Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikið jólabarn sem blandar saman jólahefðum
Alexandra er tilbúin í blönduð jól. 
Laugardagur 4. desember 2021 kl. 06:50

Mikið jólabarn sem blandar saman jólahefðum

Ópereusöngkonan og söngskáldið Alexandra Chernyshova blandar saman íslenskum og rússnesk/úkraínskum jólahefðum

Alexandra Chernyshova er fædd í Kænugarði í Úkraínu og bjó bæði þar og í Rússlandi þar til hún fluttist til Íslands árið 2003. „Jólin eru skemmtilegur tími fyrir mig, ég er mikið jólabarn og það skiptir mig miklu máli að halda í hefðir og kynna þær fyrir fjölskyldunni minni,“ segir Alexandra.

Fjölbreytt jólahald og mikið um samveru og gjafir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólahátíðin byrjar 19. desember í Úkraínu og Rússlandi með degi heilags Nikulásar en þá fá börn gjafir undir koddann og jólahaldinu lýkur síðan með jólalokum þar sem gamla árið er kvatt og það nýja boðið velkomið 13. janúar. Aðaldagurinn í jólahaldinu er hins vegar nýárskvöldið. Þá hittum við vini okkar, förum út að borða og fögnum mikið. Við gefum góðar gjafir þetta kvöld. Rétt fyrir nýárið þá óskum við okkur einhvers góðs fyrir næsta ár. Jólin sjálf eru frá 6. til 7. janúar og þá borðum við hefðbundinn úkraínskan/rússneskan mat, oft margréttað. Seinna um kvöldið er hægt að sækja messu sem stendur alla nóttina en í gegnum þá athöfn þarf maður að standa. Um jólakvöldið og -nóttina er mikill söngur og oft hefð fyrir því að börn fari á milli húsa og syngi jólalög og fái í staðin litlar gjafir og peninga. Börnin kasta hrísgrjónum inn í húsin áður en þau byrja að syngja, við misjafnar undirtektir húsráðanda, og óska þeim um leið góðs gengis á nýju ári! 

Góður matur og gleði

„Heima hjá okkur þá býð ég upp á Bors, sem er úkraínsk rauðrófusúpa, ekki ósvipuð íslenskri kjötsúpu nema þar er lögð áhersla á svínakjöt á beini og rauðrófur. Síðan höfum við Pelmeni, sem er Ravioli hveitihálfmáni fylltur með kjöti og lauk auk þess rússneskar pönnukökur, strákunum okkar finnst þetta mjög gott. Það tekur töluverðan tíma að undirbúa þetta allt og dagurinn fer meira og minna í matarundirbúning hjá okkur sem allir taka þátt í. Við klæðum okkur síðan upp í úkraínska skyrtu, skreytum borðið með úkraínskum dúk og hlustum á rússneska/úkraínska tónlist. Um kvöldið kemur síðan í heimsókn til okkar rússneskur jólasveinn, Ded Moroz, og gefur okkur gjafir. Þannig höfum við búið til okkar jólahefð sem við erum ánægð með,“ segir Alexandra.

Á þessum hátíðisdögum er mikið verið að gefa og fá gjafir og úti í Úkraínu og Rússlandi er yfirleitt fjölbreytt jóladagskrá, leikrit, jólaböll, tónleikar og fleira þar sem börn klæða sig upp í jólabúninga. Það er gaman að segja frá að við Rúnar Þór, tenór, og Helgi, píanóleikari, höfum boðið upp á nýárstónleika undanfarin fjögur ár.

„Við blöndum síðan saman íslenskri og rússneskri/úkraínskri jólahefð þannig að það er mikið að gera hjá okkur og fjölbreytt fjör í mánaðartíma,“ segir Alexandra að lokum.

Pelmeni er Ravioli hveitihálfmáni fylltur með kjöti og lauk .

Alexandra skreytir borðið með úkraínskum dúk og hlustum á rússneska/úkraínska tónlist.