Mikil stemmning á ATP tónlistarhátíðinni á Ásbrú
Nick Cave datt á sviðinu en lét það ekki á sig fá og kláraði frábæra tónleika.
Mikil stemmning var á Al Tomorrows Parties, ATP tónlistarhátíðinni sem haldin var á Ásbrú föstudag og laugardag. Hápunktur hátíðarinnar var í gærkvöldi þegar hljómsveitin Nick Cave and The Bad Seeds kom fram. Í upphafi tónleika sveitarinnar í gærkvöldi datt Nick Cave af sviðinu en meiddist ekki og hélt áfram að syngja og kláraði tónleikana með stæl.
Nick Cave and The Bad Seeds var stærsta númerið hátíðarinnar og það var greinilegt að tónleikagestir voru í góðum fíling þegar sveitin kom fram. Nick Cave var í góðu stuði þrátt fyrir óvænt fall.
Tónleikahaldið heppnaðist í heild mjög vel, ekki er vitað um fjölda gesta en mikill fjöldi var í Atlantic studeo byggingunni á laugardagskvöldið en það var aðal tónleikastaður hátíðarinnar. Þegar VF kom þar við var stemmningin mjög góð og að sögn lögreglu á staðnum hafði ekkert komið upp sem hún þurfti að skipta sér af. Þeir tónleikagestir sem VF talaði við lofuðu framtakið mjög mikið og allt skipulag á hátíðinni. Veðrið lék við gesti og fólk fór út fyrir þar sem hægt hægt að kaupa veitingar og setjast niður. Einnig voru uppákomur í Andrews Theater og Officera klúbbnum.
Fyrra kvöldið var Mugison stærsta númerið og þótti hann fara á kostum en fleiri áhugaverð bönd komu einnig fram.
Samfara tónlistarhátíðinni var boðið upp á aðra afþreyingu. Þar má nefna að bíósýningar yfir daginn en það er fastur liður á ATP hátíðinni sem haldin er víða um heim. Einnig stýrði Dr. Gunni Popppunkti og þá fór fram fótboltamót þar sem tónlistarmennirnir léku gegn tónleikagestum.
Þegar hátíðin var kynnt í apríl var sagt frá því að Jim Jarmusch leikstjóri myndi velja bíómyndirnar annan daginn í Andrews Theater. Hinn daginn valdi Óskarsverðlaunahafinn Tilda Swinton kvikmyndirnar sem sýndar voru. Leikkonan var á svæðinu í gær og VF hitti gesti sem spjölluðu við hana og fengu myndir af sér með henni.
Ljóst er að Ásbrúarsvæðið er hentugt fyrir svona tónleikahald og Keflvíkingurinn Tómas Young sem stóð að hátíðinni sagði fyrir helgina að ef vel gengi væri stefnan að halda ATP aftur að ári. Hann var í hópi fjölda gesta sem hlustuðu á Nick Cave og félaga og virtist sáttur með gang mál, enda ekki anað hægt.
Hér má sjá fleiri myndir frá fjörinu í gær.
Tómas Young sést hér í hópi fjölda gesta á ATP hátíðnni í gær þegar Nick Cave var á fullu „blasti“.