Mikil upplifun að vera í kosningaeftirliti í Azerbaijan
- Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur flutt frumvörp um fánalög og líffæragjafir
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru fimmtíu og sex talsins. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE auk Bandaríkjanna, Kanada, Kasakstan, Kirgisía, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.
Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda ÖSE á vettvangi (OSCE missions) í aðildarríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi. Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt sérstaka áherslu á vernd mannréttinda og baráttuna gegn mansali auk aðgerða stofnunarinnar til að stemma stigu við hryðjuverkum.
Þau Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður og Birgir Þórarinsson, guðfræðingur og fyrrverandi varaþingmaður ásamt Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi voru send fyrr í mánuðinum
til Azerbaijan á vegum Utanríkisráðuneytisins til að gegna kosningaeftirliti á vegum ÖSE við forsetakosningarnar sem fram fóru þann 9. október sl. Víkurfréttir heyrðu í Silju um þessa ferð
og spurði hana í hverju starf þeirra hafi verið fólgið og hvernig það hafi farið fram?
„Leiðangurinn var mjög vel skipulagður af hálfu ÖSE og í tvo daga vorum við á námskeiði um hvernig við ættum að sinna okkar störfum. Öryggisgæslan var einnig mjög góð og allar upplýsingar sem við fengum mjög greinargóðar. Á þriðja degi vorum við síðan send á okkar eftirlitssvæði en landinu var skipt í 15 svæði. Minn hópur var á svæði tólf en hópinn skipuðu fjórtán einstaklingar alls staðar að úr heiminum; Kazakstan, USA, Spáni, Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Við vorum síðan pöruð saman og minn félagi var reyndur maður sem hafði farið í 11 slíkar eftirlitsferðir víða um heiminn. Hann heitir Bernhard, 67 ára gamall dómari frá Karlsruhe í Þýskalandi. Eðal náungi.
Fyrsta daginn á svæðinu hittum við bílstjórann okkar og túlkinn en við ferðuðumst alltaf fjögur saman. Þá fórum við um okkar kjördæmi, kynntum okkur aðstæður, kynntum okkur á kjörstöðum, tímamældum okkur og kortlögðum leiðina sem við ætluðum að fara á kjördag. Á kjördaginn sjálfan, þann 9. október þá vöknuðum við fyrir allar aldir til að vera viðstödd opnun kjörstaðar, en hlutverk okkar fólst í að fylgjast með opnun, fara á milli kjörstaða yfir daginn, vera viðstödd talningu um kvöldið og síðast en ekki síst fylgjast með úrvinnslu kjörgagna um nóttina. Þetta gerðum við Bernhard samviskusamlega allan daginn, fylltum út eyðublöð og skiluðum þeim reglulega af okkur með faxi til Baku þar sem úrvinnsla tölfræðiupplýsinga fór fram.
Daginn eftir hittist hópurinn á svæði tólf, fór yfir reynsluna og síðan var haldið af stað aftur til Baku. Þegar þangað var komið var fundað með stjórn kosningaeftirlits ÖSE og öllum 300 einstaklingunum sem tóku þátt í eftirlitinu um land allt. Þá voru komnar fyrstu niðurstöður úr eftirlitinu og þær voru kynntar fyrir okkur.“
Hvernig upplifðir þú samfélagið þarna úti?
„Ég get að minnsta kosti sagt að þetta var lífsreynsla sem ég mun ávallt búa að; mjög lærdómsríkt. Borgin Baku sem stendur við Kaspíahaf er í örum vexti enda er landið mjög auðugt af olíu og gasi. Þannig að þarna er mikið af mjög ríku fólki en líka mjög fátæku. Baku er merkileg borg fyrir margt, fornminjar og nútímaarkitektur. Ég var staðsett í landbúnaðarhéraði og þar var sagan allt önnur. Aðbúnaður fólks er mjög langt frá því sem við eigum að venjast hér á landi. Vegir voru flestir í lamasessi, mörg þorp hafa ekki gas eða vatn, rafmagnsflutningur er alla veganna en er eitthvað að skána samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk. Þeir eru ekki með sorphirðukerfi og því er rusl mjög víða og vandamál og þarna er heldur ekki skolpkerfi. Þannig að innviðirnir eru víða skammt á veg komnir. Hið sama má segja um lýðræðið en athugun ÖSE sýndi fram á að því væri verulega ábótavant. En fólkið sem ég hitti var allt mjög vingjarnlegt og okkur var alls staðar boðið te. Skoðanaskiptin urðu þó að fara fram í gegnum túlkinn þar sem annað tungumál á eftir azeri er rússneska. Azerar eru af tyrkneskum uppruna. Þeir eru múslimar en mjög frjálslyndir og hefur gengið mjög vel að lifa í sátt með ýmsum þjóðarbrotum sem í landinu búa.“
Þú hefur verið dugleg á Alþingi í haust, með þrjú frumvörp og þingsályktun um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Hvaða vonir hefurðu um að frumvörpin nái fram að ganga?
„Ég mælti fyrir tveimur frumvörpum í síðustu viku. Bæði fjalla um útvíkkun á fánalögum. Hið fyrra um leyfi til að nota íslenska fánann við markaðssetningu á íslenskum vörum og hitt er um útvíkkun fánatímans svo fáninn okkar verði sýnilegri, þ.e. að hann megi vera uppi allan sólarhringinn yfir sumartímann og alltaf ef hann er flóðlýstur. Þriðja frumvarpið fjallar um breytingar á lögum um líffæragjafir, þ.e. að gengið verði út frá ætluðu samþykki þegar fólk deyr. Nú eru lögin þannig að fólk verður að skrá ef það vill gefa. Ég vil snúa þessu við og tel eðlilegt að flestir vilji láta gott af sér leiða ef þeir geta og því verði gengið út frá ætluðu samþykki. Öll þessi frumvörp hafa verið flutt áður en ekki hlotið afgreiðslu þannig að ég á von á að þau verði samþykkt á þessu þingi; ég vona það að minnsta kosti.
Ég veit ekki enn hvenær þingsályktunartillagan um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja kemst á dagskrá. Það mál er mun pólitískara en hin þrjú og verður eflaust þingra í vöfum. En að mínu mati er full ástæða til að halda því máli á lofti þar sem starfsemi Landhelgisgæslunnar er nú mjög dreifð og aðstaðan á Reykjavíkurflugvelli, þar sem þyrlusveitin er staðsett, fyrir löngu úr sér gengin. Framtíðarstaðsetning Gæslunnar hefur enn ekki verið ákveðin. Á öryggissvæðinu á Ásbrú er hins vegar mjög góður húsakostur, nægt landrými, velvilji sveitafélaganna er til staðar og Njarðvíkurhöfn er talin henta mjög vel fyrir flota gæslunnar.“