Mikilvægast af öllu er að hafa trú á sjálfum sér og þora
– segir Aníta Lind Róbertsdóttir, stofnandi og eigandi vefverslunarinnar LIND Scandinavia.
Verslunin býður meðal annars upp á stílhrein veggspjöld í skandinavískum stíl, með íslenskum orðskýringum, tilvitnunum og merkingum íslenskra nafna. „Hugmyndin er að varðveita íslenskt tungumál og um leið ylja þeim sem þér þykir vænt um með fallegum orðum. Veggspjöldin eru falleg á heimilið eða einstök gjöf við hvaða tilefni sem er,“ segir Aníta en hugmyndin að veggspjöldunum kviknaði þegar Aníta var huga að jólagjöfum fyrir fjölskyldumeðlimi.
„Veggspjöld með orðskýringum, eða á ensku „word definitions“, eru ekki ný af nálinni. Hugmyndin af því að setja slíkt veggspjald upp sjálf kom til þegar ég var að velta fyrir mér jólagjöfum. Ég ákvað að prófa að setja upp veggspjöld sem komu svo vel út að ég ákvað að gera fyrir alla fjölskylduna, mömmu, pabba, ömmu, afa og systur mína og eru því textarnir upprunalega frá mér, til þeirra sem mér þykir vænst um,“ segir Aníta. Í fyrstu hugsaði hún með sér að hún væri mögulega ein um að þykja veggspjöldin flott en ákvað þó að „láta vaða“ og kanna áhuga vina og vandamanna á sínum persónulegu samfélagsmiðlum. „Það varð til þess að LIND hefur í raun verið fullt starf hjá mér síðan þá. Varðandi veggspjöldin með merkingum íslenskra nafna, þá kom sú hugmynd bara einhvern veginn til mín. Ég tel mig ekki hafa séð slík veggspjöld áður,“ segir Aníta.
Stefnir út fyrir landsteinana
Eftirspurnin á veggspjöldunum færðist í aukana eftir því sem leið á og áður en hún vissi var hugmynd hennar orðin að fyrirtæki sem fékk nafnið LIND hönnun. Í dag gengur fyrirtækið undir nafninu LIND Scandinavia en það kom til vegna fyrirhugaðra breytinga. „Nafnið LIND kemur til vegna millinafns míns sem mér þykir afar vænt um. Ég var aldrei nógu sátt við nafnið LIND „hönnun“ þar sem ekki er beint um hönnun að ræða. Þegar ég fór að leiða hugann að því að fara með vörurnar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, þótti mér nafnið LIND Scandinavia eiga vel við og þykir mér það einstaklega fallegt. Breytingin er sú að stefnan er að markaðssetja vörumerkið í fyrrnefndum löndum,“ segir Aníta.
Aníta segir það vera krefjandi verk að fara með fyrirtækið út fyrir landsteinanna enda sé margt sem þurfi að huga að, hún segist jafnframt vongóð um að viðtökurnar verði góðar. „Stærsta verkefnið til þessa hefur verið að þýða textana en ég var svo heppin að fá góðar Suðurnesjameyjar í það verkefni, þær Elleni Hrund Ólafsdóttur og danskan unnusta hennar, Niclas Jensen, Guðlaugu Björt Júlíusdóttur og sænskan unnusta hennar, Hannes Iwarsson, og Vigdísi Eygló Einarsdóttur sem þýddi yfir á norsku,“ segir hún og bætir við: „Ég hef mikla trú á því að nágrannalönd okkar taki vel í LIND, enda um skandinavískan stíl að ræða.“
Þakklát og stolt að hafa þorað
Aðspurð hvernig viðtökurnar hafa verið hingað til segir hún: „LIND hefur gengið vonum framar frá upphafi og er ég afar þakklát fyrir góða viðskiptavini. LIND hefur tekið mestallan minn tíma í rúmlega tvö ár en ég hef fengið mikla aðstoð og hvatningu frá mínum nánustu og þökk sé þeim hefur mér tekist að sinna rekstrinum vel samhliða öðrum verkefnum. Ég hef lært margt af því að hefja rekstur en það mikilvægasta er að hafa trú á sjálfum sér og að þora. Ekki leyfa áhyggjum af mögulegu áliti annarra draga úr þér. Þegar ég hugsa til baka er ég þakklát og stolt af því að hafa látið vaða.“
Aníta Lind heldur uppi Instagram aðganginum @lindscandinavia og vörur frá LIND Scandinavia má versla á vefsíðunni www.lindscandinavia.is.