Missti vinnuna og opnaði vinnustofu í skúrnum
- Opin vinnustofa hjá Svo margt fallegt á Ljósanótt
Stína Sæm tekur vel á móti gestum á opinni vinnustofu Svo margt fallegt á Ljósanótt. Vinnustofan er við heimili Stínu og fjölskyldu við Klapparstíg 9 í gamla bænum í Keflavík. Þar verður kynning og nokkur örnámskeið um það hvernig á að mála með mjólkurmálningu eða „milk paint“ eins og málningin er kölluð á ensku. Gestir geta kynnst þessari skemmtilegu gamaldags málningu og prufað að mála. Húsgögn máluð með Milk paint verða einnig til sýnis og sölu á vinnustofunni.
„Mjólkurmálningin er ofsalega skemmtileg enda hægt að leika sér með hana á ýmsan hátt; gefa munum gamaldags útlit, láta málninguna springa og svo framvegis,“ segir Stína. „Ef undirlagið er fráhrindandi er nauðsynlegt að nota bindiefni en á hrein efni, til dæmis við og leir, þá smýgur hún strax inn og þornar á örskotsstundu.“ Á opnu vinnustofunni ætlar Stína að leyfa fólki að prufa að mála og kynnast þessari skemmtilegu aðferð til að gefa hlutum nýtt útlit.
Stína opnaði bloggsíðuna Svo margt fallegt árið 2011. Þar deildi hún með lesendum myndum af ýmsum fallegum húsgögnum og öðru sem gleður augað. „Ég var búin að vera að deila þessu á Facebook-síðunni minni en óttaðist að missa alla vini mína þar sem ekki allir hafa áhuga á svona dúlleríi,“ segir hún. Til að byrja með deildi Stína aðallega myndum sem hún fann á öðrum bloggsíðum en fór svo líka að sýna myndir sem hún tók sjálf heima hjá sér og urðu þær strax vinsælli meðal lesenda á blogginu. Síðar stofnaði Stína Facebook-síðuna Svo margt fallegt og eru fylgjendur síðunnar nú tæplega fimm þúsund. Þessa dagana er Stína svo að setja á laggirnar vefverslun á bloggsíðunni. Þar ætlar hún að selja mjókurmálninguna, áhöld og uppgerðu húsgögnin.
Í fyrra missti hún vinnuna sína í blómabúð en verið var að selja fyrirtækið. Þá ákvað hún að skapa sér atvinnu sjálf og standsetti vinnustofu í skúrnum. Þar er nóg að gera og heldur Stína námskeið og gerir upp gömul húsgögn fyrir fólk, auk þess að kaupa gömul húsgögn, gera þau upp og selja. Nú starfar hún í annarri blómabúð meðfram verkefnunum sem tengjast bloggsíðunni og vinnustofunni. Þegar Stína heyrði af mjólkurmálningunni heillaðist hún af kostum hennar og hefur þegar málað ýmsa muni og haldið námskeið fyrir vinahópa. Málningin er aðeins gerð úr fimm efnum og því umhverfisvæn og án eiturefna. Að sögn Stínu er mjólkurmálning mjög vinsæl í Bandaríkjunum. Stína er sú eina sem selur hana hér á landi.
Vinnustofan verður opin í dag fimmtudag frá klukkan 18 til 22 og á föstudag og laugardag frá 12 til 19, báða dagana. Allir eru velkomnir.