Miklir möguleikar á útivistarsvæðinu við Þorbjörn
„Svona skipulagsvinna er alltaf í tengslum við aðalskipulag en hún snýst mest um framtíðarsýnina, hvernig viljum við sjá þetta svæði við Þorbjörn þróast og hvað viljum við styrkja sem þegar er til staðar. Þetta er mjög vinsælt útivistarsvæði og því viljum við vanda vel til verka,“ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar.
Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur þann 25. apríl sl., var fjallað um deiliskipulag við Þorbjörn en fjallið er líklega einn af vinsælli gönguleiðum á Suðurnesjum, með ótal möguleikum til göngu upp fjallið eða í kringum það og nánasta umhverfi. Selskógur liggur við rætur fjallsins norðanmegin og skv. nýju skipulagi á að hefja skógrækt suðvestanmegin líka en deiliskipulagið nær líka til Lágafells sem sömuleiðis er suðvestan við Þorbjörn.
Deiliskipulagið liggur að deiliskipulagi Svartsengis og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn og leggja fram stefnu um útivistarsvæðið og hvernig viðhaldi og uppbyggingu skuli háttað. Meginmarkmiðið er að skipuleggja núverandi stöðu, skilgreina færri en skipulagða stíga og bæta aðgengi á vissum stöðum til að stýra umferð, ákvarða staðsetningu útsýnisaðstöðu og áningarstaða, skógræktarsvæða og nauðsynlegra innviða.
Leiðir að markmiðum erum m.a. að skilgreina aðalleiðir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarenda um svæðið til að auka upplifun ólíkra útivistarhópa í sátt við hvora aðra og við náttúruna.
„Gönguleiðirnar eru mjög margar, m.a. hringinn í kringum Þorbjörn en við þurfum að laga og í raun, breyta göngustígnum vestan við Þorbjörn því í skjálftahrinum undanfarinna ára hefur hrunið úr Þorbirni vestan megin og eru stór björg nærri núverandi göngustíg. Ég sé fyrir mér mjög spennandi svæði milli Þorbjarnar og Lágafells en við ætlum að skilgreina svæðið þar á milli, m.a. sem skógræktarsvæði. Svæðið býður upp á mikla möguleika til útivistar og verður spennandi að sjá hvernig málin munu þróast. Við viljum merkja svæðið betur m.t.t. gönguleiða, áningarstaða og þeira minja sem eru á svæðinu, má þar nefna Þjófagjá, Baðsvelli og bækistöðvar hersins frá heimstyrjöldinni í sigdalnum á toppi Þorbjarnar. Deiliskipulagið var sent til umsagnar hagsmunaaðila en þeir eru nokkrir, m.a. Vegagerðin, landeigendur, Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslan og utanríkisráðuneytið en varnarsvæði liggja sunnan megin við Þorbjörn, þar sem möstrin gnæfa yfir,“ segir Atli Geir.