Mikil vitundarvakning um umhverfismál og mikilvægi þess að endurnýta
Þórlaug Jónatansdóttir er FKA kona mánaðarins
Markmið með verkefninu er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnum sem þær sinna og sýna hversu megnugar og magnaðar þær eru.
Nafn: Þórlaug Jónatansdóttir.
Aldur: 57 ára.
Menntun: BS í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og MBA nám frá Háskóla Íslands. Þá er ég með alþjóðleg kennararéttindi í Kundalini jóga.
Við hvað starfar þú og hvar?
Eigandi og framkvæmdastjóri Trendport ehf. sem er staðsett á Hafnargötu 60 í Reykjanesbæ. Þá er ég formaður samtakanna Betri bær en tilgangur félagsins er að efla samvinnu verslunar- og þjónustufyrirtækja í Reykjanesbæ.
Hver eru helstu verkefnin?
Verkefnin sem fylgja því að vera eigandi fyrirtækis eru fjölmörg og það þarf að halda mörgum boltum á lofti í einu hvort sem kemur að markaðsmálum, fjármálum, tölvumálum eða starfsmannamálum – en fyrirferðamest eru samskipti við viðskiptavini, hvort sem eru básaleigjendur eða kaupendur í versluninni. Þá þarf stöðugt að vera að huga að umbótum og bæta verkferla.
Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?
Trendport er svokallaður loppumarkaður, þar sem viðskiptavinir geta selt og keypt notaðan fatnað og fylgihluti. Þegar ég ákveð að stofna Trendport þá hafði þetta rekstrarform verið að ryðja sér til rúms á höfuðborgarsvæðinu og það kom mér á óvart að þessi þjónusta væri ekki í boði á svæði sem telur 27.000 manns og ákvað að láta reyna á það og viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum. Að sjálfsögðu þurfti að aðlaga reksturinn að Covid en í dag hefur eftirspurnin heldur betur tekið við sér og allir básar meira og minna í útleigu. Þá er stöðugur straumur af erlendum ferðamönnum sem koma í verslunina enda staðsetningin frábær í hjarta Keflavíkur og hótel og gistiheimili allt í kring. Það hefur orðin mikil vitundarvakning í þjóðfélaginu um umhverfismál og mikilvægi þess að endurnýta. Á öllum heimilum safnast mikið af notuðum flíkum sem ekki er notaður lengur. Þar liggja mikil verðmæti og flestum þykir í dag sjálfsagt að selja vel með farnar flíkur og í sumum tilfellum ónotaðar, frekar en að vera með fullar geymslur og skápa. Svo er náttúrlega allra hagur að taka þátt í hringrásarhagkerfinu.
Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera?
Áhugamál mín eru fjölmörg og hef ég lagt áherslu á að stunda hreyfingu nokkrum sinnum í viku því ég geri mér grein fyrir mikilvægi þess að rækta líkama og sál þegar álagið er mikið. Seinustu ár hef ég stundað Superform í Sporthúsinu og síðan hef ég verið að hlaupa aðeins og er nýbyrjuð að æfa með hlaupahóp 3N sem er mjög spennandi.
Hvað hefur þú verið að gera, hvað ertu að gera núna, framtíðarplön?
Foreldrar mínir eru Sólveig Þórðardóttir, ljósmóðir, og Jónatan Björns Einarsson sem er látinn. Ég er gift Sigurgesti Guðlaugssyni, verkefnastjóra atvinnuþróunar hjá Reykjanesbæ, og við eigum tvær dætur og tvær hressar ömmustelpur. Við fjölskyldan höfum verið að ferðast mikið innanlands í hjólhýsinu okkar undanfarið og stefnum á að gera áfram.
Reynsla: Áður en ég stofnaði Trendport starfaði ég hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem markaðsstjóri og verkefnastjóri. Þar áður var ég yfirmaður innheimtumála hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.
Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum?
Ég er fædd og uppalin í Keflavík, fyrstu árin á Sólvallagötu 2 (gamla bókabúðin) og síðan hef ég búið í hinum ýmsu hverfum Reykjanesbæjar, fyrir utan eitt ár sem ég bjó í Reykjavík.
Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum?
Kostirnir eru fjölmargir, en fyrir mér er það helst hvað það er gaman að lifa og starfa í svona kraftmiklu og fjölbreyttu samfélagi sem Reykjanesbær er. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með allri þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Þegar ég var að alast upp þekktu allir alla en í dag hefur það breyst mjög mikið. Þá skiptir mig það máli að fjölskyldan mín býr á svæðinu, ég er yngst af fimm systkinum og búa þau öll á Suðurnesjum fyrir utan eitt, við erum dugleg að hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman. Þá er gaman að segja frá því að afi minn, Þórður Einarsson, rak vinsæla sjoppu sem var kölluð Dorró beint á móti þeim stað sem Trendport er núna og er hún núna sumarbústaður fjölskyldunnar vestur í Dölum.
Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes?
Ég var mjög ánægð þegar ég frétti að þessar frábæru konur hefðu tekið af skarið og stofnað Suðurnesjadeild, því ég hafði oft hugsað um að það væri þörf á því í okkar samfélagi, þar sem svo margar magnaðar konur eru að gera flotta hluti.
Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu?
Ég skráði mig í FKA því góð vinkona mín úr MBA-náminu, sem var í félaginu í Reykjavík, var dugleg að fá mig með sér á viðburði og þá sá ég hvað þetta var bæði uppbyggilegur og skemmtilegur félagsskapur.
Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
Mér finnst frábært að geta hitt aðrar konur í atvinnulífinu og að við getum deilt reynslu. Ég vonast til að geta verið duglegri að mæta á viðburði í vetur en þeir sem ég hef sótt hingað til hafa heppnast mjög vel.
Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum?
Hugrekki felst í því að taka áhættu og sá sem aldrei gerir mistök gerir aldrei neitt.
Þórlaug er dugleg að hreyfa sig.