Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 29. janúar 2002 kl. 11:41

Mikið og öflugt félagslíf eldri borgara í Reykjanesbæ

Í Karlakórshúsinu að Vesturbraut 17 fer fram hluti félagsstarfs eldri borgara sem boðið er uppá af bænum. Þar er leirlist og glerlist og yfirleiðbeinandi yfir hópunum er Hrafnhildur Atladóttir.„Ég er búin að vera leiðbeinandi í næstum fimm ár, hér í glerklúbbnum kemur fólk með sjálfstæða vinnu og síðan eru líka námskeið og þegar fólk hefur lokið þeim getur það komið í klúbbinn", segir Hrafnhildur ánægð með klúbbinn. Meðlimir glerklúbbsins eru um það bil 15 talsins en núna eftir jólin er fólk seint að koma sér af stað auk þess sem veikindi hafa hrjáð hópinn. Í morgun þegar við litum inn í klúbbinn, voru fimm meðlimir mættir og var greinilegt að þau kunnu til verka og blaðamaður sá ekki betur en þarna væri fagfólk á ferð. Sigrún Sigurðardóttir hefur verið að föndra í gleri í mörg ár og segir það vera bæði gaman og eins sækist hún í félagsskapinn. „Mig langaði til að prufa eitthvað nýtt á sínum tíma. Ég nennti ekki að sitja heima alla daga og gera ekki neitt", segir Sigrún. Jóhanna Guðjónsdóttir og Áslaug Hilmarsdóttir eru líka búnar að vera í glerklúbbnum í nokkur ár og segja að enginn verði svikinn á að vera undir handleiðslu Hrafnhildar. Auk þeirra voru mætt Trausti Björnsson og Gunnlaug Ólsen til að vinna að verkum sínum.
Íþrótta- og tómstundaráð bæjarins bíður upp á fleira en leirlist og glerlist, í Selinu er boðið uppá almenna handavinnu og silkimálun og í aðstöðu eldri borgara við Suðurgötu er boðið uppá almenna handavinnu þrisvar sinnum í viku. Auk þessa er leikfimi í íþróttahúsinu og Boccia í kjallara sundlaugarinnar, auk þess sem 99 virkir félagar eru í púttklúbbi eldri borgara. Hér fyrir neðan eru myndir frá klúbbstarfi glerklúbbsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024