Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Mikill jólaandi í Washington
Guðbjörg á skrifstofu sendiráðsins í höfuðborginni.
Miðvikudagur 23. desember 2015 kl. 06:00

Mikill jólaandi í Washington

-segir Keflavíkurmærin Guðbjörg Ozgun Bjarnadóttir sem hefur búið í Washington í 35 ár

Guðbjörg Ozgun Bjarnadóttir er ein af all nokkrum Suðurnesjamönnum sem hafa ílengst í útlöndum en hún fór snemma til Bandaríkjanna og hefur verið þar í þrjátíu og fimm ár. Hún starfar núna í íslenska sendiráðinu en fjölskylda hennar hefur einnig verið með verslunarrekstur í borginni. Við slógum á þráðinn til Washington og spurðum Guðbjörgu út í jólahaldið þar í borg.

„Jólahald í Washington er fallegt og skemmtilegt. Hér er fólk frá mörgum mismunandi þjóðernum og halda ekkert endilega jól, en samt er eins og allir fari í „jólaskap“. Fólk sem heldur jólahátíðina hátíðlega fer í kirkju og mikið er af fallegum uppákomum, eins og til dæmis söfnun á hlutum og dóti fyrir fólk sem minna á,“ segir Keflvíkingurinn Guðbjörg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbjörg eða Gulla eins og hún er kölluð segir mikinn jólaanda í borginni allt frá nóvember. „Það er mikið skreytt hér í Washington, falleg ljós, og jólatónlist um allt sem byrjar oftast strax í lok nóvember. Veðrið er misjafnt, t.d. var 22 stiga hiti hér um miðjan desember og nokkuð víst að það snjóar ekki hér um jólin, þó það hafi nú stundum verið þannig.“

Hún fór ung kona til Bandaríkjanna en ætlaði sér nú ekki að dvelja lengi. „Upphaflega ætlaði ég bara að staldra við hér í eitt ár, og svo eins og oft gerist þá greip ástin unglinginn og hef ég verið hér í rúm 35 ár. Ég fór þó heim eftir árið og fór í nám í tvö ár, kom síðan aftur hingað og giftist drengnum sem ég hafði kynnst. Við hjónin fluttum til Íslands 1987-88, eftir að við eignuðumst fyrstu dóttur okkar, það var frábær ákvörðun þar sem Ali eiginmaður minn gat unnið og kynnst fjölskyldu minni og vinum. Við komum aftur heim 1988 og eignuðumst aðra dóttur árið 1990. Við fjölskyldan erum dugleg að koma heim og er ég mjög hamingjusöm að hafa getað það í gegnum árin.“

Hjónin hafa lengi verið í eigin rekstri í byggingageiranum en hafa undanfarin ár rekið verslun með ágætum árangri. „Við erum búin að vera í okkar eigin rekstri sem verktakar, og síðar opnuðum við búð og flytjum inn evrópskar innréttingar. Árið 2009 fór ég í afleysingar hjá íslenska sendiráðinu í Washingon DC til eins árs, síðan losnaði staða þar aftur haustið 2011 og er ég búin að vinna þar síðan. Það er alltaf nóg að gera í sendiráðinu og mér þykir þetta skemmtileg vinna. Ég er helst að aðstoða Íslendinga hér við vegabréf og allskonar mál sem koma upp.“

Guðbjörg segir að þó hún kunni vel við sig í Bandaríkjunum sé söknuður til staðar.

„Ég sakna alltaf Íslands og þá sérstaklega fjölskyldu minnar og vina. Við erum heppin að eiga tvær yndislegar dætur og núna tengdason og tvo ömmu- og afastráka sem gera lífið skemmtilegra. Við höldum jól með íslenskum venjum, borðum hangikjöt, uppstúf, rauðkál og rófur, malt og appelsín og meira að segja laufabrauð sem mín yndislega fjölskylda sendir okkur frá Íslandi. Það er alveg ómissandi að fá íslensk jól,“ segir Guðbjörg og sendir góðar kveðjur til Íslands.

Guðbjörg með samstarfskonu sinni Ásdísi og Geir Haarde sendiherra í Washington.