Mikill meðbyr meðal íbúa og fyrirtækja fyrir Ljósanótt
Ljósanótt verður haldin í tuttugasta og fyrsta skiptið dagana 1.-4. september. Fyrr í dag fór fram upplýsingafundur þar sem styrktarsamningar við helstu bakhjarla Ljósanætur voru undirritaðir. Yfir sextíu fyrirtæki styrkja hátíðina í ár með fjárhagslegum stuðningi og/eða öðru framlagi. Helstu bakhjarlar Ljósanætur eru Landsbankinn, Skólamatur, Isavia, Lagardère og Nettó. Með stuðningi sínum taka fyrirtækin þátt í því að auðga bæjarlífið og styrkja um leið þá þætti sem eru órjúfanlegur hluti þess að skapa starfsmönnum sínum og viðskiptavinum eftirsóknarvert umhverfi til að lifa og starfa í. Samhliða undirritunum tóku forstöðumaður Súlunnar, bæjarstjórinn og menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, til máls og boðið upp á hressandi veitingar eftir fundinn.
Þórdís Ósk Helgadóttir, forstöðumaður verkefnastofu Súlunnar, hóf fundinn með því að segja nokkur orð: „Það má segja að þetta [fundurinn] sé fyrsta samkoman í dagskrá Ljósanætur, þar sem við þökkum styrktaraðilum fyrir að styrkja þessa hátíð og gera okkur kleift að halda hana. Eftir langa bið þá eru það ákveðin tímamót að fá tækifæri til að halda Ljósanótt, við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu meðal íbúa. Undirbúningur hátíðarinnar gengur mjög vel. Að halda svona hátíð eins og Ljósanótt er stórt verkefni og væri í raun ekki hægt að halda hana nema ef við myndum öll taka þátt í hátíðinni. Þetta er gríðarlega stórt og flott verkefni en þetta væri ekki hægt ef við hefðum alla þessa styrktaraðila með okkur.“
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tók því næst við orðinu og þakkaði öllum þeim sem leggja hátíðinni og samfélaginu lið. „Ljósanótt hefur stundum verið kölluð hátíð íbúanna og við erum alltaf að sjá meira og meira um frumkvæði af hálfu íbúa, sem er gott. Við viljum að íbúarnir finni þörf og kraft sem við náum svo að leysa úr læðingi. Allra bestu þakkir til allra þeirra sem eru að leggja hér samfélaginu lið og svo ég noti eina klisju sem eitthvert fyrirtækið er að nota í auglýsingum: Nú ætlum við að gera þetta saman,“ sagði Kjartan.
Eftir að Kjartan hafði lokið ræðu sinni skrifuðu fulltrúar fyrirtækjanna undir samning ásamt bæjarstjóra. Að lokum talaði Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar og verkefnastjóri Ljósanætur, um góðar viðtökur íbúa og fyrirtækja á svæðinu og íbúakönnun sem gerð var um Ljósanótt árið 2019. Í henni kom fram að um 80-90% íbúa Reykjanesbæjar töldu að hátíðin skapaði samkennd meðal íbúa.
„Í verkefninu starfar stór hópur af fólki af öllum sviðum Reykjanesbæjar. Við vinnum með öðrum aðilum og ætli þetta séu ekki nokkrir tugir aðila sem koma beint að hátíðinni. Þá erum við ekki að taka með í reikninginn aðra þátttakendur í verkefninu sem eru íbúar og fyrirtæki. Við erum búin að vera að vinna að undirbúningi síðan í febrúar. Þá byrjuðum við að funda og höfum fundað jafnt og þétt. Þetta er því heilmikið verkefni og ómetanlegur þessi stuðningur sem er að koma úr samfélaginu. Það er svo frábært að fá þessa styrki og fá viðtökur frá fyrirtækjum sem finnst sjálfsagt að koma til móts við þetta verkefni. Það er mikill meðbyr og frábært að finna það. Árið 2019 var gerð íbúakönnun um Ljósanótt, þar kom fram að um 80-90% íbúa töldu að Ljósanótt skapaði samkennd meðal íbúa. Eins var spurt hvort íbúum finnst hátíðin hafa jákvæð áhrif á ímynd Reykjanesbæjar og þar kom í ljós að um 90% íbúa taldi svo vera. Þetta er því mikilvægt verkefni í hjörtunum okkar og út á við,“ segir Guðlaug.