Mikilvægur boðsskapur í flottu hárlakki
Leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Vox Arena, frumsýndi í liðinni viku söngleikinn Hairspray í leikstjórn Elvu Óskar Ólafsdóttur en æfingar hafa staðið yfir frá því í byrjun árs.
Alls taka um 50 einstaklingar þátt í sýningunni þar sem sagt er frá glaðværa unglingnum Tracy Turnblad þegar hún reynir að koma sér á framfæri sem dansari í sjónvarpsþætti bæjarins og berst á móti kynþáttafordómum. Af skiljanlegum ástæðum þurfti leikstjórinn að sníða sér stakk eftir vexti og því var lituðum leikurum og dönsurum skipt út fyrir fátæklinga. Mismununin er víst víða, hvort sem það er hörundslitur, misskipting auðs, nú eða fólk í yfirþyngd.
Brynja Ýr Júlíusdóttir leikur Tracy en hún er jafnframt formaður Vox Arena, höfundur leikgerðar, þýðandi lagatexta auk þess sem hún kemur að leikmyndahönnun, hljóðvinnslu og er aðstoðarleikstjóri. Hér er því greinilega skörungur á ferð og skilaði hún hlutverki sínu einstaklega vel og af mikilli yfirvegun, sérstaklega þegar hljóðmaðurinn gleymdi sér sem uppskar mikil hlátrasköll áhorfenda sem fylltu Frumleikhúsið.
Jóhanna Jeanne Caudron er danshöfundur en hún hefur tekið þátt í fleiri sýningum á vegum Vox Arena en að auki leikur hún á sannfærandi hátt Seaweed Stubbs, ungan og fátækan dreng sem kennir Tracy nýjustu danssporin í eftirsetu í skólanum. Þá var gaman að sjá Bjarna Júlíus leika Ednu, móður Tracy sem bauð upp á spaugilegar senur.
Söngurinn var mjög sterkur og má þar nefna Rítu Kristínu Haraldsdóttur í hlutverki Maybelle Stubs, Töru Sól Sveinbjörnsdóttur í hlutverki Velmu Von Tussle, Perlu Sóleyju Arinbjörnsdóttur í hlutverki Penny Pingelton og Írisi Ósk Benediktsdóttur. Þá sjá dansarar til þess að það sé ávallt líf og fjör á sviðinu sem nýtist vel þó ekki sé það stórt. Þá er ánægjulegt að sjá svo marga fá tækifæri á að spreyta sig enda nemendafélag vettvangur fyrir ungt fólk að þroska sig og reyna.
Boðskapur Hárlakks er um þarft málefni, að við tökum framförum í baráttu fyrir jafnrétti og mannréttindum en líka að við þorum að vera við sjálf. Ég óska Vox Arena til hamingju með vel heppnaða sýningu.
Dagný Maggýjar.
Hægt er að nálgast miða í síma 659-2820 eða á Facebook síðu sýningarinnar Hairspray NFS.