Mistök geta stýrt manni í rétta átt
„Það lítur svolítið út eins og að ég hafi vitað frá því ég var fjórtán ára hvað ég vildi gera. Til þess að byrja á einhverju þarf maður að prófa nýja hluti og vera óhræddur við að gera mistök. Ég hef lært það í gegnum tíðina að mistökin hafa breytt manni og stýrt manni í þá átt sem mann langar að fara,“ segir ljósmyndarinn og námsmaðurinn Ólafur Magnússon. Ólafur kemur frá Reykjanesbæ, hann lauk sveinsprófi í ljósmyndun frá Tækniskólanum árið 2016 en í ágúst flutti hann til Karlskrona í Svíþjóð til að hefja nám í hreyfihönnun við skólann Hyper Island.
Hann segir að fyrstu vikurnar í skólanum séu búnar að vera skemmtilegar og lærdómsríkar en Ólafur segir bæinn Karlskrona minna á heimaslóðirnar, Reykjanesbæ.
„Bærinn er við sjóinn og þetta minnir mjög á Reykjanesbæ með samt svona Reykjavíkurstemmara. Ég er í íbúð alveg við sjóinn svo þetta er smá eins og að vera í Keflavík. Það er mjög rólegt hérna og núna þegar haustið er að koma sér maður að allir eru að leita meira inn, þetta er búið að vera rosalega huggulegt,“ segir Ólafur.
Hvers vegna ákvaðst þú að fara að læra hreyfihönnun?
„Ég, án gríns, hélt að ég myndi aldrei læra eða vinna við eitthvað annað en ljósmyndun. Ég var fastur á því fyrir nokkrum árum síðan að ljósmyndun væri það sem ég ætlaði að gera. Ég var samt búinn að vera skoða allskonar nám; markaðsfræði, grafíska hönnun og margt annað til að bæta við ljósmyndunina. Ég fann einhvern veginn ekkert sem höfðaði til mín. Í sumar var ég í tökum og þar var einn „art director“ sem var að spjalla við mig og hann var að tala um að það vantaði bæði grafíska hönnuði og stafræna hönnuði. Það leiddi svo að því að ég talaði við hreyfihönnuð í Hvíta húsinu og hún mælti með að ég myndi annað hvort taka námið í fjarnámi í gegnum netið eða í skólanum Hyper Island, sem er skólinn sem ég er í hér í Svíþjóð. Þegar ég fór að skoða námið þá „small allt“ og ég áttaði mig á því að þetta væri eitthvað sem ég gæti samtvinnað með ljósmynduninni.“
Heillandi viðfangsefni
Fyrir þá sem ekki vita, hvað er hreyfihönnun?
„Hreyfihönnun er mjög vítt viðfangsefni, það er meðal annars þrívíddarhönnun og tvívíddarhönnun. Ég hef gaman af þrívíddinni, hún er í raun eins nálægt raunveruleikanum og þú getur komist. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni muni ljósmyndun og þrívíddargerð blandast og samtvinnast að mörgu leyti. Það er svo margt við hreyfihönnunina sem heillar mig, þetta er svo vítt, það er hægt að sérhæfa sig í svo mörgu í tengslum við hana. Sem dæmi er hægt að sérhæfa sig í því að búa til áferð á hluti eins flíkur.“
Hvað langar þig að gera með hreyfihönnun í framtíðinni?
„Þetta nám er tvö og hálft ár, þar sem fyrstu tvö árin eru nám og hálft ár á samningi sem þú getur í raun sótt um hvar sem er. Ég sé fyrir mér að stefna í auglýsingageirann eftir námið með það í huga að vera að ljósmynda og hanna í þrívídd. Það verður svo gott að hafa þann möguleika að geta tvinnað þetta tvennt saman þegar við á. Ég væri líka til að sjá um listræna stefnu í svona verkefnum, jafnvel að leikstýra myndböndum. Mér finnst ekki gaman að vera alltaf á sama stað, ég vil vera í misjöfnu umhverfi, kynnast nýju fólki og vera ekki fastur í sama kassanum. Það heillar mig ótrúlega mikið að þessi áhugamál mín tengjast og það er góður kostur að enginn dagur sé eins og það er vinnuumhverfi sem ég vil vera í.“
Áhugalaus en keppnissamur
Í grunninn er Ólafur fyrst og fremst ljósmyndari en hvaðan kemur þessi brennandi áhugi á ljósmyndun?
