Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikil þörf á kynfræðslu fyrir fullorðna
Mynd úr einu af fræðslumyndböndum Siggu Daggar
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 07:00

Mikil þörf á kynfræðslu fyrir fullorðna

Sigga Dögg, kynfræðingur, hefur stofnað kynlífsstreymisveituna Betra kynlíf fyrir fullorðna. Auk þess að svara hinum ýmsu spurningum býður hún upp á myndbönd sem innihalda fyrirlestra og viðtöl við sérfræðinga. Þá geta notendur veitunnar gerst áskrifendur og fengið aðgang að ítarlegra efni.

Kynfræðsla fyrir fullorðna er nýr angi í vinnu Siggu Daggar en eina fræðslan sem hún hefur verið með fyrir þennan hóp er fyrir fagfélög, foreldra barna og í gæsapartýum. „Þar [í gæsapartýum] fann ég hvað það er ótrúlega mikil þörf fyrir kynfræðslu fyrir fullorðna,“ segir Sigga Dögg og bætir við: „Fólk er svo þakklátt fyrir að fá þessi verkfæri. Við erum ekki lengur föst í sama mótinu, það þurfa ekki allir að gera hlutina eins. Nú mátt þú bara finna þig og máta alls konar.“

Setur sig í spor blaðamannsins

„Ég tek viðtölin fyrir síðuna. Mér finnst það geggjað, ég vann náttúrlega hjá Fréttablaðinu og var að taka viðtöl þar og skrifa. Svo er ég núna búin að gera tvær sjónvarpsþáttaseríur hjá Stöð 2 og var að taka viðtöl þar líka. Ég var oft að segja þetta við Fréttablaðið að viðtölin eru oft ótrúlega djúsí og það er svo leiðinlegt að þurfa að kjarna þau svona mikið og missa þar af leiðandi mikið af efninu út,“ segir Sigga Dögg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið Siggu Daggar er búa til vettvang þar sem fræðsla og umræða um kynlíf fær pláss. „Þarna er hægt að finna upplýsingar um kynlíf frá A til Ö. Ég hef séð hvernig fjölmiðlar taka upplýsingar og vinna með þær. Svona efni er mjög mikið lesið og fólk er greinilega mjög áhugasamt en auðvitað eru þeir sem starfa í fjölmiðlum ekkert sérfræðingar í þessu. Þannig ég hugsaði með sjálfri mér, hvað ef það er bara hægt að gefa þessu ógeðslega mikið pláss og einstaklingur getur þá bara fræðst mikið um kynlíf með ólíkum hætti frá fyrstu hendi í gegnum sérfræðinga sem eru með mestu þekkinguna,“ segir Sigga Dögg.

Mynd úr einu af fræðslumyndböndum Siggu Daggar
Svar við úreltum hugmyndum

Hún segir streymisveituna vera vettvang þar sem hún getur fjallað um alla heimsins hluti með óhindruðum hætti. Sigga Dögg segir veituna einnig vera nokkurs konar lýðheilsuverkefni og sé svar við úreltum hugmyndum og mikilli eftirspurn á ráðgjöf. „Það er átján mánaða biðlisti í kynlífsráðgjöf á Íslandi þannig þarna er bara tækifæri til að veita fullorðnum einstaklingum mikinn fróðleik til að bæta vellíðan þeirra og sambönd. Stór hluti af kynlífsráðgjöf er kynfræðsla fyrir fullorðna, af því það eru svo mikið af úreltum hugmyndum sem þarf að pota í,“ segir hún. 

Það er ósk Siggu Daggar að skapa samfélag þar sem hægt er að tala opinskátt um allt er viðkemur kynlífi og segist hún ætla að þróa streymisveituna með áskrifendum. „Mig langar að halda þessu verkefni lifandi áfram af því það er alltaf að koma eitthvað nýtt. Þegar það kemur eitthvað upp í þjóðfélaginu sem við þurfum að gefa betra rými og fjalla betur um þá sé ég um að halda því lifandi. Mig langar líka að þróa þetta svolítið með áskrifendum,“ segir Sigga Dögg.