Mikill kærleikur og hvatning
- í póstkortum til nemenda í erlendum samskiptum í Myllubakkaskóla
Nemendur í valáfanga um erlend samskipti í Myllubakkaskóla fengu þá hugmynd að fá fólk víðsvegar um heiminn til að senda til sín póstkort sem síðan yrði svarað með póstkorti á móti. Þegar hafa borist um 500 póstkort víðvegar að úr heiminum. Nemendurnir óskuðu eftir póstkortunum með því að birta mynd á Facebook af nemendahópnum í áfanganum þar sem þau héldu á skilaboðum og birtu heimilisfang skólans.
Það er Freydís Kneif Kolbeinsdóttir sem leiðir verkefnið og í samtali við Víkurfréttir segist hún ánægð með hvernig til hafi tekist. Póstkortin séu þegar orðin fleiri en nemendur þorðu að vona við upphaf verkefnisins sem mun standa í níu vikur. Flest koma kortin frá Evrópu þar sem Þýskaland trónir efst á lista yfir fjölda sendra korta. Finnar eru öflugasta Norðurlandaþjóðin í póstkortasendingum. Danir hafa hins vegar ekki sent kort en eitt kort hefur t.a.m. borist frá Lesótó í Afríku. Þá hafa þrjú kort komið innanlands.
- Er ekki gamaldags að senda póstkort?
„Eru ekki allir að senda póstkort? Jú, það er að detta uppfyrir. Það er hins vegar gaman að kynna fyrir krökkunum að senda póstkort. Ég efa að þau hafi sent kort áður eða höndlað með frímerki.”
- Hver hafa viðbrögðin við póstkortabeiðninni verið?
„Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð. Myndinni var deilt rúmlega 1300 sinnum og sem betur fer ekki meira. Við höfum fengið tæp 500 póstkort nú þegar frá sex heimsálfum. Við höfum fengið mikið af skilaboðum við myndina á fésbókinni. Ég hef fengið persónuleg skilaboð, m.a. frá kennurum víða um heim sem vilja meira samstarf. Við höfum fengið skilaboð frá frímerkjasöfnurum sem eru að óska eftir ákveðnum frímerkjum, einnig póstkortasöfnurum.“
- Hvernig eruð þið að nýta þessi póstkort?
„Eins og staðan er núna þá erum við ekkert farin að nýta þau öðruvísi en að við erum að svara þeim. Hugmyndin er að koma þeim í meiri vinnu og ekki endilega í þessum hópi, heldur öðrum bekkjum skólans. Það má nýta þau í eitthvað fjölmenningarþema.“
Danir vita ekki hvað póstkort er
- Þið hafið einhverja tölfræði um hvaðan kortin eru að koma?
„Já, þau eru að taka saman tölfræðina núna en ég var aðeins búin að skoða hana. Evrópa er ótrúlega sterk og það er kannski af því að það eru fyrstu kortin sem berast. Það er ýmislegt sem kemur á óvart. Finnar eru ótrúlega duglegir að senda póstkort, sem og Þjóðverjar og Hollendingar. Danir hinsvegar, ég held að þeir viti ekki hvað póstkort eru. Við höfum ekkert póstkort fengið frá frændum okkar Dönum.“
- Áttuð þið von á þessum viðbrögðum við myndinni?
„Nei, ekki krakkarnir. Vissulega átti ég von á að við fengjum slatta af póstkortum en kannski ekki 400 kort. Ég spurði þau í upphafi hvað þau héldu að kæmu mörg kort. Þau giskuðu á 10-70 póstkort þannig að við höfum farið vel fram yfir þær vonir. Kortin eru enn að berast og það koma tugir korta á dag.“
- Hvað er fólk að segja í þessum kortum?
„Fólk er að segja ótrúlega margt. Það má segja að þetta skiptist í fjóra hópa. Þau sem skrifa okkur eru oft kennarar og nemendur, fólk sem hefur komið til Íslands eða fólk sem langar að koma til Íslands. Þá er þarna einnig fólk sem er að safna póstkortum og frímerkjum. Krakkarnir eru að fá ótrúlega mikið af fallegum orðum. Það er mikill kærleikur og hvatning. Það er hvatning um að þeim gangi vel í skólanum og í þessu verkefni. Fólk er að lýsa sínum heimaslóðum og ferðum sínum til Íslands. Það er allt á milli himins og jarðar í þessum kortum.“
- Ég sé að fólk er jafnvel að skrifa á íslensku.
„Já, fólk skrifar á íslensku og google translate kemur sterkt inn. Við fáum mikið af „halló“ og „bestu kveðjur“. Við fengum m.a. kort frá Hollendingi sem var skrifað á íslensku og hann hafði greinilega notað google translate. Hann endar bréfið sitt á orðunum „ég verð að fara núna. Ég held að ég hafi séð álf rétt í þessu“, svo bara bestu kveðjur. Það er gaman þegar fólk er að reyna að skrifa á íslensku. Við fáum líka póstkort á frönsku og reyndar heilu bréfabálkana á frönsku því frakkar skrifa ekki mikið á ensku þannig að við höfum einnig þurft að nota google translate til að hjálpa okkur að þýða.“
Lítil börn og lestarstjóri senda póstkort
Freydís segir að það sé ótrúlega mikið af ungu fólki, milli fimmtán ára og þrítugs, sem er að svara beiðninni um póstkortin. „Svo sjáum við líka eldra fólk, ömmur og afa. Við höfum fengið kort frá læknum og kennurum. Við höfum fengið kort frá litlum börnum og ég man eftir korti frá lestarstjóra.“
- Eru einhver póstkortasamfélög að svara ykkur?
Já, það eru nokkur póstkortasamfélög til, t.d. Postcrossins sem er mjög vinsælt og er með milljónir félagsmanna. Við erum að fá mikið af kortum frá fólki í því samfélagi. Fímerkjasafnarar eru að senda okkur póst í von um fágæt frímerki. Þá veit ég að myndinni var deilt inn á samfélag póstkortasafnara í Brasilíu.“
- Þið ætlið að svara öllum póstkortum sem þið fáið. Hvað kemur fram í svarinu?
„Það er ýmislegt. Krakkarnir lesa öll póstkortin og reyna að svara út frá því sem manneskjan skrifar. Ef sendandinn er að lýsa sínum heimabæ, þá lýsum við okkar. Ef að fólk er að lýsa póstkortinu sínu, þá lýsum við okkar. Ef við fáum hins vegar bara „hér er póstkort“ þá sendum við á móti „hér er póstkort til þín.“
Vantar fjárstuðning við verkefnið
Foreldrar, starfsmenn Myllubakkaskóla, Reykjanesbær og HS Orka hafa stutt nemendurna í verkefninu sem er fjárhagslega nokkuð dýrt. Það kostar að jafnaði um 210 krónur að senda póstkort og sjálft kortið kostar um 100 krónur. Það kostar því yfir 150.000 krónur að svara þeim tæplega 500 póstkortum sem þegar hafa borist.
Nemendurnir í valáfanganum í erlendum samskiptum kalla því eftir fleiri styrktaraðilum til að láta verkefnið ganga upp. Einstaklingar eða fyrirtæki sem vilja leggja málinu lið geta haft samband við Myllubakkaskóla í Keflavík en það er Freydís Kneif Kolbeinsdóttir sem leiðir verkefnið.