Mannlíf

Mikill áhugi á fjallgöngum
Á leið á Gullbringu. Agnar Guðmundsson og Ásta Gunnarsdóttir, bæði úr undirbúningshópi.
Mánudagur 11. febrúar 2019 kl. 09:04

Mikill áhugi á fjallgöngum

Áhugahópur fólks á Reykjanesi um fjallgöngur stofnaður. Mikill áhugi. Um 150 manns mættu á stofnfund og 600 skráðu sig áhugasama
Áhugahópur fólks á Reykjanesi um fjallgöngur hefur sett sér það markmið að ganga a.m.k. á tólf fjöll á árinu 2019 og mun byrja strax í febrúar. Við höfðum samband við Hjálmar Árnason sem er einn af forsprökkum hópsins og forvitnuðumst um nýstofnaðan gönguhóp.
 
Hverjir standa að gönguhópnum?
 
„Nokkrir starfsmenn Keilis hafa verið áhugasamir á liðnum árum um gönguferðir – ekki síst á fjöll.  Þar búum við á Suðurnesjum við algjöran lúxus því hér er stutt að komast í skemmtilegar fjallgöngur. Nýlega fórum við á kynningarfund hjá Ferðafélagi Íslands þar sem var sagt frá áætlunum um fjallgöngur ársins 2019. Um fjögurhundruð manns mættu en aðeins eitthundrað komust í skráða hópa. Á heimleiðinni af þessum fundi skaut upp þeirri hugmynd, af hverju gerum við á Suðurnesjum þetta ekki bara sjálf. Hentum inn stuttri kynningu á Fjesbók og að vanda birtu Víkurfréttir þetta góðfúslega. Viðbrögðin voru sjokkerandi.“
 
Hvernig voru viðtökur?
 
„Við boðuðum fundinn uppi í Keili og reiknuðum með svona 20-30 manns á spjallfund. Um 600 manns skráðu sig áhugasama um viðburðinn og um 150 manns mættu í Keili!  Þetta segir okkur að hér er mikil vakning meðal fólks. Við urðum hálf hrædd við allan þennan fjölda en erum að jafna okkur og hlökkum bara til ársins.“
 
Hvað ætlið þið að gera?
 
„Markmiðið er að ganga á 12 fjöll á árinu. Sum á Suðurnesjum en önnur lengra í burtu. Að jafnaði þriðja hvern laugardag. Þar fyrir utan munu örugglega einhverjir úr hópnum skreppa aðra daga á fjöllin í nágrenninu, nóg er af perlunum. Ætlum reyndar að byrja þann 16. september með því að ganga á Þórðarfell, sem blasir við okkur vestan Grindavíkur. Þægileg og hæfilega mikil áreynsluferð.“ 
 
Kostnaður?
 
„Hjá Ferðafélagi Íslands kostar 38.000 krónur að skrá sig í hópum. Við ætlum ekki að taka neitt fyrir, annað en jákvæða strauma frá göngufólki og skemmtilegan félagsskap. Þetta er áhugamál okkar. Fólk kemur sér á eigin bílum á staðinn, viljum endilega að fólk komi sér saman um að deila sér á bíla. Í einhverjum tilvikum leigjum við rútu sem við sláum saman í.  Meininginn er að hittast alltaf við vetnisdæluna á Fitjum og raða fólki í bíla. Munum senda inn tilkynningar á Fjesbókarsíðuna Gönguhópur Suðurnesja.“
 
Hvaða fjöll eru þetta?
 
„Þar má nefna: Þórðarfell, Sogin, Lambafellsgjá, Keilir, Gullbringa, Eldfell, Esjan, Heiðarhorn, Leggjabrjótur, Snæfellsjökull, tveggja daga ferð í haust um fjöllin við Landmannalaugar þar sem við munum taka allt gistipláss að Leirubakka og rúmlega það.“
 
Hver er svo ávinningurinn af þessu brölti?
 
„Svo ótal margt. Maður verður bara háður þessum göngum. Eftir hæfilegt puð finnur fólk fyrir vellíðan og henni fylgir gleði. Það eru stærstu verðlaunin. Svo bætist við útsýnið af fjallatoppum. Getur verið magnað. Til dæmis af Stóra-Hrúti (skammt frá Grindavík) sér maður Snæfellsnesfjallgarðinn, Esju, Móskarðshnjúka, Reykjavík, Botnssúlur, Skjaldbreiði, Eyjafjallajökul og Vestmannaeyjar. Allt af sama punktinum. Það er góð umbun fyrir puðið.  Svo skapast alltaf skemmtileg stemning í svona hópum, fólk tengist vel við að ganga saman.  Félagskapurinn ýtir líka við fólki. Ekki má gleyma bættri heilsu í alla staði.“
 
Ætla að setja Íslandsmet!
 
„Eitt besta fjall til að æfa sig á er Þorbjörn við Grindavík. Auðvelt er að aka þangað um helgar eða eftir vinnu og „skjótast“ upp fjallið. Varla til betri leið til að koma sér í gott form. Enda iðulega mikil umferð fólks þangað. Um daginn fæddist sú bilaða hugmynd að setja Íslandsmet á Þorbirni. Um miðjan ágúst ætlum við að stefna a.m.k. 1000 manns samtímis á Þorbjörn, börn og fullorðnir. Ef við náum þessu skemmtilega klikkaða markmiði munum við setja Íslandsmet því við teljum að aldrei í sögunni hafi 1000 manns verið samtímis á sama fjallinu. Látum vita af þessu þegar nær dregur. Væri gaman að ná markmiðinu.“
 

Hjálmar Árnason að koma af Leggjabrjóti.
 
 
Public deli
Public deli