Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mistök gera svo margt gott fyrir mann
Mánudagur 27. apríl 2020 kl. 11:58

Mistök gera svo margt gott fyrir mann

Það má segja að Elva Dögg Sigurðardóttir hafi haft allt sem hún þurfti til að ganga vel í lífinu. Hún átti góða fjölskyldu, gekk vel í skóla, var vinamörg og efnileg í íþróttum. Síðan gerðist eitthvað og áður en hún vissi af var hún komin inn á barna- og unglingageðdeild og langaði ekki lengur að vera til. Hún upplifði mikla skömm, sérstaklega þar sem henni fannst hún ekki hafa ástæðu til þess að vera þunglynd en það þarf víst ekki ástæðu. Í dag líður henni betur og hún hefur opnað umræðuna um þennan sjúkdóm, sem einmitt fer ekki í manngreiningarálit.

„Ég skildi ekki af hverju ég af öllum, sem hafði allt og meira en það langaði bara allt í einu alls ekki að vera til,“ sagði Elva Dögg þegar við spurðum hana um þessa erfiðu lífsreynslu. Hún kemur vel fyrir og það er bjart yfir þessari ungu konu en hún starfar í dag við að leiðbeina ungu fólki meðfram námi hjá KVAN en þar er lögð áhersla á að virkja það sem í fólki býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum. Þess fyrir utan stefnir hún á ferðalög í framtíðinni enda býr hún yfir miklum krafti og eins hún segir sjálf – hefur áhuga á bókstaflega öllu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– En hvað var það sem gerðist?

„Það er ansi góð spurning sem ég hef verið að velta fyrir mér sjálf. Mér finnst svo skrítið að það séu liðin tíu ár frá því að þetta byrjaði allt saman en samt er ég svo ung, bara 24 ára.

Þegar ég var fjórtán ára fékk ég flensu um haustið og var veik í nokkra daga en þegar ég fór að braggast þá gat ég ekki mætt í skólann. Það var eitthvað ótrúlega þungt sem hvíldi á mér og mamma þurfti alltaf að hringja í skólann og segja: „Hún kemur ekki í dag, henni líður rosalega illa ennþá.“ Ég hætti að svara vinkonum mínum, læsti mig bara inni í herbergi, dró sængina yfir haus, og vildi ekki tala við neinn. Mamma og pabbi vissu ekki hvað var að gerast því ég hafði alltaf verið opin, til í allt og alltaf á fullu. Þarna var ég orðin andstæðan við það og ég sjálf skildi ekki neitt. Ég man að ég hugsaði: „Hvernig á mér að geta liðið svona illa þegar ég hef allt sem ég vil og miklu meira en það, lífið framundan og ótal tækifæri og allt í einu er ég að hugsa um það að mig langi bara alls ekki að vera til?““

Ég gat ekki horft í augun á honum

Foreldrar Elvu Daggar komu henni til sálfræðings en það hjálpaði lítið.

„Ég gat ég ekki horft í augun á honum og heyrði ekkert hvað hann var að segja. Þá sagði hann mömmu að ég þyrfti miklu meiri aðstoð sem endaði á því að ég var lögð inn á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, og þá var mér alveg lokið.

Þar komum við að skömminni sem svo oft vill loða við geðsjúkdóma og Elva Dögg var ekki laus við hana en það sem verra var, hún var sannfærð um að hún ætti ekki afturkvæmt frá BUGL.

„Ég trúði því ekki að ég sem hafði allt, væri komin þangað og skammaðist mín alveg ótrúlega fyrir það. Mér fannst að það væri fullt af öðrum krökkum sem ættu meira skilið að fá að fara þarna inn og þyrftu frekar aðstoð, hefðu raunverulegan vanda að vinna í.“

Sem betur fór sá Elva aftur til sólar og með hjálp létti þyngslunum.

