki Murakami þessa dagana. Annars er bókin Kona við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason eitt mesta snilldarverk sem ég hef lesið.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Nöldra? Nei ég er mjög góð í að klóra bak og nudda tær á unglingum og svo geri ég besta plokkfisk og lasagne í heimi já og baka dásamlega skúffulaðiköku.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Afmælistertur sonanna þegar þeir voru ungir, þá litu mörg snilldarverkin dagsins ljós en núna helli ég upp á gott kaffi, telst það ekki með?

– Hvernig er eggið best?

Létt soðið með kavíar mmmmm.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Hvað ég naga neglurnar og get verið smámunasöm

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Óheiðarleiki og baktal, óþolandi að þurfa að níða aðra til að upphefja sjálfans sig. Venjum okkur á að tala við fólk en ekki um það.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

„Sá vægir sem  vitið hefur meira“ og „aldrei að gefast upp“ svo nota ég oft, of oft „leti er löstur“.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Þegar ég tók naglalakkið hennar mömmu fjögurra eða fimm ára gömul, fór út í rólu í nýju peysunni minni og naglalakkaði mig en í hvert sinn sem mér mistókst nuddaði ég lökkuðum fingrum í peysuna og reyndi aftur. Svipurinn á mömmu þegar ég koma hróðug inn, naglalökkuð og fín í rauðröndóttri peysu...

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

„viltu setja diskinn þinn í uppþvottavélina!“ já eða „þetta gerir/étur sig ekki sjálft“.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Ég er svo mikil dekurrófa að ég vil bara vera ég í dag, get ekki hugsað mér að vera án allra þeirra þæginda sem tæknin býður upp á í dag svo ég er bara góð takk :)

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Stelpan sem las.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Marilyn Monroe ekki spurning!

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Frú Vigdísi Finnbogadóttur, Herði Torfasyni og Villa Naglbít, vá hvað yrði gaman!

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Það hefur gengið á með ýmsu en ég upplifi bara samheldni og kraft.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já afar.

– Hvað á að gera í sumar?

Ég ætla að elta sólina og máta sem flest tjaldstæði á landinu, fara að veiða og í golf og auðvitað lesa!

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Þar sem sólin er, já of fótboltamót eða leikir.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég myndi fara með þá um Reykjanes Geopark, skoða Gunnuhver og brúna milli heimsálfa, kíkja til Höllu í Grindavík og trítla á Þorbjörn. Fara í Sandvík/ur, út á Stafnes og líta á Skessuna í hellinum og borða á Röstinni í Garðinum, jafnvel þegar eru tónleikar og auðvitað kíkja á Þekkingarsetrið í Sandgerði, bókasafnið okkar og fara í sundlaugina í Sandgerði.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

Heim til Akureyrar.