Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikil uppbygging á Suðurnesjum í kjölfar strands Jamestown
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
sunnudaginn 19. desember 2021 kl. 07:20

Mikil uppbygging á Suðurnesjum í kjölfar strands Jamestown

Halldór Svavarsson hefur verið með söguna um Strand Jamestown á bak við eyrað í aldarfjórðung en hefur helgað sig verkefninu síðustu fjögur ár, lesið allt sem skrifað hefur verið um skipið og velt við öllum steinum.

Hvað varð til þess að þú skrifaðir þessa bók?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fyrir allmörgum árum síðan, sennilega 25 árum, fór ég með Lionsklúbbnum mínum úr Hafnarfirði hingað suður. Skólakennari var upplýsa okkur í ferðinni og segja okkur eitt og annað og minntist á þetta skip en sagði nú lítið um það. En þetta vakti áhuga minn. Síðan fór ég að viða að mér efni og lesa mig til. Það er víða minnst á þetta strand en hvergi verið skrifaður samfelldur texti um allt sem hægt er að segja, heldur eins og menn upplifðu þetta hér á landi og töldu að væru geysileg verðmæti í silfri í skipinu. Síðan eru mörg hús byggð úr þessu efni, níu íbúðarhús í Höfnum, fyrir utan öll önnur hús, útihús og allt saman. Einhvers staðar sá ég að talað var um að heilsufar hefði almennt batnað. Það voru vegna þess að fólk fór úr misgóðum torfhúsum yfir í ný timburhús.

Það eru ennþá allmörg hús sem standa uppi, til dæmis í Keflavík og víðar, sem búið er að byggja við eða hafa verið rifin og hluti af efninu hefur verið notað í annað og ég veit um eitt slíkt hús í Hafnarfirði líka.

Svo má segja að uppbyggingin hafi verið alveg sérstök. Þetta var mikið kuldatímabil. Fólk yfirgaf heiðarbýlin inn til dala. Það var um tvennt að ræða; annað hvort að fara til Ameríku og freista gæfunnar þar eða setjast að við sjávarsíðuna. Við sjávarsíðuna vantaði alltaf fólk í vinnu. Og útvegsbændur sem þar voru, þeir voru þakklátir fyrir að fá þetta fólk og þeir útveguðu þessu því land undir lítið hús og þau voru síðan nefnd tómthús. Þarna bjó fólk sér heimili en þessi hús eru nú flest eða öll farin. Tómthúsin voru svo mörg að það varð mikil uppbygging á Suðurnesjum einmitt vegna þessara húsa. Fólkið margt ílentist þar og sennilega hefur hvergi verið önnur eins uppbygging á skömmum tíma og alveg klárt mál að þetta var ekki slegið út fyrr en á stríðsárunum með komu hersins. Fram að því var þetta mesta uppbygging sem átti sér stað á Suðurnesjum þó þetta væru lítil hús, þá dugðu þau enda þörfin mikil.“

Halldór Svavarsson, höfundur bókarinnar um strand Jamestown segist hafa verið óragur við að banka uppá í húsum sem hann hafi heyrt að væru byggð úr timbri úr þessu stóra skipi. Þá segir hann að eftir að bókin var prentuð hafi hann fengið mikið af upplýsingum sem bæta við söguna.

Keyptu sína síðuna hvor

Þegar skipið klofnaði á strandstað hafi Duus kaupmaður í Keflavík keypt aðra síðu skipsins og notað viðinn m.a. til að byggja það hús sem í dag er þekkt sem bíósalur Duus í Grófinni. Hina síðuna keypti Ketill stórbóndi í Kotvogi sem var talinn einn ríkasti maður Íslands á þessum tíma. Síðurnar voru engin smásmíði en þær voru fimm metrum lengri en knattspyrnuvöllur, yfir hundrað metrar.

