Mjög fyndin og skemmtileg sýning!
– sagði gestur sýningarinnar
Leikfélag Keflavíkur lætur ekki deigan síga og nú í samstarfi við Gylturnar, þær Guðnýju Kristjáns og Höllu Karen, var enn eitt leikverkið frumsýnt á fjölum Frumleikhússins um síðustu helgi.
Vel gert krakkar!
Frumleikhúsið var fullt af hlæjandi gestum á öllum aldri um síðustu helgi þegar unglingadeildin Gargandi Gleði, frumflutti leikverk sitt. Furðuverk heitir sýningin sem unglingarnir sjálfir áttu hugmyndina að en Arnar Ingi Tryggvason sá um að líma saman textann og fangaði vel tungumál unglinganna. Hann sá einnig um að semja söngtextana í sýningunni. Vel gert hjá Arnari Inga. Furðuverk er lifandi og skemmtileg sýning sem öll fjölskyldan ætti að hafa gaman af að sjá.
Hvað vilja unglingar tala um?
Fyrir þá sem vilja kynnast heimi unglinga dagsins í dag þá gæti verið forvitnilegt að fara á þessa skemmtilegu leiksýningu. Það var bráðfyndið að heyra hvernig íslensk tunga vafðist fyrir sumum þegar þau voru að reyna að tala og nota orð eins og fullorðnir en töluðu vitlaust með einbeittum brotavilja. Þegar maður er unglingur þá vill maður líka segja allt í einu.
Þessi leikhópur fékk svo sannarlega að njóta sín á leiksviði Frumleikhússins. Þau voru samhent og flott, dönsuðu ótrúlega samstillt og sungu vel. Tónlistin var skemmtileg og leikgleðin sveif yfir vötnum. Frábær og vel heppnuð sýning hjá Gyltunum sem leikstýrðu hópnum. Leiksýning sem allir verða að sjá.
Við gripum þær glóðvolgar og spurðum hvað þeim fannst um sýninguna
Guðlaug María Lewis fór í Frumleikhúsið ásamt dóttur sinni, Sóleyju Halldórsdóttur en Valgerður Guðmundsdóttir var ásamt barnabarni sínu, Iðunni Ingvarsdóttur.
Sóley Halldórsdóttir:
„Mjög skemmtilegt leikrit. Unglingar á mínum aldri hafa gaman af svona sýningu. Ég þekki marga krakka sem eru að leika á sviðinu.“
Iðunn Ingvarsdóttir:
„Mér finnst þetta mjög fyndið og skemmtilegt. Ég skil alveg hvað krakkarnir eru að tala um.“
Guðlaug María Lewis:
„Ég verð alltaf bara svo hrifin af unglingum sem hafa hugrekki til að leika á sviði, að þau þori á þessum aldri. Bara svo frábært!“
Valgerður Guðmundsdóttir:
„Já, ég er svo sammála og mér finnst einnig frábært að krakkar geti starfað í alvöru leikhúsi eins og í Frumleikhúsinu. Að við skulum vera með svona aðstöðu hér á Suðurnesjum. Þetta þekkist ekki í höfuðborginni. Við erum að ala upp leikhúsgesti framtíðarinnar.“