Mikilvægt sumarstarf unglinga
Unglingavinna er líklega einstakt íslenskt fyrirbæri. Þessi sumarstörf fyrir unglinga bjóðast til dæmis ekki í Noregi eða í Danmörku þar sem undirrituð hefur verið búsett. Erlendir gestir spyrja hvað krakkarnir séu að gera og hvá og lýsa yfir aðdáun sinni þegar þeir heyra að þau séu á launum við að hreinsa og fegra umhverfið.
Þótt Íslendingum finnist þetta starf kannski ekkert merkilegt sjálfum, þá er það líklega samt merkilegt þegar upp er staðið.
Undirrituð man sjálf eftir því á unglingsaldri þegar vinkonurnar sem unnu í unglingavinnunni skömmuðu hinar sem ekki nutu þess heiðurs að sópa og hreinsa götur bæjarins, þegar þær síðarnefndu hentu sælgætisbréfi á götuna.
Við ókum fram á hóp unglinga sem voru að hreinsa trjábeð uppi á Ásbrú í góðviðrinu einn morguninn og tókum þau tali. Einnig töluðum við við flokkstjórana tvo um starfið.
Hvernig er að vinna í bæjarvinnunni?
Alexandra María Traustadóttir 14 ára:
„Er dálítið hrædd við köngulærnar“
„Það er alveg fínt en þetta er í annað sinn sem ég vinn hjá bænum en ég er dálítið hrædd við köngulærnar, þegar ég sé þær. Ég get samt alveg setið á jörðunni. Ég verð mjög ánægð þegar ég sé breytingarnar þegar ég er búin, allt svo snyrtilegt en ég er snyrtipinni. Mér finnst líka gaman þegar fólk tekur eftir því að allt er breytt og betra. Í þessu starfi er maður ekki einn og er með fullt af nýjum krökkum sem mér finnst gaman.“
Gabríel Goði Ingason 16 ára:
„Er þá ekki einn heima á daginn“
„Það er alveg ágætt að vinna í þessu starfi en þetta er í annað sinn sem ég vinn hjá bænum. Gaman að vera með krökkunum og þá er maður ekki einn heima í herberginu á daginn og fær frekar pening fyrir að vinna hér úti. Þá get ég búið til fleiri tölvur en það hef ég gert oft. Ég ætla að verða forritari og er að fara í nám hjá Keili í tölvuleikjagerð. En annars finnst mér fínt að sjá breytingarnar í umhverfinu eftir okkur.“
Hafdís Birta Hallvarðsdóttir 14 ára:
„Gaman að sjá hvað allt verður fallegt og snyrtilegt“
„Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt en ég hef aldrei unnið í bæjarvinnunni. Mér finnst gaman að taka upp arfa og hreinsa beðin því þá verður allt svo fallegt og snyrtilegt. Ég er að prófa að vinna í garðinum hjá ömmu og afa. Mér finnst æðislegt að vera úti að vinna og er rosa svöng þegar ég kem heim eftir vinnudaginn.“
Tristan Jayvie Rosento 13 ára:
„Ný tilfinning að fá laun“
„Þetta er alveg fínt, þetta er fyrsta sumarið mitt hér. Mér finnst mjög áhugavert að hjálpa til í náttúrunni og hreinsa. Ég hélt þetta yrði leiðinlegt en kemur á óvart hvað þetta er skemmtileg vinna. Gaman að vera með krökkunum, gaman að spjalla saman og stundum förum við í eltingarleiki í pásunum. Þetta er fyrsta vinna mín og fæ laun fyrir sem er alveg ný tilfinning fyrir mig. Ég ætla að safna þessu inn á bankabók.“
Hvernig er að vera flokksstjóri?
Aþena Elfur Ingibjargardóttir 21 árs:
„Hef góða tilfinningu fyrir þessu starfi“
„Þetta er fyrsta sumarið mitt en vinkona mín benti mér á þetta starf, sagði að það væri svo skemmtilegt. Ég var í vetur að vinna sem stuðningsfulltrúi í Myllubakkaskóla og finnst gaman að vinna með krökkum. Við erum að labba um og fylgjast með krökkunum og gá hverjir eru duglegir og hverjir ekki. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu starfi í sumar en við verðum með þennan hóp í sumar. Við verðlaunum þau sem standa sig vel með því að leyfa þeim að fá fimm mínútur lengri pásu, það hvetur hina til að vera dugleg. Ég ætla að verða lögga, er að vinna í því að klára stúdentinn og ætla svo í lögregluskólann.“
Brynja Ýr Júlíusdóttir 21 árs:
„Við leggjum líka áherslu á að hafa gaman“
„Þetta er þriðja sumarið mitt sem flokksstjóri sem er mjög gaman þegar það er gott veður. Ég þekki þessa krakka því ég var stuðningsfulltrúi í Háaleitisskóla og er að kynnast þessum krökkum betur hér í sumar. Mér finnst gaman að vinna með krökkum. Ég ætla að verða kennari og er á leið í fjarnám í Háskólann á Akureyri í haust. Við leggjum áherslu á að hafa líka gaman með krökkunum hjá okkur og umbuna þeim sem eru dugleg því þau eiga það skilið. Hin taka eftir því og það hvetur þau til að vera duglegri. Við höfum ekki þurft að biðja krakkana að vera ekki í símanum í vinnunni, enda eru þau öll í Háaleitisskóla og þar er bannað að vera með síma. Þau eru vön því að vera án síma.“