Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikilvægar fyrirmyndir
Fimmtudagur 27. apríl 2017 kl. 06:00

Mikilvægar fyrirmyndir

- Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Það er snúið að skrifa lokaorð um eitthvað sem verður afstaðið þegar blaðið kemur út. Og þetta „eitthvað“ skiptir vissulega máli um efni pistilsins, þar sem útkoma þess gæti í orðsins fyllstu ráðið úrslitum.

Já, ég er auðvitað að tala um körfubolta og þá staðreynd að þegar þetta er skrifað, á miðvikudegi, hefur fjórði leikur Keflavíkur og Snæfells í úrslitakeppninni ekki farið fram. Keflavíkurhjartað tekur regluleg aukaslög, og hér á Heiðarbrúninni er ekki lengur dansaður snjódans en þess í stað er allur kraftur lagður í að tilbiðja körfuboltaguðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mig langar nefnilega svo mikið að fjalla aðeins um „litlu slátrarana“, þetta dásamlega Keflavíkurlið sem hefur náð inn að mínum innstu hjartarótum og fjölmargra annarra. Og úrslit leiksins í kvöld skipta í raun engu máli fyrir það sem ég vil ræða, þannig ég afgreiði hann hér og nú með mínum kröftugustu baráttukveðjum.

Það er liðið sjálft sem ég vil gera að umtalsefni. Það hefur verið hrein unun að fylgjast með þessum ungu einstaklingum verða að sífellt sterkari liðsheild og sigrast á hverri áskoruninni eftir annarri, að því að virðist nánast áreynslulaust. Þær virðast alltaf rólegar, yfirvegaðar, kurteisar en á sama tíma geislar af þeim kraftur og baráttugleði. Og auðvitað á þjálfarinn sem stýrir liðinu með styrkri hendi og nær að draga fram það besta í liðinu stórt hrós skilið.

Það bjóst kannski enginn við þessum árangri í upphafi tímabilsins, liðið er ungt og uppbyggingartímabil talið framundan. Það ríkti ákveðin þolinmæði í garð liðsins, þolinmæði sem gerði kannski einmitt það að verkum að liðið hefur náð þessum árangri. Þær gátu spilað sinn bolta án allrar pressu og væntinga. Kröfurnar voru sanngjarnar og „litlu slátrararnir“ fóru fram úr öllum væntingum.

Við getum lært margt af þessu. Í fyrsta lagi hversu öflugt barna- og unglingastarf er gríðarlega mikilvægt. Þarna eru „heimatilbúnar“ Keflavíkurstelpur að skila þessum árangri. Í öðru lagi getum við stuðningsmenn skoðað okkar hlutverk hvað pressu, væntingar og stuðning varðar. Þetta spilar auðvitað allt saman.
Ég held að „litlu slátrararnir“ átti sig kannski ekki á því ennþá en þær eru sannkallaðar fyrirmyndir. Ekki bara fyrir unga krakka sem vilja ná langt í íþróttum, heldur fyrir okkur öll, sama hvar við erum í lífinu. Ég mun alla vega taka þær mér til fyrirmyndar og hvetja syni mína til þess sama. Til þess að ná árangri þarf fólk að vinna saman, vinna vel, sýna fólkinu sínu og andstæðingum virðingu og umfram allt halda gleðinni.

Að lokum bara eitt..áfram Keflavík!