„Ég hélt að ég kæmi ekki út af BUGL aftur og ætlaði það ekki en sem betur fer komst ég út með mikilli hjálp frá mörgu fólki sem var að vinna þarna. Ég átti góða vini sem komu í heimsókn og fékk stundum að koma heim um helgar.“

Skömmin var erfið

Elva Dögg segist lítið muna frá dvölinni og veikindunum, eins og að heilinn vilji ekki muna þegar henni leið hvað verst. „Ég vildi ekki að neinn myndi vita af því hvar ég væri því ég skammaðist mín svo mikið þegar krakkarnir í bekknum og aðrir í skólanum voru að spyrja eftir mér. Því var haldið leyndu í einhverja mánuði sem setti mína nánustu auðvitað í erfiða stöðu en það var verið að spyrja vini mína og bróður minn um mig og hvað væri í gangi. Viðbrögð fólks komu mér á óvart því þegar það fréttist að ég hafði verið að glíma við andleg veikindi þá mætti ég bara skilningi og engum fórdómum. Það litu allir eins og mig og komu eins fram við mig sem var mikill léttir svo þetta voru aðallega fordómar hjá sjálfri mér. Ég átti samt erfitt með að ræða þetta fyrstu árin á eftir en í dag finnst mér það ekkert mál þar sem samfélagið er búið að þróast svo mikið í þessari umræðu, sem er orðin miklu opnari. Það eru svo margir að glíma við alls konar og maður verður miklu meira var við það í dag, sérstaklega á samfélagsmiðlum.“

– En hvernig gekk að feta áfram brautina eftir að þú varst komin út af BUGL?

„Þegar ég kom út af BUGL var ég ekki endilega með rétta hugarfarið eða þroskann. Ég tók þessu eins og ég væri búin að læra margt og fá verkfæri til að líða aldrei illa og standa mig bara ennþá betur en ég var lögð inn aftur áður en ég byrjaði í 10. bekk þegar ég hafði keyrt mig í kaf og tók aðra niðursveiflu. Það tók mig nokkur ár að átta mig á því að mér hætti til að taka að mér of mörg verkefni og vildi vera 100% í öllu hvort sem það voru íþróttirnar, skólinn eða félagslífið og því fylgdi niðursveifla. Á sumrin var ég rólegri og þá náði ég að safna orku en ég var alltaf hrædd við haustin því þá vildi ég taka þátt í öllu og skráði mig í allt mögulegt. Vandinn var sá að maður getur ekki verið 700% á sama tíma, það þarf að deila 100% niður í allt sem maður ætlar að gera.“

Þegar Elva Dögg varð átján ára fékk hún ekki lengur aðstoð frá BUGL enda orðin fullorðin og þá hófst mikil leit að hjálp og prófaði hún ýmislegt.

„Við þreifuðum okkur sjálf áfram og ég prófaði bæði sálfræðinga og jóga og hugleiðslu sem ég hafði lært í 9. og 10. bekk. Ég fékk aðstoð hér og þar og var svo bæði upp og niður. Byrjaði í framhaldsskóla í bænum og keyrði mig í kaf þar. Fór þá í FS og átti þar góðar upp- og niðursveiflur. Ég vildi standa mig vel og skammaðist mín fyrir að hafa hætt í hinum skólanum. Ég fór á fullt í félagslífið og allt mögulegt og tók því góða niðursveiflu á næstsíðasta árinu. Lokaárið langaði mig að útskrifast eftir þrjú og hálft ár eins og vinkonur mínar og þurfti þá að taka umframeiningar til þess. Bæði mamma og skólastjórnendur ráðlögðu mér frá því en ég var ákveðin að klára. Þá fór ég aftur í niðursveiflu og náði ekki að útskrifast en það var samt enginn heimsendir, eins og mér fannst þá. Síðustu önnina var ég bæði búin að öðlast nægilegan þroska og reynslu og náði því loksins að slaka á og njóta meira þess sem ég var að gera. Þetta var besta önnin af öllum, ég náði að taka þátt í ýmsu en passaði mig á því að gera ekki of mikið og gera ekki of miklar kröfur til mín. Þarna byrjaði ég að slaka á og leyfa mér að gera mistök – og vera bara ég sjálf.“

Þarna náði Elva Dögg að finna meðalveginn og skilja betur hvað varð þess valdandi að hún tók þessar niðursveiflur. Henni fannst margt skemmtilegt en stundum var það bara of mikið, og það þarf ekki að vera góður í öllu. Hún var með meðfætt keppnisskap en hún segir að þar hafi vandinn byrjað.

