Mikil gróska í starfi KFUM og KFUK
Alls tóku 322 börn þátt í starfi KFUM og KFUK í Reykjanesbæ í vetur sem er þó nokkur aukning og mættu að jafnaði yfir 100 börn á fundi vikulega.
Þátttakendur voru flestir á aldrinum 9 - 16 ára og má segja að ríflega fimmta hvert barn á þeim aldri hafi tekið þátt í starfinu. Alls voru 30 eldri ungingar voru skráðir í unglingadeild.
Þetta kemur fram í ársskýrslu KFUM og KFUK í Reykjanesbæ 2004 - 2005.
Flestir þátttakenda voru fæddir 1991 sem skýrist að nokkru leyti af því að á liðnu hausti gerðu KFUMK og KFUK og Keflavíkurkirkja með sér samkomulag um að þau börn sem fermdust vorið 2005 gætu mætt á fundi KFUM og KFUK og fengið það metið sem þátttöku í undirbúningi fermingarinnar. Þátttaka barna í Keflavík er nokkuð meiri en þátttaka barna í Njarðvík sem skýrist líklega mest af staðsetningu félagsheimilisins sem er við Smáratún í Keflavík.
Venjulega er haldinn einn fundur í viku hjá hverri deild og um 30 fundir yfir veturinn fyrir hvern aldurshóp. Að auki er þátttaka í ferðum og sameiginlegum atburðum á vegum landssambands KFUM og KFUK.
Meðal verkefna sem börn úr Reykjanesbæ tóku þátt í voru:
Fótboltamót YD KFUM, Sumarhátíð í Smáralind, Landsmót KFUM og KFUK og Miðnæturíþróttamót.
Nokkur þátttaka barna og unglinga úr Reykjanesbæ er að jafnaði í sumarbúðum KFUM og KFUK. Sumarið 2004 voru skráðir þátttakendur í sumarbúðum KFUM og KFUK frá Reykjansbæ um 130 talsins.
Lögð var áhersla á þjálfun leiðtoga sl. vetur og haldið helgarnámskeið í Kaldárseli fyrir leiðtoga í Reykjanesbæ. Markmið námskeiðsins var að auka þekkingu og færni leiðtoga í starfinu. Þátttakendur voru 18 á aldrinum 15 - 36 ára. Meðal þátttakenda voru allir 5 forstöðumenn þeirra deilda sem KFUM og KFUK stendur fyrir.
Viðhald
Skipt var um þak á félagsheimili KFUM og KFUK á árinu og var verkið allt unnið í sjálfboðavinnu. Fjöldi fyrirtækja gaf þjónustu sína eða efni. Meðal velunnara sem að verkinu komu voru:
Gunnar Valdimarsson, Hlynur Kristjánsson, Kristján Sigurðsson, Óskar Einarsson og Rúnar Valdimarsson smiðir. Fyrirtæki sem gáfu efni og þjónustu voru meðal annarra: Steypan, Nesprýði, Njarðtak, Kalka og ÍAV.
Einnig voru fráveitulagnir í lóð endurnýjaðar sem og vatnsinntak í húsið. Nokkrir aðilar gáfu vinnu sína við það verk s.s. Sögun ehf. og Gröfuþjónustan.
Gert er ráð fyrir að starfsemi félagsins verði með svipuðum hætti næsta vetur og 5 deildir starfandi. Lögð verður áfram áhersla á þjálfun og fræðslu leiðtoga.
Texti: reykjanesbaer.is, Mynd: kfum.is