Mikill kraftur í unglingastarfinu á Suðurnesjum
Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldið í Grindavík
Sandgerðingurinn Helena Dögg Magnúsdóttir er verkefnastjóri unglingastarfs Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Á fjórða hundrað ungmenna úr tuttugu og einni unglingadeild innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar komu saman til landsmóts unglingadeilda sem haldið var í Grindavík í síðustu viku. Mótið hófst á miðvikudag og lauk á sunnudag. Ungmennin eru á aldrinum þrettán til átján ára. Sandgerðingurinn Helena Dögg Magnúsdóttir er verkefnastjóri unglingastarfs Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hafði í nógu að snúast í kringum mótshaldið. Víkurfréttir ræddu við hana í mótslok.
„Við höldum vanalega landsmót annað hvert ár. Landsmótshaldið hefur verið nokkuð ört núna og þetta er annað árið í röð sem við höldum landsmótið, þar sem við höfum verið að vinna úr töfum vegna Covid-faraldursins. Það var haldið auka mót í fyrra og svo aftur núna til að rétta úr kútnum, þar sem landsmótin hafa alltaf verið haldin á oddatöluári,“ segir Helena Dögg.
Hún segir að það sé ofboðslega mikill kraftur í þessu unga fólki og krakkarnir væru alveg til í að halda landsmót á hverju ári og jafnvel oft á ári, ef þau fengju að ráða. „Umsjónarfólkið er kannski ekki alveg eins viljugt. Markmiðið er að komast í gamla farið aftur, sem er landsmót annað hvert ár og landshlutamót þess á milli.“
Landinu er skipt upp í fimm hluta og þar eru haldin smærri mót á milli landsmóta. Helena Dögg segir landshlutamótin vera eins og eina stóra útilegu á móti fimm daga móti sem landsmótin eru en landsmótið hefst á miðvikudegi og endar á sunnudegi.
330 ungmenni fjölmenntu til Grindavíkur
„Hingað til Grindavíkur komu tuttugu og ein unglingadeild og þetta voru 330 manns en ungmennin eru á aldrinum þrettán til átján ára. Þetta eru krakkar sem koma alls staðar að af landinu, kraftmikill hópur og ég hef engar áhyggjur af félaginu ef þetta er hópurinn sem er framtíðin okkar. Það er alveg magnað,“ segir Helena Dögg.
Á miðvikudeginum safnast ungmennin fyrir á mótsstað. Fimmtudagurinn er settur upp með svokölluðum póstastöðvum þar sem ungmennin eru í þjálfun. Fyrstu tvo daga mótsins eru ungmennin í rúma klukkustund á hverjum stað við æfingar og að leysa verkefni.
„Þegar unglingadeildirnar koma á mótsstað er búið að skipta öllum þátttakendum upp í tíu hópa. Í hverjum hópi eru tveir til þrír úr hverri unglingadeild og reynt að blanda ungmennum í hvern hóp víðsvegar að af landinu, þannig að ungmennin kynnist þvert á landið. Þá fær hver hópur sinn lit og hópstjórarnir eru komnir með litina fyrirfram þannig að hægt sé að útvega viðeigandi málningu og annað skraut fyrir björgunarleikana, sem fara fram á laugardeginum.“
Fyrstu tvo sólarhringa landsmótsins var farið á báta, í sig og klifur, kennt að binda spotta í bíl og hvernig á að vinna í spottavinnu. Þá er kennt hvernig á að koma sér upp úr sprungu ef ekki er hægt að klifra upp spunguvegginn. Þá er farið í fyrstu hjálp og ýmislegt fleira.
Efnt til landsþings á landsmóti
„Þá er einn pósturinn landsþing unglinga og þar er unglingunum gefið tækifæri á að láta sér málin varða. Niðurstöður úr því þingi eru svo settar niður fyrir umsjónarmenn unglingadeildanna og fyrir stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í ár var til umfjöllunar hvernig hinn fyrirmyndar umsjónarmaður er og hvað hann þarf að bera. Umsjónarmenn eru svo settir til hliðar á meðan ungmennin ræða þessi mál,“ segir Helena Dögg og bætir við: „Það er alveg magnað hvað hefur komið út úr þessu þingi. Þau hafa búið til fullt af slysavarnaverkefnum og hvernig þau vilja kynna starfið útávið. Núna var það hvernig umsjónarmenn eiga að vera og yfir hverju þeir eiga að búa. Og hvernig getum við búið til góða unglingadeild.“
Hvernig er unglingastarfið að gera sig allt í kringum landið?
