Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikilvægt að muna hvers vegna við höldum jól
Kristjana Halldóra Kjartansdóttir.
Þriðjudagur 25. desember 2018 kl. 08:00

Mikilvægt að muna hvers vegna við höldum jól

Kristjana Halldóra Kjartansdóttir er mikið jólabarn

Kristjana Halldóra Kjartansdóttir er mikið jólabarn. Hún vill minna sig á mitt í öllum jólaundirbúningnum á hvers vegna hún haldi jól. Henni finnst áríðandi að það gleymist ekki. Það kannast líklega margir Garðbúar við hana Sjönu Kjartans en hún kenndi við grunnskólann á árum áður og stýrði lengi vel barnastarfinu hjá Útskálakirkju. Við heimsóttum hana dag einn rétt fyrir aðventu og ilmurinn úr eldhúsinu hennar var svo lokkandi.

Ertu búin að baka?
„Ég var alltaf búin að baka fyrir aðventuna þegar krakkarnir okkar voru litlir því þá gátum við notið þess betur að undirbúa allt annað fyrir jólin, föndrað og svona. Ég hef nú ekkert alltaf verið búin með baksturinn fyrir aðventu í seinni tíð en af því að þú varst búin að boða komu þína þá ýtti það undir að ég kláraði það helsta fyrir aðventu. Ég á eftir að baka það sem þarf að hakka í munsturvélinni, loftkökurnar og vanilluhringina,“ segir Sjana létt og hlær um leið og hún tekur nýbakaðar smákökur úr ofninum.
„Þegar krakkarnir voru litlir þá var svo gott að vera búin að baka fyrir aðventu því þá var fólk oft að heimsækja hvort annað, mæður meira heima með börnin, allt kannski öðruvísi en í dag. Nú er ég bara með sex sortir en var með miklu fleiri áður fyrr en núna borðar fólk ekki svo mikið af smákökum. Svo ætlar dóttir okkar að baka fyrir pabba sinn jóskar makkarónur,“ segir Sjana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Allar sortirnar tengjast einhverri minningu
„Mamma mín bakaði alltaf múrsteinskökur sem er dálítið maus en ég baka þær samt í dag. Allar sortirnar sem ég baka tengjast einhverri minningu og jólahefðum frá æsku minni. Súkkulaðirúsínukökurnar minna mig á Betu frænku, ég fékk uppskriftina hjá henni. Mamma gerði alltaf molasykurskökurnar og ég geri þær í dag. Ég baka karamellukurltoppa fyrir unglinginn á heimilinu en hjá okkur býr dóttursonur okkar, Einar Hugi, sonur elstu dóttur okkar Jóa en hann er að klára stúdentsprófið hérna í FS.  Mamma hans og fjölskylda býr á Drangsnesi,“ segir Sjana.

Jólate kemur manni í jólaskap
Í stálpotti í eldhúsinu er frúin að sjóða eitthvað te sem ilmar af negul og kanil. „Já, þetta er jólate sem kemur manni í jólaskapið en það sýð ég upp í potti með ýmsu gumsi,“ segir hún um leið og hún eys í bolla rjúkandi heitu tei. „Mér finnst jólin svo fallegur tími. Mitt í öllu atinu má samt ekki gleyma boðskap jólanna, muna hvers vegna við höldum jól. Hjá langflestum koma fram góðar minningar tengdar fjölskyldu. Það eru þessar hefðir þegar stórfjölskyldan hittist. Í fjölskyldu minni hittumst við, ég og systkini mín og afkomendur okkar, á annan í jólum. Við leigjum lítinn sal og dönsum í kringum jólatréð. Allir sem spila á hljóðfæri spila undir en hinir syngja jólalögin á meðan dansað er. Nú er þetta heil hljómsveit en þetta byrjaði með pabba mínum heitnum, Kjartani Ásgeirssyni, sem spilaði á nikkuna sína. Svo bættist við eitt og eitt barnabarn sem hafði lært að spila á hljóðfæri og nú eru þau orðin þó nokkur, bara heil hljómsveit. Foreldrar draga miða með nöfnum jafn margra barna og þau eiga sjálf og kaupa svo pakka handa viðkomandi börnum, svo fá allir þessa jólapakka frá jólasveininum sem kemur í heimsókn. Allir koma með veitingar og setja á borðið. Mjög gaman og allir spenntir að mæta,“ segir Sjana og ljómar þegar hún segir frá þessu skemmtilega jólaboði

