Minnisvarði flugslyss sem átti eftir að hafa áhrif á heimssöguna endurvígður
Fyrir fimm árum var afhúpaður minnisvarði við Grindavíkurveg til minningar um flugslys sem varð á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum en þá fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar heitið „Hot Stuff“. Í flugslysinu fórust fjórtán manns, þeirra á meðal Frank M. Andrews, hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu, en hann var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, stélskyttan George A. Eisel.
Minnisvarðanum hefur nú verið fundið nýr samastaður, fyrir ofan bílastæðin við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegs, þangað sem aðgengi að honum er ágætt. Í gær var minnisvarðinn endurvígður við tilkomumikla athöfn sem fjöldi fólks var viðstatt.
Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Gunnar Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, voru meðal ræðumanna en athöfninni stýrði John Lux, sem hafði veg og vanda að því að minnisvarðinn var reistur ásamt ættingjum þeirra látnu og bræðrunum Ólafi og Þorsteini Marteinssonum.
Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lék þjóðsöngva beggja landa auk fleiri laga og þá lék Almar Örn Arnarson á trompet þegar blómsveigur var lagður við minnisvarðann.
Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower varð síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953–1961 en margir eru þeirra skoðunar að það hefði orðið hlutskipti Frank. M. Andrews hefði hann ekki farist í þessu hörmulega slysi. Það er því óhætt að segja að þessi atburður hafi haft mikil áhrif á heimssöguna.
Meðfylgjandi eru myndir sem ljósmyndari Víkurfrétta, Jóhann Páll Kristbjörnsson, tók við athöfnina og þá er tengill hér að ofan á eldri frétt Víkurfrétta þar sem lesa má um flugslysið.