„Þetta er mjög flott starf og við erum með ágætan fjölda. Þegar við komum út á land eru heilu samfélögin að taka þátt í starfinu og sem dæmi þá komu átján krakkar frá Búðardal á landsmótið í Grindavík. Á höfuðborgarsvæðinu eru um tuttugu krakkar í hverri unglingadeild en hafa verið alveg upp í fjörutíu krakkar. Það er líka flott starf á Suðurnesjum og unglingadeildir í Grindavík, Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði. Okkur vantar bara unglingadeild í Vogana. Á landsmótinu voru allar unglingadeildirnar á Suðurnesjum nema deildin í Garði. Starfið á Suðurnesjum er mjög flott og öflugt. Það er mikið lagt í það og það er alveg sama hvaða unglingadeild við nefnum. Það er mikill kraftur í unglingastarfinu á Suðurnesjum.“
Hvernig er kynjaskipting í unglingastarfinu?
„Á mótinu voru fleiri stelpur en strákar. Ætli það hafi ekki verið 60% þátttakenda stelpur. Þetta er alveg nýtt fyrir okkur því yfirleitt eru þetta jöfn skipti. Við höfum séð þetta í unglingastarfinu að skipting milli kynja hefur verið jöfn, þó svo færri stelpur hafi verið að skila sér upp í björgunarsveitirnar. Það hefur þó verið mikil aukning síðustu ár, sem er mjög jákvætt. Við erum líka með fullt í gangi hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg til að sýna fram á það að kvenfólk getur þetta alveg eins og karlarnir.“
Mikil útivist
Starfið í unglingadeildunum er mikil útivist og ungmennin koma alltaf á fundi klædd eftir veðri. Og það er verið að kenna þeim að klæða sig og pakka í töskur, hvernig á að bera sig að í vondu veðri og góðu veðri. Réttur fatnaður skiptir máli. Veðrið var heldur ekkert að leika við þátttakendur á landsmótinu í Grindavík.
Fimmtudagsnóttin varð eiginlega að óveðursútkalli. Á meðan kvöldvöku stóð í íþróttahúsinu í Grindavík brast á með vondu veðri sem varð til þess að stór hópur björgunarsveitarfólks og umsjónarmanna fór í að bjarga tjaldbúðum landsmótsins sem voru á rollu-túninu við tjaldstæðið í Grindavík. Eitthvað af tjöldum eyðilagðist í veðrinu og annað blotnaði mikið. Þarna sprungu tjöld og rifnuðu. Það fór svo að rúmlega 100 ungmenni fengu inni í Hópinu, knattspyrnuhúsi þeirra Grindvíkinga og gistu þar yfir mótstímann. Þá var hluti af æfingum einnig fluttar inn í skjól undan veðrinu. Þannig var hægt að halda klifuræfingar innandyra.
Nú var þetta landsmót haldið í Grindavík, var þá ekki farið með hópinn að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli?
„Gosið var alveg sett til hliðar. Ég held að það hafi verið vegna þess að Grindvíkingar hafa fengið nóg af því,“ segir Helena Dögg og hlær.
Vegna veðurs þurfti að flytja eitthvað af viðburðum landsmótsins undir þak en veðrið var samt ekki að hafa áhrif á stemmninguna í hópnum. „Þau voru öll hress og kát með þetta, þrátt fyrir rigningu. Þetta er svo kraftmikill mannskapur og umsjónarfólkið sem sér um þessi ungmenni er svo lausnamiðað og það var alltaf til staðar plan B til staðar og þau voru fljót að bregðast við. Það var ekkert verið að bíða eftir því að einhver mótsstjórn gerði eitthvað, hlutirnir voru bara framkvæmdir. Og allir vinna að þessu í samheldni að gera hlutina betri og skemmtilegri,“ segir Helena Dögg.
Byrjaði í unglingadeild þegar drengir týndust í Keflavík
Helena Dögg byrjaði sjálf í unglingadeild þegar hún var þrettán ára. „Pabbi vinkonu minnar var björgunarsveitarmaður og var að leita að drengjunum tveimur sem týndust í Keflavík árið 1994. Ég var unglingur á þessum tíma og fannst það svo magnað að það væri til svona margt fólk sem væri tilbúið að fara frá vinnu til að leita að drengjunum. Ég byrjaði því í unglingastarfinu sem unglingur. Þaðan fór ég í það að vera umsjónarmaður í unglingastarfi og er nú í því að þjálfa umsjónarmenn í fullu starfi hjá félaginu og að sjá um unglingamálin yfir landið. Þetta er svolítið eins og að vera fótboltamaðurinn sem endaði í landsliðinu og er núna farinn að þjálfa landsliðið,“ segir Helena og hlær.