Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikill áhugi á Jamestown strandinu við Hafnir
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 14. september 2019 kl. 12:43

Mikill áhugi á Jamestown strandinu við Hafnir

Fjöldi húsa byggð úr harðviði sem fékkst úr skipinu. Keflvískur hljóðfærasmiður hefur einnig smíðað hljóðfæri úr viðnum

Félagið Áhugahópur um Jamestownstrandið afhenti á Ljósanótt sýningu og muni sem tengjast strandinu til Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sama dag var haldin kynning í Höfnum á Reykjanesi um Jamestown strandið en félagið vinnur nú að því að safna heimildum og upplýsingum um atburðinn. 

Félagið var stofnað formlega í janúar 2017 en þá hafði fámennur hópur áugafólks um strandið hist á fundum frá árinu 2014. Meðal verkefna sem félagið vill gera er að útbúa merkingar á þau hús sem byggð voru úr við úr farmi skipsins sem strandaði við Hafnir árið 1881. Sýning um strandið var sett upp í Bókasafni Reykjanesbæjar í nóvember 2017. Meðal upplýsinga sem unnið hefur verið að er að lista upp þau hús sem voru byggð úr viði sem fékkst úr skipinu. Vitað er um nærri 20 hús. Í skipinu voru hundrað þúsund tilsniðnir viðarplankar úr harðviði sem nota átti við smíði járnbrautarteina á Englandi. Jamestown var þrímastrað seglskip en það var að sigla frá Boston og af lýsingum að dæma var það með stærri seglskipum á sinni tíð, líklega um 100 metrar á lengd og um 20 metrar á breidd. Skipið rak um Norður-Atlantshafið upp að ströndum Íslands, fyrir Reykjanesið og inn í Hafnarvog. Það hafði þá verið stjórnlaust á reki í um fjóra mánuði eftir að stýrisbúnaður laskaðist.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En það hafa ekki bara verið byggð hús úr Jamestown harðviði en á kynningunni í Höfnum kom fram að þessi óvænti timburfengur hafi átt stóran þátt í byltingu í húsabyggingum hér á landi. 

Meðal skemmtilegra þátta sem tengist Jamestown er nýting Jóns Marinós Jónssonar, hljóðfærasmiðs úr Keflavík á viðnum en hann hefur smíðað mörg strengjahljóðfæri úr honum. Jón sagði frá tilurð þess á kynningunni í Höfnum og þá flutti strengjakvartett nokkur lög með Jamestown-hljóðfærum. 

Félagsmenn í Jamestown hópnum eru áhugasamir um strandið og hafa haldið fundi og ætla að halda fleiri til að vinna að frekari upplýsingaöflun. Tómas Knútsson, kafari er þar í forsvari ásamt Helgu Margréti Guðmundsdóttur, Jóni Marinó hljóðfærasmið, Sigurði Steinari Ketilssyni, fyrrverandi skipherra Landhelgisgæslunnar og Árna Hjartarsyni, íbúa í Höfnum.

Áhugahópurinn afhenti muni úr Jamestown og sýningu til Byggðasafns Reykjanesbæjar.