Missti af 60 milljóna símtalinu
Eiríkur Leifsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, lenti heldur betur í lukkupottinum í fyrradag þegar hann vann 60 milljónir króna í Happdrætti Háskóla Íslands. Þegar tilkynna átti Eiríki um vinninginn var hann vant við látinn en Eiríkur hafði brugðið sér inn í Kringluna þar sem hann þurfti að koma við hjá skósmið.
„Síminn var hljóðlaus í vasanum meðan ég skrapp inn. Ég sá svo fjölda ósvaraðra símtala frá Happdrætti Háskólans þegar ég kom út úr Kringlunni," segir Eiríkur við Morgunblaðið en honum var nokkuð brugðið í fyrstu en grunaði þó strax hvert tilefnið gæti verið. „Ég var ekki viss um það hvort ég hefði unnið milljón eða sextíu milljónir." Hann komst að hinu sanna um kvöldið.
Eiríkur segist vera rólegur yfir vinningnum og ætlar ekki að láta hann koma sér úr jafnvægi.