Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikil gróska í grunnskólum
Laugardagur 24. febrúar 2007 kl. 01:57

Mikil gróska í grunnskólum

Kennarar og starfsmenn Heiðarskóla í Reykjanesbæ boða til málþings um skólamál laugardaginn 24. febrúar. Á málþinginu verða flutt 15 áhugaverð erindi um skólamál og er það án endurgjalds og ætlað foreldrum, kennurum og öllum þeim sem hafa áhuga á menntun barna og skólamálum. Að þeim loknum verða pallborðsumræður þar sem þátttakendur koma saman og ræða framtíð grunnskólans.

Það er ekki oft sem einstakur skóli hér á landi heldur svo umsvifamikið málþing, en starfsmenn skólans sjá um öll erindi, utan tveggja.

Í samtali við Víkurfréttir sögðu þau Gunnar Þór Jónsson, skólastjóri, og Sóley Halla Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri, að þeirra fólk hafi unnið mikið og gott undirbúningsstarf og voru þau spennt að sjá hvernig viðtökurnar verði. „Áherslurnar á þinginu verða ekki á einstakar bóklegar greinar heldur á aðra, mikilvæga þætti sem lúta að nemandanum sjálfum og hvernig honum líður í skólanum,“ segja þau.

Umfjöllunarefni málþingsins eru margvísleg. Má til dæmis nefna kynningu á Olweusaráætluninni gegn einelti en Heiðarskóli hefur unnið eftir henni síðustu ár.
Einnig verður þar kynning á „Uppeldi til ábyrgðar - uppbygging sjálfsaga”, en það er aðferð sem miðar að því að kenna börnum og unglingum sjálfstjórn og sjálfsaga. Það felur ekki í sér hefðbundið samspil umbunar og refsingar heldur snýst það um að hjálpa barninu til að átta sig á því sjálft hver æskileg hegðun sé.

„Tilgangur okkar með þessu málþingi er að sýna gróskuna sem á sér stað í grunnskólunum,“ segja þau Sóley og Gunnar. „Það er mikið að gerast og gott umbóta- og þróunarstarf unnið. Það hefur líka verið ótrúlega gaman að fylgjast með starfsfólkinu okkar við undirbúninginn. Það eru miklar pælingar í gangi. Fólk rýnir í sín störf og skoðar sínar áherslur, sem er mjög gott fyrir skólann.“

Erindin á málþinginu eru stutt og skilmerkileg, en þingið stendur frá kl. 10 til kl. 14 og er boðið upp á hádegishressingu um miðbik þess.

„Við erum að vonast til að sem flestir finni eitthvað áhugavert og með þessu vonumst einnig til að vekja almennan áhuga á skólamálum,“ bæta þau Gunnar og Sóley við. Þau segja að lokum að ekki sé loku fyrir það skotið að leikurinn verði endurtekinn síðar meir, ef vel tekst til að þessu sinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024