Hvað með jólaþrif?
„Ég þríf alltaf húsið fyrir jól, bara eins og þegar von er á góðum gesti. Ég vil vera með húsið hreint og svo byrja ég að skreyta smátt og smátt á aðventu þangað til jólatréð kemur upp en það er svona endapunkturinn. Í ár vona ég að barnabarnið okkar, hún Kristjana Kría Lovísa sem er tíu ára, skreyti hjá okkur jólatréð en það er skreytt síðustu daga fyrir jól. Hjá mér má alveg kveikja á jólatrénu um leið og búið er að skreyta það. Ég man vel eftir lifandi kertaljósum á jólatrénu í gamla daga þegar ég var lítil og mamma mín setti einnig lifandi kertaljós í gluggann en þá voru engar seríur til. Við Jói erum með kalt hangikjöt á aðfangadag, uppstúf og grænar baunir. Í eftirrétt höfum við Toblerone-ís. Við ólumst bæði upp við kalt hangikjöt á aðfangadag svo það var einfalt að halda þeirri hefð áfram í búskapnum okkar,“ segir Sjana en eiginmaður hennar heitir Jóhannes S. Guðmundsson og móðir hennar hét Marta Halldórsdóttir og var frá Vörum.


Hvað er það besta við jólin?
„Það er bara allt sem er notalegt við jólin, samveran og kertaljósin, þetta er bara svo fallegur tími. Á jóladag gerum við hjónin ekki neitt. Þá er afslöppun, við lesum bækur og borðum konfekt. Við búum til okkar eigið konfekt fyrir jólin. Það er siður hér á aðfangadag að systkini mín og frændfólk kíki í heimsókn og fái sér kaffi og heimagert konfekt, þá skiptumst við einnig á fjölskyldupökkum. Það er mjög skemmtilegt,“ segir Sjana að lokum.

Brúnar jólasmákökur (frá mömmu)
200 g hveiti                                    
100 g kókósmjöl                           
1½ tsk. hjartarsalt                             
200 g smjör                                 
125 g sykur                               
3 tsk. kakó                                          
eitt egg                                
vanilludropar    

Aðferð:                               
Hnoðað (kælt), búnar til tvær lengjur, skorið niður í litla bita og mótaðar kúlur. Mulinn molasykur settur ofan á.                 
Bakað við hægan hita.


Múrsteinskökur (frá mömmu)
190 g smjör                                       
125 g sykur                                       
250 g hveiti                                       
3/4 tsk. hjartarsalt                                                      
2 eggjarauður

Aðferð:                             
Hnoðað og flatt þunnt út. Stungnar út litlar kökur (t.d. með desilítramáli). Ofan á kökurnar eru settar þeyttar eggjahvítur með flórsykri:  2 eggjahvítur og 250 g flórsykur, þeytt vel saman og sett með teskeið ofan á hverja köku (u.þ.b. ½ tsk.) Síðan er settur súkkulaðibiti (Odense-dropi) ofan á hvítuna. Bakað við hægan hita (150°) þar til eggjahvíturnar eru bakaðar mjög ljósar.

Súkkulaðirúsínukökurnar (Betu Halldórs frænku)

200 g smjör                                             
2 bollar sykur                                  
2 egg                                                   
1 bolli rúsínur                               
2½ bolli hveiti                                           
2 tsk. lyftiduft                                 
½ tsk. matarsódi                                  
2 bollar haframjöl                                 
50 g súðusúkkulaði.                                 
Deigið hrært, sett með lítilli tsk. á plötu og bakað við 200° í miðjum ofni.

Jólate
(tepúnsið hennar Erlu í Kjarvalshúsi, jólalegt og hressandi)

4 bollar vatn                                  
4 tsk. gott te t.d. Earl Gray                      
Sítróna, appelsínusafi,
3–4 kanilstangir (brotnar), kúfuð tsk. negulnaglar
 

Aðferð:

Vatnið soðið, síðan eru te, kanill og negull sett út í það og látið bíða undir loki í fimm mínútur. Þá er teið sigtað og 2 bollar Tropicana-appelsínusafa bætt út í ásamt 1 bolla sítrónusafa (eða ½ bolli sítrónusafi og ½ bolli vatn).                        
¾ bolli sykur, 3 bollar vatn í viðbót.                                     
Hitað að suðu og borið fram vel heitt.