Mikilvægt að unga fólkið hafi rödd
Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði með bæjarstjórn
Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði þriðjudaginn 17. október síðastliðinn með bæjarstjórn Reykjanesbæjar en þetta var fyrsti fundur þeirra í vetur. Ungmennaráðið fundar tvisvar á ári með bæjarstjórn og kemur þar fram með mál sem brenna á hjörtum unga fólksins. Víkurfréttir mættu á fundinn og ræddu við þau ungmenni sem tóku til máls á fundinum.
Mikilvægt að unga fólkið hafi rödd
Berglín Sólbrá Bergsdóttir er fulltrúi Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja og formaður ungmennaráðs. Hún segir að ungmennaráð gegni nokkrum hlutverkum en sé aðallega til staðar fyrir bæjarstjórnina og komi með góðar hugmyndir og aðrar hugsjónir á hlutina heldur er bæjarstjórnin og hjálpi til við að gera bæinn betri. „Ungmennaráð hittir bæjarstjórnina að meðaltali tvisvar á ári, að hausti og á vorin. Við fundum reglulega á milli og athugum hvort hugmyndir okkar séu í vinnslu. Við hittumst yfirleitt tvisvar til þrisvar áður en við hittum bæjarstjórnina og í heildina hittumst við sex til sjö sinnum á ári, svo förum við líka á ráðstefnur og gerum aðra skemmtilega hluti.“
„Það er mikilvægt að unga fólkið hafi rödd, ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það og miðað við fundinn með bæjarstjórn er það alveg ljóst að öll málefni varða unga fólkið. Á fundinum ræddum við allt frá gatnamálum yfir í skólamál, stólamál og flokkun á rusli.“
Sú fyrsta sem talaði fyrir opnu bókhaldi
Marcelina Owczarka er fulltrúi íþrótta- og tómstundahreyfingarinnar og hún talaði meðal annars fyrir því á síðustu tveimur fundum að Reykjanesbær ætti að opna bókhaldið sitt. „Ég hef talað um að opna bókhaldið á síðustu tveimur fundum og það er skemmtilegt að segja frá því að í fyrsta skiptið sem ég talaði um þetta þá var bæjarstjórinn ekki alveg sáttur og sagði þetta eiginlega ómögulegt. Þess vegna finnst mér það frekar fyndið að þetta hafi gengið upp núna. Ég er mjög ánægð með það og það að rödd okkar hafi fengið að skína í gegn í þessu máli. Ég talaði einnig fyrir því að hafa bókasafnið opið lengur en það er gott að komast út af heimilinu til þess að læra í ró og næði, mér finnst það a.m.k. best og ég veit um fleiri sem eru sammála mér, þannig það væri voða gott að geta komið á bókasafnið á kvöldin og ná að einbeita sér betur að lærdómnum.“
Frítt í sund fyrir ungmenni
Hlynur Snær Vilhjálmsson er fulltrúi nemenda í Akurskóla. Í hans máli á fundinum kom meðal annars fram að hann vildi fá strætó til að ganga lengur og frítt í sund aftur. „Mér finnst mikilvægt að það sé frítt í sund fyrir ungmenni. Við erum að stuðla að heilbrigði þeirra hér í Reykjanesbæ og ég tel það vera stórt skref að hafa frítt í sund og talaði þess vegna fyrir því á fundinum. Ég vil líka fá strætó til að ganga lengur á kvöldin þar sem að ég fékk að heyra sögu af stelpu sem þurfti að labba upp á Ásbrú eftir að hafa verið í félagsmiðstöðinni en þá var strætó hættur að ganga. Veðrið var frekar slæmt og gangan tók hana um klukkutíma og var hún komin fram yfir útivistartímann. Ég vona að strætómálin verði endurskoðuð.“
Vill fá tómstundastrætó
Hermann Nökkvi Gunnarsson er fulltrúi Njarðvíkurskóla og kom með hugmynd að tómstundarútu. „Þegar Fjörheimar, sundlaugar og aðrar félagsmiðstöðvar loka á kvöldin þá myndi tómstundarútan taka hring og sækja krakkana. Það yrði umhverfisvænna, færri bílar myndu sækja og ég held að þetta muni henta betur heldur en að láta strætó ganga endalaust um kvöldið. Ég sagði einnig frá því að það vanti ruslatunnur við Njarðvíkurskóla en það er mikið af rusli í kringum skólann. Það vantar einnig betri lýsingu á sparkvöllinn en það er bara ljós öðru megin og því aðeins hægt að spila fótbolta þar sem lýsingin er á kvöldin.“
Þarf að endurnýja stólaflotann
Inga Jódís Kristjánsdóttir er fulltrúi tónlistarskólans en hún vill fá nýja stóla í Njarðvíkurskóla. „Stólarnir sem við erum með núna eru sautján ára gamlir og mjög óþægilegir. Það er búið að endurnýja stóla í öðrum skólum hér í Reykjanesbæ. Það er einnig skortur á lýsingu á mörgum göngustígum í Ytri Njarðvík og ég hef jafnvel sjálf farið aðra leið sem er lengri til þess að þurfa ekki að labba í myrkrinu vegna þess að ég er sjálf mjög myrkfælin.“
Allir velkomnir í skátana
Haraldur Dýri Davíðsson er fulltrúi skátafélagsins Heiðabúa, en skátafélagið fagnaði 80 ára afmæli sínu þann 1. október síðastliðinn. „Starfið í skátunum er að færast í aukana og fleiri eru komnir í skátana sem er breyting frá því sem áður var. Starf okkar í skátunum felst meðal annars í því að binda hnúta og er félagsstarfið okkar fjölbreytt. Það eru allir velkomnir í skátana.“