Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikið um að vera á Sólseturshátíðinni í Garði
Þriðjudagur 9. ágúst 2005 kl. 16:04

Mikið um að vera á Sólseturshátíðinni í Garði

Sólseturshátíðin í Garði verður haldin um næstu helgi. Boðið verður upp á hinar ýmsu skemmtanir, göngur, fræðslu og tónleika svo eitthvað sé nefnt.

Laugardaginn 13. ágúst klukkan 11:00 verður menningar- og sögutengd ganga um Garð.  Gangan hefst við íþróttahúsið klukkan 11:00. Gengið verður að fornmannaleiði, Útskálakirkju, hinum forna Skagagarði, Skálareyki og fiskihjöllum. Létt ganga og fróðleikur um sögu Garðs undir stjórn leiðsögumanna á Reykjanesi.

Sama dag klukkan 14:00 verður menningar- og sögutengd fræðsla fyrir börn og fullorðna í og við Byggðasafnið í Garðinum. Fræðsla um fugla, gamla vitann, skipströndin, Garðskagavita og skoðunarferð um Byggðasafnið. Fræðslan hefst við fuglaskiltin, sem eru við Garðaskagavita. Leiðsögumenn á Reykjanesi sjá um fræðsluna.

Ýmis verkefni fyrir börnin á laugardaginn klukkan 13:00 svo sem fuglakeppni og föndur undir stjórn Kristjönu Kjartansdóttur, kennara, þá verða litlir bátar til að fleyta í fjörunni. Farið verður í leiki með kennurunum Birni Vilhelmsson og Laufeyju Erlendsdóttur.

Tónelskir gestir hátíðarinnar geta hlustað á Trúbadora, harmonikkuleikara, söngkeppni auk þess sem hægt verður að skoða Dúkkusýninguna í Vitavarðahúsinu, Byggðasafnið og Vitann sem verða opnir á meðan á hátíðinni stendur

Hljómsveitin Grænir vinir mínir heldur uppi fjörinu með tónleikum klukkan 23:00. Kaffiterían Flösin verður opin alla hátíðina og á laugardagskvöldið verður opið til klukkan 3:00.

Sunnudaginn 14. ágúst klukkan 11:00 verður menningar- og sögutengd ganga frá Leirunni í Garði að Garðskagavita. Um þriggja tíma ganga um 5-6 km meðfram ströndinni. Fræðsla um minjar og staðhætti undir stjórn leiðsögumanna á Reykjanesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024