Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mireya Samper sýnir að Útskálum
Mánudagur 25. október 2010 kl. 11:00

Mireya Samper sýnir að Útskálum

- forsmekkur að mikilli listaveislu í Garði

Menningardagur kirkna verður á Suðurnesjum og í öllu Kjalarnesprófastdæmi 31. október nk. Af því tilefni verða menningarviðburðir í öllum kirkjum á svæðinu. Í tengslum við menningardaginn að Útskálum kom upp sú hugmynd að vera með sýningu í Útskálahúsinu. Sóknarnefnd Útskálakirkju leitaði til Mireyu Samper sem nú vinnur að því að setja upp listsýningu í húsinu. Sýningin er að hluta til unnin að Útskálum, þar sem listakonan vinnur ný verk til viðbótar við önnur sem hún kemur með á staðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sýningin að Útskálum opnar kl. 18 þann 27. október og mun sýningin standa yfir þrjár helgar. Sjálfan menningardaginn í Útskálakirkju verður athöfn í kirkjunni kl. 14:15 og tónleikar með hljómsveitinni Silfurberg. Þar fer Þorvaldur Halldórsson fremstur í flokki.

Mireya var að vinna að sýningu sinni þegar Víkurfréttir litu við að Útskálum nú í vikunni. Innandyra má segja að húsið sé hálfbyggt, klæðningar vantar á veggi og loft. Listakonan segir það alls ekki trufla sig og lofar áhugaverðri sýningu. Rýmið sé ögrandi og bjóði á sama tíma upp á ferska möguleika. Mireya segir að fyrirvarinn sem hún hafi fengið hafi verið stuttur, en hún eigi úrval af verkum til að sýna, bæði myndir og skúlptúra, sem passa mjög vel til að setja inn í sýningarrýmið að Útskálum.

Mireya hefur verið talsvert í Garðinum á þessu ári og unnið myndir úr umhverfinu hér Suður með sjó. Mireya kemur að stóru listaverkefni sem ber heitið „Ferskir vindar í Garði“ sem hefst um mánaðamótin nóvember/desember. Hún segist eiginlega vera búin að vera með nefið í öllum hornum að finna sýningarrými og vinnuaðstöðu fyrir tugi erlendra listamanna sem eru væntanlegir til landsins og skapa listaverk í Garði.

Mireya segist í dag skynja landslagið og umhverfið á Suðurnesjum öðruvísi en þegar hún fór á milli Reykjavíkur og Keflavíkur til að fara á flugvöllinn og í mesta lagi í Bláa lónið. Listakonan segist skynja mjög sérstaka birtu í Garðinum og þar sé einnig mjög sérstök orka. Mireya segist upplifa birtuna og orkuna hér eins og hún sé á sunnanverðu Snæfellsnesinu, alveg undir jökli. Hún segist ekkert undrast það, enda blasi Snæfellsjökull við úr Garðinum. Hún segist hafa fundið þetta strax og hún fór að vinna að verkum sínum í Garðinum og segir orkuna og birtuna höfða til sín. Hún segist reyndar orðin svo heilluð af Garðinum að nú vilji hún flytja í Garðinn og leitar að húsnæði þar sem hún geti komið sér upp góðri vinnuaðstöðu, vanti helst heila hlöðu til að skapa verk sín.

Á sýningunni að Útskálum sýnir Mireya Samper verk sem hún vinnur á japanskan pappír. Verkin verða bæði heftuð beint á veggi sýningarrýmisins og einnig römmuð inn á milli tveggja glerja þannig að njóta megi þeirra frá fleiri en einu sjónarhorni. Þá verða skúlptúrar unnir í stein.

Eins og komið hefur fram hér að framan er Mireya að vinna að stóru listaverkefni í Garði, „Ferskir vindar í Garði“, þar sem tugum erlendra listamanna hefur verið boðið að koma í Garðinn og vinna að list sinni í desember og janúar nk. Mireya segist hafa rennt blint í sjóinn með þátttöku listafólks, en Ísland virðist ofarlega á blaði hjá listamönnum í dag, sem ætla að fjölmenna. Munu þeir vinna að list sinni í Garðinum, halda tónleika og sýna verk. Verður þétt menningardagskrá þær vikur sem verkefnið stendur yfir og ókeypis aðgangur að öllum viðburðum. Þá munu þekktir listamenn kenna börnum í leikskóla, grunnskóla og tónlistarskólanum í Garði. Það er því mikil menningar- og listaveisla framundan í Garðinum þegar skammdegið verður hvað svartast. Þeir sem vilja kynna sér verkefnið nánar geta skoðað vefinn www.fresh-winds.com þar sem m.a má sjá kynningu á öllum þeim listamönnum sem eru væntanlegir í Garðinn.

Texti og mynd: Hilmar Bragi Bárðarson