Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mini veröld Lúka í HönnunarMars
Föstudagur 5. maí 2023 kl. 19:01

Mini veröld Lúka í HönnunarMars

Lúka Art & Design er lítið íslenskt hönnunarfyrirtæki. Hönnuður og framkvæmdastjóri er Keflvíkingurinn Brynhildur Þórðardóttir. Lúka Art & Design er þátttakandi í HönnunarMars, sem lýkur nú um helgina og sýnir vörulínuna Huggulegt líf í Pennanum húsgögnum í Skeifunni. Línan var fyrst frumsýnd á HönnunarMars 2019 en hefur verið í þróun síðan.

Lúka sýnir nýjustu hönnun sína af húsbúnaði í sambland við vörur sem þegar eru í framleiðslu. Frumgerðir af borðum og stólum eru sýndar í mini útgáfum sem virka eins og þrívíðar skissur af hlutunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mini útgáfurnar gera okkur kleift að kanna tengsl hlutarins við rýmið og efnið og síðast en ekki síst að sjá hvort formin og hlutföllin séu að ganga upp. Efnisvalið er líka stór hluti af hönnun hlutarins og með því að búa til mini útgáfur af einhverju getur maður prófað að setja hlutinn í mismunandi efni án þess að kosta miklu til eða hreinlega sóa efni. Þannig geta hönnuðir nýtt afskurð og búta af efni sem annars fara til spillis og því er um vissa endurnýtingu að ræða. Fyrir mig sem hönnuð er líka ákveðin útrás að búa hlutinn til í höndunum og í því ferli fær maður innblástur og nýjar hugmyndir fæðast. Að lokum held ég að með því að búa til mini útgáfur af hlutunum fyrst getur maður rannsakað þá, endurskoðað og betrumbætt hönnun sína á þeim. Úr verða vandaðir hlutir sem þjóna betur tilgangi sínum og mynda meiri heildarsvip,“ segir Brynhildur Þórðardóttir hönnuður.

Huggulegt líf

Línan Huggulegt líf snýst um huggulegt andrúmsloft og friðsæld. Boðið er upp á breiða línu af umhverfisvænum og sjálfbærum húsbúnaði með samþætt heildarútlit fyrir heimilið. Línan er að öllu leyti framleidd hérlendis.

„Vörurnar auðvelda okkur að upplifa gæðastundir, hvort sem er með sjálfum okkur eða í félagsskap annarra. Huggulegt líf línan var fyrst frumsýnd á HönnunarMars 2019 og hefur hún síðan verið í áframhaldandi þróun undanfarin ár. Vörurnar eru framleiddar úr náttúrulegum hráefnum á borð við birki, eik og ull en einnig stáli, steypu, gleri og endurunnu plasti. Unnið er með róandi litir þar sem brúnir tónar eru ríkjandi ásamt rauðum, gulum, bláum og gráum,“ segir Brynhildur.

Litríkar og líflegar vörur

Lúka Art & Design er lítið íslenskt hönnunarfyrirtæki.

„Við erum búin að vera starfandi með hléum síðan í byrjun árs 2009. Hugmyndafræði fyrirtækisins hefur alltaf snúist um gæði og gleði, vörurnar okkar eru litríkar og líflegar og stefnan var strax sett á framleiðslu hérlendis og starfaði fyrirtækið í fyrstu á mörkum myndlistar og hönnunar. Lúka hélt m.a. nokkrar myndlistarsýningar og setti upp innsetningu í GalleríBOXi á Akureyri sem hét Prjónaheimur Lúka. Fyrirtækið tók einnig þátt í sýningum á vegum Fatahönnunarfélags Íslands og var með í Showroom Reykjavík nokkrum sinnum og sýndi á Reykjavik Fashion Festival. Lúka hefur líka tekið þátt í Copenhagen Fashion Week og stefnir á fleiri vörusýningar í Evrópu. Í dag býður Lúka upp á ýmis konar heimilisvörur s.s. teppi, skurðarbretti, framreiðslubakka, spegla og kertastjaka.,“ segir Brynhildur.

Brynhildur Þórðardóttir er með BA Í textíl- og fatahönnun frá Listaháskóla Íslands og með meistaragráðu í tæknilegum textílum og atgervisfatnaði. Hún hefur m.a. unnið sem sjálfstætt starfandi fatahönnuður fyrir ZOŸON og Varma. Brynhildur hefur einnig starfað sem búningahönnuður fyrir Poppoli kvikmyndagerð og hefur verið tilnefnd til Eddu verðlaunanna fyrir verk sín. Hún hefur unnið sem listrænn ráðunautur fyrir myndlistarmenn og hönnuði, gert auglýsingar fyrir stofnanir og fyrirtæki, sett upp sýningar fyrir Fatahönnunarfélag Íslands, Poppminjasafn Íslands ofl. Í dag er Brynhildur að sinna eigin hönnun og kennslu, veitir innanhúsráðgjöf, vinnur að vöruþróun fyrir ýmsa aðila og hannar sokka fyrir Smart Socks.

Nánari upplýsingar:
lukaartdesign.is/
instagram.com/lukaartdesign/
facebook.com/Lukaartanddesign/