Minningartónleikar um Elly Vilhjálms
Glæsilegir minningartónleikar verða haldnir til heiðurs Elly Vilhjálms, laugardaginn 6. október í Laugardalshöllinni.
Einstakur ferill Ellyjar verður rifjaður upp í máli og myndum, með tónlist og ýmiss konar myndskeiðum, nýjum og gömlum. Laugardalshöllinni verður breytt í tímavél og gestir munu eiga kost á því að hverfa aftur til 6. og 7. áratugarins í eina kvöldstund. Ásamt Senu standa ættingjar Ellyjar að tónleikunum og munu ýmsir samferðamenn og vinir Ellyjar koma fram á einn eða annan hátt.
Guðrún Gunnarsdóttir, einn helsti merkisberi minningar Ellyjar síðastliðin ár skipar veigamikið hlutverk í tónleikahaldinu sem og Margrét Blöndal, sem er kynnir tónleikanna. Margrét situr þessa dagana við skriftir um ævi Ellyjar og er bók væntanleg um sama leyti og tónleikarnir verða haldnir. Efni úr bókinni verður notað við handritasmíð tónleikanna, enda verður hún í höndunum á Margréti og Gunnar Helgasyni, leikstjóra tónleikanna.
Allar helstu söngkonur landsins munu koma fram á tónleikunum og nú þegar eru eftirfarandi stjörnur staðfestar:
Andrea Gylfadóttir
Diddú
Eivör
Ellen Kristjánsdóttir
Guðrún Gunnarsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir
Lay Low
Ragnhildur Gísladóttir
Sigga Beinteins
Þessi föngulegi hópur verður dyggilega studdur af Agli Ólafs, Friðriki Ómari, Gissuri Páli Gissurarsyni og Sigurði Guðmundssyni, auk stórsveitar, strengjasveitar og kóra. Fleiri gestir munu bætast við og verður uppljóstrað um þá fljótlega.
Áætlað er að hefja miðasöluna í lok ágústmánaðar og verður fyrirkomulag hennar tilkynnt nánar innan skamms.