Mikil hópsál með gott bakland
Starf föður Bjarneyjar sem lögreglumanns heillaði hana alltaf og henni þótti búningurinn flottur og gaman að fylgjast með þegar faðir hennar var sóttur í vinnuna á lögreglubíl. Hún hefur starfað sem lögreglumaður í hartnær 13 ár í vor og segir starfið alls ekki erfiðara en hún bjóst við. Það sé frekar meira gefandi ef eitthvað er, fjölbreytni mikil í verkefnum sem og tækifærin mörg.
Fer lengra á að vinna með góðu fólki
Staða aðalvarðstjóra við embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum er skipuð af Ríkislögreglustjóra eftir ráðningarferli. Hún var auglýst, hópur fólks sótti um og sex enduðu í starfsviðtölum. Að lokum stóð valið á milli tveggja einstaklinga, að þessu sinni karls og konu. Bjarney segist hafa sótt sér menntun í tímans rás til þess að vera öflögur umsækjandi. „Ég var hvött til þess að sækja um stöðuna úr ýmsum áttum og er með gott bakland. Maður fer lengra á því að vinna með góðu fólki, hafa löngunina til að fara lengra og setja sér markmið.“
Stórt áhugamál að koma öðrum í form
Óhætt er að segja að Bjarney sé upptekin kona með mörg járn í eldinum. Fyrir utan starf sitt í lögreglunni og sem stundakennari í Lögregluskólanum þjálfar hún og leiðbeinir í Metabolic í Reykjanesbæ. Hún segir að þar sé mikið unnið með eigin þyngdir iðkenda og lóðum svo bætt við miðað við getu hvers og eins. „Ég kláraði einkaþjálfaranám hjá ÍAK og bauðst svo að koma að þjálfa þarna í vor. Finnst ég hafa gaman að því að leyfa fólki að taka aðeins á því. Er líka í hóp sem heitir Elíturnar sem höfum æft saman lengi.“
Hittast í dyrunum á milli vakta
Ofan á þetta allt er hún við það að ljúka meistaranámi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. „Já ég hef verið að dingla mér í náminu með, er búin með rannsóknir tengdar lokaverkefni sem fjallar um Heilsuskóla Barnaspítalans fyrir börn sem eru í ofþyngd. Það miðar að því að finna fyrir þau hreyfingu við hæfi; sýna þeim fram á þá fjölbreytni sem er til staðar,“ segir Bjarney. Eftir upptalningu þess á daga Bjarneyjar drífur spyrja sig eflaust margir hvernig henni gangi að tvinna saman starf og einkalíf. Hún á rúmlega 3ja ára stúlku og 10 ára stjúpson með sambýlismanni sínum, Sigurði Kára Guðnasyni, sem einnig er lögreglumaður. „Við vinnum á sitthvorri vaktinni og hittumst oft í dyrunum og þar fara fram díalógur um hvað búið er að gerast og hvað þarf að gera,“ segir Bjarney hlæjandi.
„Jafn sterk og hópurinn sem ég tilheyri“
Um vinnustaðinn lögreglustöðina segir Bjarney starfsandann vera góðan og að allir séu miklir félagar sem hafi góð áhrif hver á annan. Forréttindi séu að fá að starfa þar. Spurð um hvaða persónueinkenni hennar njóti sín best í starfinu svarar hún fljótt: „Ég er mjög skipulögð. Og svo reyni ég alltaf að vera jákvæð og glöð. Það er mikilvægt þótt starfið sé erfitt. Getur haft mikil áhrif á það hvernig við tæklum verkefnin með réttu viðhorfi. Já, og svo er ég ákveðin líka, sem þarf í þessu starfi.“ Annars tekur Bjarney skýrt fram að hún sé mikil hópsál og vilji að fólk vinni saman sem ein heild. Verkefnin séu alltaf hópsins, ekki einstaklingsins. „Maður er jafn sterkur og hópurinn sem maður tilheyrir. Og maður nær ekki langt nema hafa gott bakland, góða félaga og fjölskyldu,“ segir Bjarney að lokum.