„Ég man eftir að hafa fengið fyrstu stafrænu myndavélina mína þegar ég var um sjö ára. Ég var því alltaf ómeðvitað að taka myndir. Þegar ég var þrettán ára tók ég svo þátt í ljósmyndakeppni fyrir börn hjá Bókasafni Reykjanesbæjar. Ég hafði lítinn áhuga á ljósmynduninni en ég sá bara að það voru vegleg verðlaun í boði og ákvað að reyna að vinna. Það var meira bara upp á samkeppnina. Svo kom í ljós að það voru ákveðin þemu og pælingar í gangi í keppninni og þegar ég fékk þessi ákveðnu verkefni fór eitthvað að gerast í hausnum á mér. Ég var mikið að fanga umhverfið og það fór ótrúlega mikið hugmyndaflæði af stað. Ég vann ekki verðlaun en eftir þetta fékk ég þvílíka ástríðu fyrir að fanga ákveðin augnablik. Ég notaði svo peninginn sem ég fékk í fermingargjöf til að kaupa myndavél og byrjaði að mynda það sem var í kringum mig. Ég fékk í raun ákveðna þráhyggju fyrir þessu og gat varla hætt að hugsa um ljósmyndun. Ef ég var ekki að taka myndir, þá var ég að skoða eitthvað á netinu, annað hvort fræðsluefni eða ljósmyndir.“
Eftir að Ólafur kláraði nám sitt í ljósmyndun við Tækniskólann fóru verkefnin að hrannast inn. Þá hefur hann meðal annars unnið í stórum verkefnum með 66°Norður, Orkustöðina og þáttaseríuna Thin Ice.
„Eftir útskrift byrjaði ég að einblína rosalega mikið á auglýsingaverkefni, fyrstu árin var ég að vinna mikið í kringum tísku. Ég er búinn að vera að vinna fyrir 66 síðastliðin fimm ár og það hefur að mestu leyti snúist um að þróa vörumyndir eða svo kallaðar „linesheet“-tökur, þar sem við erum að fanga vörurnar, flíkurnar og þeirra eiginleika. Það kom til vegna þess að 2018 fékk ég skilaboð frá 66 á Instagram en þá hafði einhver frá þeim séð reikninginn minn og séð verkefni sem ég hafði tekið þátt í sem stóðu upp úr fyrir þeim. Árið 2019 var ég svo á setti fyrir þáttaseríu sem heitir „Thin Ice“, þar sem ég var partur af settinu og var að fanga senur með ljósmyndum. Þetta var u.þ.b. mánaðarlangt verkefni og þar fékk ég svigrúm og mikið listrænt frelsi til þess að fanga það sem ég sá fyrir mér, það var mjög skemmtilegt. Síðan myndaði ég einnig fyrir Orkustöðina í Reykjanesbæ og hef verið í góðu samstarfi við þau síðan þau opnuðu,“ segir Ólafur.
Það er þó eitt verkefni stendur upp úr af öllum þeim sem hann hefur tekið sér fyrir hendur en það verkefni var á vegum Reykjanesbæjar og má segja að það hafi „lokað ákveðnum hring“ í lífi Ólafs.
„Það sem stendur upp úr er verkefnið Visit Reykjanesbær en það var samstarfsverkefni sem ég tók þátt í með Súlu verkefnastofu þar sem ég framleiddi markaðsefni fyrir Reykjanesbæ. Verkefnið varði í þrjá mánuði og snerist um að fanga bæinn sem heillandi áfangastað og sýna hvað er í boði. Í hnotskurn sýnir þetta verkefni minn stíl, svokallaða lífsstílsljósmyndun í sambland við auglýsingavinkilinn. Ég hef svolítið pælt í því að það verkefni í raun lokaði hringnum, áhuginn kviknaði með ljósmyndakeppni hjá Reykjanesbæ og nú var ég kominn aftur þangað sem ég byrjaði, að vinna við það að taka myndir fyrir bæinn.“
Ólafur segir það mikilvægt að vera óhræddur við að prófa nýja hluti og gera mistök því maður lærir mest af þeim.
„Fólk pælir ótrúlega mikið í því hvað það langar að gera, það lítur svolítið út eins og að ég hafi vitað frá því ég var fjórtán ára hvað ég vildi gera. Það er mikilvægt að prófa sig áfram innan áhugasviðsins en líka að þora að fara aðeins út fyrir það af því það getur komið manni á óvart, rétt eins og í mínu tilfelli. Mér fannst óþægilegt að skoða eitthvað annað fyrir utan ljósmyndun en það þarf ekki alltaf að taka risastökk, bara að taka þessi litlu skref gefur manni svigrúm til þess að þroskast. Þetta nám er skref í rétta átt til að átta mig á því hvað ég vil gera í framtíðinni,“ segir Ólafur að lokum.