„Það voru þvílík verðmæti í kringum þetta allt saman. Bara það að skipið var klætt með eir. Ketill í Kotvogi eignaðist mörg tonn af eir sem hann seldi til Englands og fékk fyrir fullt af peningum, enginn veit hvað mikið. Allt skipið var neglt saman með koparnöglum. Það mátti ekki nota járn, það ryðgar og gat skemmt timbrið. Svo þegar eir og járn liggur saman þá eyðir eirinn járninu. Menn vildu forðast trjámaðkinn.Það var ekkert ráðið við ef hann komst að og ekki var hægt að taka svona stór skip í slipp á sínum tíma,“ segir Halldór um skipið og þau verðmæti sem fengust úr flaki þess.

Strand Jamestown við Hafnir var stór atburður á sínum tíma. Á þessum tíma var mikill ís, það var hægt að ganga á ís frá Reykjavík og út í Viðey og eins var hægt að ganga á ís á Breiðafirði, m.a. út í Flatey. Ísinn kom að Suðurnesjum að vestanverðu. Það var hátt fiskverð hjá kaupmönnum en aflinn var lítill.

Margir vildu komast í pottinn

„Þannig að þetta var mikill fengur að fá þetta timbur og þá var slegist um að fá það. Þetta var notað í allt. Venjulega áttu þeir sem áttu jarðir og strendurnar, rekann sem þangað kom. Strand Jamestown flokkast ekki undir reka. Þetta hlaut að flokkast undir strand og þar með heyrði það undir yfirvaldið. Það var heilmikil barátta. Margir vildu komast í pottinn og fá eitthvað úr þessu. En almennt græddu menn vel á þessu og varð til að bjarga mörgum manninum og heimilum.

Það voru tveir menn sem gerðu tilboð í að bjarga timbrinu úr skipinu en eftir að þeir höfðu klárað efstu lestina, voru þeir búnir að fá nóg. Þá voru tvær lestar eftir og þeir sögðu sig frá verkinu og bændur tóku sér saman og fengu Duus kaupmann til þess að vera í forsvari til þess einmitt að reyna að bjarga því sem bjargað yrði og þeir björguðu miklu fyrir sjálfa sig. Menn fóru fjórir til fimm hóp og björguðu timbri, komu því í land og þannig eignuðust margir mikið timbur sem þeir gátu selt austur um allar sveitir, hingað og þangað og hverjum sem var.“

Búinn að lesa allt sem hefur verið skrifað um Jamestown

Halldór segir heimildavinnuna hafa verið sérstaka. Málið vakti áhuga hans fyrir 25 árum en síðustu fjögur ár hefur hann helgað sig þessu verkefni eingöngu. „Ég er búinn að lesa að ég held allt sem hefur verið skrifað um þetta strand í tímaritum, blöðum og fréttum. Svo byrjar ballið, það er að bera saman fregnirnar. Þeim ber alls ekki saman. Frásagnir byggðust mikið á kjaftasögum og því krassaðri sem þær voru því skemmtilegri voru þær sem þýðir að þegar ég fer að rekja þetta nota ég hyggjuvit, ef ég hef eitthvað af því, til þess að koma þessu saman í einhvern veginn svona það sem ég trúi því sjálfur að sé raunveruleiki.

Ég var svo heppinn að ég fékk Jónas Sigurgeirsson útgefanda hjá Almenna bókafélaginu. Hann er ákaflega fær og góður útgefandi, hefur gott lag á því að velja sér aðstoðarfólk og samstarfsfólk sem kann til verka. Þar er maður sem kann að leita upplýsinga í útlöndum í upplýsingabönkum þar sem eru með heimildir af ýmsu tagi. Eitthvað sem ég kann ekkert á. Hann leitaði eftir þessu og þaðan koma upplýsingarnar um það hvað  gerðist úti í Ameríku áður en skipið kom til Íslands, þegar það fórst og ýmsar aðrar upplýsingar. Ég hef samviskusamlega skrifað þetta niður og gert það eins vel og ég hef haft vit og getu til. Svo er ég svo heppinn að vera orðinn svo gamall og eiga nægan tíma. Ég hef nýtt mér hann óspart og konan mín hefur liðið mér það að leggja undir mig borðstofuborðið í fjögur ár og aldrei kvartað og bara kát við kallinn sinn eins og þar stendur,“ segir Halldór Svavarsson, höfundur sögunnar um Strand Jamestown úti fyrir Höfnum 1881.