Minningarskjöldur um Þormóðsslysið afhjúpaður á Garðskaga
Þann 18. febrúar á þessu ári voru 80 ár liðin frá því að vélskipið Þormóður BA fórst við Garðskaga eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Skipið var á leið frá Norðurlandshöfnum og Vestfjörðum með farþega og farm. Með skipinu fórust 31 maður, 24 farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn. Margir farþeganna voru frá Bíldudal.
Minningarskjöldur um Þormóðsslysið var afhjúpaður á Garðskaga í hádeginu í dag. Egill Þórðarson loftskeytamaður fór yfir aðstæður á vettvangi í aðdraganda sjóslyssins aðfararnótt 18. febrúar 1943 og raunar frá því að skipið lagði upp frá Ólafsvík og fyrir Snæfellsnesið daginn áður. Einnig sagði Jakob Ágúst Hjálmarsson prestur nokkur orð, en hann tók saman bókina „Allt þetta fólk“ árið 2013, sem fjallar um þennan harmleik sem þetta stóra sjóslys er. Þá stýrði Hörður Gíslason dagskránni og leiddi inn í athöfnina.
Það er Garðmaðurinn Bárður Bragason sem á heiðurinn af því að minningarskjöldurinn var settur upp við grjótgarðinn undir ljósi Garðskagavita. Þormóður BA fórst þar skammt undan landi og allir 31 sem voru um borð.
Á þessum árum var heimsstyrjöld og ekki mátti útvarpa veðurfréttum á Íslandi, þannig að fólk vissi í raun ekki út í hvaða aðstæður það væri að fara.
Þeir sem standa að því að setja upp minningarskjöldinn um Þormóðsslysið vilja þakka nokkrum aðilum fyrir stuðning við verkefnið. Fyrst skal nefna Arnarlax á Bíldudal og Garðmanninn Kjartan Ólafsson, sem var stjórnarformaður fyrirtækisins þegar leitað var eftir stuðningi við framkvæmdina. Einnig fá SI Raf ehf. í Garði og Bragi Guðmundsson byggingaverktaki í Garði þakkir. Þá fær listamðurinn Jóhann Jónsson frá Vestmannaeyjum þakkir fyrir myndina af Þormóði BA sem prýðir skjöldinn. Einnig fær Hans Wíum Bragason þakkir fyrir ómetanlegt vinnuframlag sitt við uppsetningu á verkinu en þeir bræður, Bárður og Hans, sóttu myndarlegt fjörugrjót í Garðskagafjöruna og komu því fyrir í grjótgarðinum undir Garðskagavita, þar sem skjöldurinn var svo festur upp.
Nánar verður fjallað um athöfnina á Garðskaga í Víkurfréttum í komandi viku. Í spilaranum hér að neðan má horfa og hlusta á þær frásagnir sem fluttar voru á Garðskaga í dag.
Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson tók saman bókina Allt þetta fólk, sem fjallar um Þormóðsslysið fyrir 80 árum. Hann flutti nokkur orð á Garðskaga í dag og fór með bæn.
Hér má sjá minnigarskjöldinn á Garðskaga. Listamaðurinn Jóhann Jónsson úr Vestmannaeyjum, Jói Listó, lagði til myndina af Þormóði BA sem grafin er í skjöldinn. Einnig eru nöfn allra sem fórust með skipinu þessa febrúarnótt, 18. febrúar 1943, fyrir 80 árum.
Egill Þórðarson, loftskeytamaður, rakti aðstæður síðasta sólarhringinn hjá Þormóði BA, eða frá því að vélbáturinn lagði upp frá Snæfellsnesi og þar til síðast heyrðist til áhafnarinnar þegar hún sendi út neyðarkall eftir að hafa snúið við útaf Stafnesi.
Hörður Gíslason stýrði samkomunni á Garðskaga og setti viðstadda inn í þær aðstæður sem voru fyrir 80 árum.
Fjölmennt var við viðburðinn í dag.