Keppnisskapið olli kvíða

„Það er mikilvægt að fólk hugsi um þau skilaboð sem það sendir ungu fólki og hvernig það hrósar og fyrir hvað. Ég var með mikið keppnisskap og tók þátt í flestum íþróttum, held að þær séu fáar sem ég hef ekki æft. Það er gaman að hafa getuna en það getur líka verið of mikið ef maður vill vera góður í öllu. Hver hefur þá ábyrgð að passa það að börnin séu samt að njóta sín og slaka á? Það þarf líka að hlúa að andlegu heilsunni og að börn fái að njóta þess að vera börn jafnvel þótt þau séu að keppa. Ég er með mikið keppnisskap og það olli mér kvíða þótt það hafi kannski ekki valdið öðrum kvíða en möguleikinn er fyrir hendi og því þurfum við að fara varlega.

Ég man þegar kviknaði á keppnisskapinu mínu en þá vorum við að vinna stærðfræðihefti og ein stelpan var búin á undan hinum. Þá lyfti kennarinn heftinu hennar og hrósaði henni og ég hugsaði: „Vá, hún er að fá geggjað hrós fyrir að vera svona dugleg – mig langar í svona hrós.“

Börn eru tilbúin að leggja mikið á sig til að fá hrós og það er auðvitað gott að fá hrós en ég held að í skólum þurfi að vinna meira með manneskjuna og félagslegu samskiptin. Hvað þýðir það að vera góð manneskja og hvernig getur þú hjálpað öðrum? Við leggjum áherslu á greinar sem eru kannski ekki aðalatriðið í lífinu og við ættum frekar að undirbúa börn með því að kenna þeim að takast á við ólíkar tilfinningar, þegar þeim líður illa eða takast á við kvíða. Það er hluti af lífinu og við getum lagt meiri áherslu á það. Ég hafði ekki orð yfir kvíða og vissi ekki að ég væri að fá kvíðakast eða hvernig ég ætti að tækla það. Ef ég hefði fengið aðstoð við mína vanlíðan hefði kannski verið hægt að grípa fyrr inn í og fá aðstoð.“

Skrifa í dagbókina: „Núna ætlar þú að slaka á!“

Elva Dögg er á þriðja ári í tómstunda- og félagsmálafræði en hún hefur unnið mikið með börnum og unglingum, bæði sem þjálfari í fimleikum, í félagsmiðstöðinni Fjörheimum og hjá KVAN og án efa hefur þessi lífsreynsla hennar hjálpað henni við þau verkefni.

„Mér finnst mikilvægt að geta nýtt mína reynslu til að leiðbeina og aðstoða svo aðrir fái mögulega að njóta og það má segja að hún sé minn drifkraftur. Það er alveg mikið að gera hjá mér og ég þarf að passa mig en ég hef verið að æfa mig í því að segja nei. Ég legg áherslu á að standa mig í KVAN og skólanum en skrifa líka slökun í dagbókina: „Hér ætlar þú að eiga rólegan morgun, hér ætlar þú ekki að gera neitt,“ og ég geri sjálf æfingar sem hjálpa mér að átta mig á því hvernig mér líður og ef ég set of miklar kröfur á sjálfa mig.

Mér finnst ekkert vera ómögulegt og allt hægt, ef maður setur metnað í það sem maður vill gera.

Þegar manni hefur liðið ótrúlega illa verða aðrir erfiðleikar auðyfirstíganlegir miðað við hvernig mér leið á tímabili. Mitt hugarfar snýst um að finna jafnvægið. Þó manni líði illa og sé ekki alltaf í toppstandi þá heldur lífið áfram og maður getur alltaf fundið sína leið. Aldrei gefast upp því mistökin gera mann svo margfalt sterkari. Þegar ég horfi til baka þá heyrði ég aldrei neinn segja við mig: „Þú mátt gera mistök, það er í lagi og þú lærir af því eða það skapast ný tækifæri.“

Við lítum á mistök sem veikleikamerki og þegar ég gerði mistök þá var ég ekki að standa mig vel að mínu mati. Það er þetta sem ég hef þurft að temja mér, að gera markvisst smá mistök. Að vanda mig ekki alveg jafn mikið því mistök gera svo margt gott fyrir mann.“

Viðtalið við Elvu er hægt að heyra í hlaðvarpinu GÓÐAR SÖGURsmelltu hér.

Elva með fjölskyldu sinni.