Minja- og sögufélagið hlaut Menningarverðlaun Grindavíkur
Minja- og sögufélag Grindavíkur hlaut um helgina Menningarverðlaun Grindavíkur 2017. Frístunda- og menningarnefnd Grindavíkur útnefnir annað hvert ár handhafa Menningarverðlauna Grindavíkur og annað hvert ár bæjarlistamann Grindavíkur, samkvæmt Menningarstefnu Grindavíkurbæjar.
Í ár komst nefndin að samhljóma niðurstöðu um handhafa menningarverðlauna 2017. Minja- og Sögufélag Grindavíkur vinnur að stórum verkefnum og einkennist starf félagsmanna af miklum metnaði, umhyggju fyrir sögu Grindavíkur og varðveislu þeirra minja sem hér er að finna. Félagið hefur eignast hina fornu verbúð Bakka og vinnur að því að gera húsið upp og færa til vegs og virðingar að nýju en þar láta félagsmenn ekki staðar numið og eiga í handraðanum hugmyndir og áætlanir sem spennandi verður að fylgjast með þegar þær verða að raunveruleika í vonandi náinni framtíð. Í félaginu býr mikill mannauður og félagið og félagsmenn verðugir handhafar Menningarverðlauna Grindavíkurbæjar árið 2017.
Eftirtaldir hafa verið útnefndir Bæjarlistamenn Grindavíkur:
2014 Halldór Lárusson
2016 Helga Krisjánsdóttir
Eftirtaldir hafa fengið Menningarverðlaun Grindavíkur undanfarin ár:
2010 Ómar Smári Ármannsson og Saltfisksetrið
2011 Bryggjubræður, Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir
2012 Þorbjörn hf.
2013 Einar Lárusson
2015 Harpa Pálsdóttir
Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.