Milljónatjón þegar stórbruni varð í Keflavík
Stórbruni varð í frystihúsi Keflavíkur hf. sl. þriðjudagskvöld er eldur kom upp í ísklefa hússins sem staðsettur er í suðurenda hússins. Allt tiltækt slökkvilið var þegar kallað út og þegar leið á kom Slökkvilið Miðneshrepps til hjálpar og voru um 50-60 slökkviliðsmenn að störfum, og einnig kom aðstoð frá slökkviliðinu á Keflavikurflugvelli sem kom með stóran tankbíl, en mjög illa gekk að ráða niðurlögum eldsins, sem breiddist út um allt frystihúsið með lofti, en meðfram allri lengjunni voru umbúðageymslur sem eldurinn læsti sig í og varð húsið fljótt orðið alelda.
Eftir fjögurra tíma slökkvistarf eða um miðnætti tókst loks að ráða niðurlögum eldsins að mestu. Frystihúsið er mjög mikið skemmt, en þó slapp norðurendi hússins undan eldinum þar sem flökunarvélar eru staðsettar. Einnig sluppu frystitæki og pressur nokkurn veginn frá eldinum en þó kom þar mikill reykur og vatn. Aðstaða starfsfólks slapp einnig, beitningaraðstaða og humarvinnslan.
Óvíst er að birgðir af frosnum fiski, um 13.000 kassar, hafi sloppið, en þær voru í stærsta frystiklefa hússins. Verðmæti þessara kassa eru um 18-20 milljónir króna.
Tjónið skiptir tugum milljóna á húseign og vélabúnaði, en hjá fyrirtækinu vinna um 120 manns og um 60-70 skólakrakkar yfir sumartímann, og ljóst er að margir munu missa atvinnu sína um óákveðinn tíma. Eldsupptök eru óljós ennþá, en talið er líklegt að kviknað hafi í út frá rafmagni. - pket.
Víkurfréttir • Föstudagur 27. maí 1983
Vitað er að a.m.k. 11 íbúðir urðu fyrir skemmdum af völdum reyks er eldur kom upp í Keflavík hf. á dögunum, en þar sem enginn einn aðili er með rannsókn þessa máls á sinni könnu, er erfitt að vita nákvæmlega hve margar íbúðir skemmdust.
Enn er unnið að rannsókn á eldsupptökum og mati brunatjónsins hjá Keflavík hf., og munu niðurstöður brátt liggja fyrir. Tjón á fiskafurðum varð mun minna en óttast var, og hefur öllum þeim fiski er átti að fara á Ameríkumarkað þegar verið skipað út í m.s. Hofsjökul, en aðeins þurfti að skipta um umbúöir á fiskinum og tók það á þriðja dag að vinna verkið.
Að sögn Ólafs B. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Keflavíkur hf., mun humarvinnsla fara fram í sumar þrátt fyrir brunann, en önnur frysting mun fara fram hjá Miðnesi hf., en þar verður borðum fjölgað svo fólk það sem starfaði við frystihús Keflavíkur hf. geti fengið vinnu út frá. - epj.
VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi greinar birtist 19. og 27. maí 1983.